Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Það þarf ungt fólk í borgarstjórn!

Það þarf ungt fólk í borgarstjórn!

Ég gef kost á mér í 3 sæti í flokksvali Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.

Bætum stöðu ungs fólks
Ég tel mikilvægt að staða ungs fólks í borginni verði bætt. Samkvæmt skýrslu sem fjármálaráðherra lét gera að beiðni þingmanna Samfylkingarinnar kemur það í ljós að nú í fyrsta skipti hefur unga kynslóðin það mun verr en sama kynslóð fyrir tæpum þrjátíu árum. Staða hennar er jafnframt lakari en ungu kynslóðarinnar í öðrum vestrænum ríkjum og er hætta á því að þjóðin missi það úr landi.

Húsnæðisvandi
Húsnæðismálin í Reykjavík eru að reynast ungu fólki ansi erfið undanfarin misseri. Nóg er til af þéttingarreitum í borginni og vil ég að gengið sé strax í málið að bæta það. Úti á Granda hefur mannlíf aukist undanfarin ár, mikið af verslunum og þjónustu risið þar í kring en eitthvað minna af íbúðum. Flest ungt fólk sem býr í borgum vill búa á stað þar sem er mannlíf og gott aðgengi að allri helstu þjónustu. Örfirisey er tilvalin staðsetning fyrir uppbygginu á litlum og millistórum íbúðum og sé ég ekkert í fyrirstöðu að ráðist verði í framkvæmdi þar sem allra fyrst.

„Þróað land er ekki staður sem fátækt fólk á bíla. Það er staður sem hinu efnameiru nota almenningssamgöngur“.

Þessi fleygu orð sagði Enrique Penalosa, fyrrum borgarstjóri Bogotá í Kólumbíu. Það er mikilvægt að borgarbúar hafi val þegar kemur að samgönguleiðum og sjái hag í að nota þær.
Ég fagna umræðu um borgarlínu og aukinni áherslu á notkun almenningssamganga. Fólk þarf ekki að einskorðast við einn samgöngumáta heldur er nauðsynlegt að það hafi val. Það er mikilvægt að halda áfram að þétta byggð en ekki síður að blanda henni. Það gerir það að verkum að hægt sé að nálgast það helsta í sínu nærumhverfi sem maðurinn þarf í sínu daglega lífi. Skipulag sem þetta leiðir til styttri umferðartíma, manneskjulegs umhverfis og hollari borg því skipulagsmál eru lýðheilsumál.

Leikskólamál
Í velferðarsamfélagi eiga leikskólamál að vera forgangs atriði. Það er mikilvægt fyrir ungbarna foreldra að geta treyst á öfluga og trausta leikskólaþjónustu til þess að geta sótt nám og vinnu. Það er sóun að búið sé að byggja upp leikskóla en geta svo ekki nýtt þá til fulls vegna manneklu. Það er ólíðandi að börn séu send heim af því að það vanti starfsfólk. Það er orðið ljóst að kjör þessara stéttar er ekki nægilega góð og vil ég sjá það sem forgangsmál í kjarasamningum og ekki síst í ljósi launajafnrétti kynjana.

Jöfn staða fyrir öll börn
Íþróttir og tómstundaiðkun á að vera aðgengileg öllum. Mikið er af barnafólki sem á í fullu fangi með að greiða fyrir slíka iðkun og kemur það oft niður á þeim sem minna hafa á milli handanna. Borgin á að leggja áherslu á að jafna stöðu barna sem og áherslu á fjölbreyttar íþróttagreinar. Það er mikilvægt að íþróttafélög sem þiggja styrki frá borginni stilli gjöldum á börn og unglinga í hóf.

Útrýmum menntasnobbi
Það er mikilvægt að hæfileikar ungs fólks í list- og verkgreinum séu metnir jafnt hæfileikum í bóklegum fögum. Það þarf að útrýma menntasnobbi sem gerir það að verkum að litið sé á verklegt nám sem eingöngu úrræði fyrir ungt fólk sem ekki er eins gott á bókina.

Mikilvægi endurnýjunar í flokknum
Það er mikilvægt fyrir borgarstjórnarflokk Samfylkingarinnar að hafa fulltrúa ungu kynslóðarinnar um borð, sjálfbær endurnýjun á flokknum er skynsamleg því ekki hefur það reynst okkur vel að þurfa að skipta um alla áhöfnina í einum hnikk. Nú á dögunum var ég endurkjörinn formaður Hallveigar – félags ungra jafnaðarmanna Reykjavík. Á síðasta ári tókst okkur að halda uppi þróttmiklu málefnastarfi m.a. með fjölsóttum viðburðum sem fjölluðu fyrst og fremst um borgarmálin.

Ég er sannfærður um að við getum gert enn betur í að virkja ungt fólk til þáttöku starfi okkar jafnaðarmanna í Reykjavík m.a. í komandi kosningabaráttu. Það eru fjölmörg tækifæri framundan sem við verðum að nýta í þágu fólksins í borginni og tryggja áfram félagslegar áherslur í stjórn borgarinnar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni