Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Átti að fyrirgefa ofbeldið af því að hann var í AA

AA er fé­lags­skap­ur karla og kvenna sem sam­hæfa reynslu sína, styrk og von­ir svo þau megi leysa sam­eig­in­legt vanda­mál sitt, áfeng­is­böl­ið. Eina inn­töku­skil­yrð­ið er löng­un til að hætta að drekka. Þar er ekk­ert yf­ir­vald, eng­ar regl­ur eða úr­ræði til að taka á mál­um. Stemn­ing­unni á sum­um fund­um er lýst sem kjöt­mark­aði þar sem eldri menn leita í ný­liða­stelp­ur. Dæmi eru um að kon­ur mæti of­beld­is­mönn­um í AA sam­tök­un­um og sú krafa gerð til þeirra að þær fyr­ir­gefi of­beld­ið á þeim for­send­um að þeir séu edrú. Það hef­ur end­að illa.

Ég var nítján ára þegar ég hætti að drekka. Ég var búin að skemmta mér aðeins of vel, aðeins of lengi, og var ekki í tengslum við fólkið mitt, sem var hissa, sárt og reitt yfir framgöngu minni. Ítrekað hafði ég brotið á þeim og sjálfri mér. Aðallega sjálfri mér. Ég leitaðist eftir því að tína upp brotin og tjasla þeim aftur saman, styrkja sjálfsmyndina og finna sjálfa mig á ný. Þaðan lá leiðin upp á við.

Næstu árin var ég í AA þar sem ég eignaðist marga af mínum bestu vinum sem hafa fylgt mér fram á þennan dag. Ég er þakklát fyrir það líf sem ég eignaðist í og með AA samtökunum, þótt ég hafi fljótt þurft að læra að forðast leiðindi, baktal, væl og karla sem höfðu óþægilega mikinn áhuga á stelpum sem voru að koma nýjar inn, ungar, dálítið brotnar og létu reyna á mörkin. Ég lærði líka að það sem mér hafði verið sagt um samstöðuna í samtökunum var ekki allskostar rétt. Jú, auðvitað var viss hópur sem stóð saman í þessu stríði sem við háðum við Bakkus og fylgifiska hans, en það átti ekki við um alla. Sumir voru enn fastir í gamla farinu, óheiðarleikanum og eigingirninni sem einkenndi líf í neyslu, vildu bara fá sitt út úr veru sinni í samtökunum og kærðu sig kollótta um afdrif náungans. Þarna var allskonar fólk, með mismunandi sögu að baki og í misgóðum bata.

Einn daginn mætti ég á fund og sá þar mann ég þekkti og bara af illu. Hann hafði verið í ástarsambandi við bestu vinkonu mína og lagt á hana hendur. Oft. Svo oft að ég hafði ekki lengur tölu á því hversu oft hann hafði gengið í skrokk á henni svo stórsá á. Hún fór brotin upp á spítala. Einu sinni leitaði hún til mín eftir árásir hans, illa vönkuð eftir höfuðhögg. Hann átti það til að sparka í hausinn á henni. Á svipuðum tíma fékk hún fyrsta krampakastið. Í hvert sinn sem ég vissi af þeim saman óttaðist ég um afdrif hennar.

Af veikum mætti reyndi ég á sínum tíma allt hvað ég gat til þess að forða henni frá þessum manni, tala um fyrir henni, fá hana til þess að slíta sambandinu og standa með sjálfri sér. Þegar það gekk ekki reyndi ég að tryggja að hún væri ekki ein með honum, að við værum þá allavega saman, hann myndi þá kannski ekki leggja á hana hendur. Það var rangt. Í stað þess að halda aftur af sér beitti hann hana ofbeldi fyrir framan mig, eða okkur báðar. Það voru líka atvik þar sem hann beitti mig ofbeldi, án þess að hún væri nærri. Ofbeldisatvikin voru mörg, misgróf en alltaf vond. Ég ber enn ör eftir hann.

Við erum ekki einu stelpurnar sem hann hefur beitt ofbeldi. Ég veit um fleiri. Of margar til þess að ég vilji nokkurn tímann hafa hann nálægt mér eða mínum. En þarna var hann mættur. Í AA. Á fundinn minn. Þar sem ég þekkti hvern mann. Eina inntökuskilyrðið í AA samtökin er löngun til að hætta að drekka og ég hugsaði með mér að það væri þó skárra að vita af honum þar að reyna að gera eitthvað í sínum málum en úti að meiða fólk. Þannig að ég reyndi að hunsa hann, láta sem ég sæi hann ekki þar sem hann sat á móti mér. Svona gekk þetta í nokkur skipti, þar til hann elti mig út eftir fund, greip í mig og bað um símanúmer vinkonu minnar því hann hefði í hyggju að taka 9. sporið á henni. Ég var furðu lostin. Ætlaði hann virkilega að hringja í hana og biðja hana afsökunar á öllu ofbeldinu sem hann beitti hana, mig og fleiri nána aðstandendur hennar? Hvernig gat hann beðist afsökunar á því? Ef hann hefði velferð hennar í huga gat hann þá ekki látið hana í friði? Ef þetta væri réttmæt beiðni, ætti hann þá ekki að biðja mig afsökunar líka? Ég neitaði að gefa honum númerið en var illa brugðið.

Hendur mínar skulfu þegar ég kom út í bíl, þar sem AA félagar mínir og vinir biðu. Ég sagði þeim hvað hefði gerst, að hann hefði nálgast mig með þessa undarlegu beiðni. Ég vissi svo sem að hann væri siðblindur og gat skilið að hann hefði lent á lélegum sponsor, en ég gat ekki skilið viðbrögðin sem ég fékk þegar ég sagði samferðarfólki mínu í AA frá þessu, fólki sem ég var í trúnaðarsambandi við og þekkti þessa sögu, því ég fékk að heyra að auðvitað ætti ég að gefa honum tækifæri, hann væri að reyna sitt besta og reyna að vera edrú. Þeir sem það gerðu ættu rétt á fyrirgefningu. Skömmu síðar fór hann aftur í neyslu. Eftir þetta hætti ég í samtökunum og ákvað að fara mínar eigin leiðir, þar sem ég upplifði mig örugga.

Með myrkur í augum

Atvikið hafði ekki minni áhrif á vinkonu mína, sem var þá nýkomin inn í AA samtökin og bjó á áfangaheimili fyrir konur sem hafa lokið áfengismeðferð. „Ég gleymi því ekki þegar ég hljóp í síðasta skipti út frá honum,“ segir hún. „Þá var hann kominn með myrkur í augun og ég áttaði mig á því að hann ætlaði að fara að berja mig. Ég leit á útidyrahurðina og sá að hún var ólæst. Ég reyndi að láta sem ekkert væri, halda spjallinu við hann gangandi á meðan ég þóttist ­hringja á leigubíl og fara svo fram að kíkja eftir bílnum. Síðan tók ég á rás, hljóp að hurðinni og út. Við bjuggum við hliðina á vídjóleigu og ég náði að hlaupa þangað. Hann elti mig og reyndi að fá mig aftur heim, lofaði að vera ekki vondur en ég talaði ekki einu sinni við hann. Ég komst burt og þetta var í síðasta sinn sem ég hitti hann, eftir að hann hafði beitt mig langvarandi grófu líkamlegu ofbeldi og kynferðisofbeldi.

Ég bjó á áfangaheimili fyrir konur sem voru að reyna að ná bata frá alkóhólisma þegar hann kom í AA samtökin. Skömmu síðar byrjaði hann með stelpu sem bjó þar með mér og fór að venja komur sínar þangað. Af því að ég var á merktum bíl vissi hann vel að ég væri þar. Og ég vissi alveg af hverju hann var að púkka upp á þessa stelpu. Enda kom fljótlega á daginn að hann ætlaði sér að nálgast mig. Hann fór að hringja, og hringja og hringja. Hann hringdi látlaust þar til ég varð að skipta um símanúmer.

Þá reyndi hann að nálgast mig í gegnum vinkonu mína og sagðist ætla að taka 9. sporið á mér. Í 9. sporinu segir að við bætum fyrir brot okkar milliliðalaust svo framarlega sem það særi engan. Það er ýmislegt sem þú getur ekki beðist afsökunar á. Ekki þegar þú hefur gert eitthvað svona hræðilegt.

Ég var í algjöru losti á þessum tíma. Ég var svo hrædd við hann því ég vissi ekki hverju hann tæki upp á næst. Ég trúði honum vel til þess að brjótast inn og ryðjast inn í herbergið mitt. Annað eins hafði hann nú gert.

Að lokum gat ég ekki verið lengur á áfangaheimilinu og leitaði skjóls hjá foreldrum mínum. Þetta varð líka til þess að ég hætti í AA samtökunum um tíma. Enn í dag kemur upp í mér ótti um að ég muni hitta hann einhvers staðar og hann reyni að tala við mig.“

„Óttalegt feðraveldi“

Eru konur öruggar í AA? Hátt í fimmtán konur sem hafa verið í lengri eða skemmri tíma í AA lýsa hér á eftir reynslu sinni af samtökunum. Allar sammæltust um að þær ættu AA samtökunum margt að þakka. Vegna AA hefðu þær náð að koma undir sig fótunum, öðlast bata frá alkóhólismanum og leggja drög að betra lífi. Engu að síður væri ýmislegt innan samtakanna sem væri vert að vekja athygli á og ræða. Undir það tóku þeir karlar sem Stundin ræddi við, þeir könnuðust líka vel við þessar aðstæður. Enginn viðmælandi Stundarinnar treysti sér þó til að tala undir nafni vegna erfðavenjanna. Erfðavenjur AA samtakanna eru grunnurinn sem starfið byggir á, einskonar lög, og þar er kveðið á um nafnleynd. Allar vildu þær virða það. Við notumst því aðeins við fornöfn eða gefum þeim önnur nöfn.

„Þetta er óttalegt feðraveldi, eins og svo margt annað,“ segir Lovísa, sem hefur verið virk í AA samtökunum jafn lengi og hún hafði lifað þegar hún fór á sinn fyrsta fund, eða í 17 ár. Hún er af Uxa kynslóðinni, strákastelpa sem kom inn með vinum sínum og kynntist ekki sálu í samtökunum fyrr en eftir eitt og hálft ár edrú. „Ég hef oft hugsað um þetta. Bókin var skrifuð af körlum á þeim tíma sem konur voru mjög langt leiddar þegar þær komu inn í AA. 

Í bókinni er kafli til eiginkvenna, þar sem þær eru ávarpaðar sem aðstandendur. AA bókin er skrifuð út frá körlum, fyrir karla. Af einhverjum ástæðum haldast konur ekki lengi í AA. Ég veit ekki hvað veldur – hvort þetta sé of karllægt prógram.“

Talandi um bókina. Margar konurnar töluðu um hana og mikilvægi þess að bókin yrði uppfærð. Eins og ein sagði: „Þetta er eins og ef við værum enn að lesa Svarta Sambó. Þetta er fáránlegt.“

Eru konur öruggar í AA?

Spurningunni hefur áður verið varpað fram. Eru konur öruggar í AA? var titill á grein eftir skemmtikraftinn Amy Dresner sem birtist á vefsíðu The Fix – addiction and recovery, straight up. Þar benti hún á að helsti kostur AA samtakanna sé jafnframt þeirra helsti galli, sú staðreynd að þau eru öllum opin. Á meðal frægðarmanna og milljónamæringa séu fríkin, krípin og glæpamennirnir. Þangað færi fólk þegar það væri líkamlega, fjárhagslega og andlega komið í þrot. Fyrir vikið væru fundirnir fullir af fólki sem er brotið og viðkvæmt. AA samtökin væru því ­paradís tækifærissinna.

Hún sagði sögur af nauðgunum, sponsorum sem hefðu notað vald sitt til að þvinga sponsíur til kynmaka, sponsorum sem hefði greitt sponsíum fyrir kynlíf, stelpum sem hefðu fallið og leitað til edrú manna sem misnotuðu sér aðstæðurnar til að ná sér í auðveldan drátt. Það ætti svo sem við alls staðar að fólk misnotaði annað fólk, en alkóhólistar og fíklar væru almennt stjórnsamir og óheiðarlegir. Fleiri greinar á sama miðli fjalla um þetta málefni.

Lovísa tekur undir niðurstöður Amy. Það að enginn sé æðri öðrum í AA var það sem seldi henni samtökin á sínum tíma og gerði það að verkum að hún ákvað að fara á fundi. „En þegar ég fór í meðferð sautján ára hitti ég þar mann sem var greinilega búinn að brenna sig á AA samtökunum. Á fyrsta degi bað hann mig um að gleyma því aldrei að það er rosalega veikt fólk í AA samtökunum. Þetta voru góðar upplýsingar. Við segjum oft í gríni að það eigi ekki að koma þér neitt á óvart að það sé veikt fólk í AA.“ 

Nú er sama spurning meginþema heimildarmyndarinnar The 13th Step sem var sýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni á dögunum, þar sem sagt er frá ofbeldi sem viðgengst innan samtakanna í Bandaríkjunum, án þess að gripið sé til ráðstafana.

Mikil breyting orðið á samtökunum

Viðmælendur Stundarinnar voru ósammála um ýmislegt. Ein sagði að það væri mikil kynjaslagsíða í samtökunum. Önnur sagðist vera frjáls í anda og að hún léti feðraveldið ekkert trufla sig. Sú þriðja sagði að nú væri jafnrétti orðið algjört í samtökunum. Hún var ein þriggja kvenna sem komu fyrstar inn í AA á Íslandi. Þær eru allar komnar yfir sjötugt í dag og enn edrú eftir 35 ár. „Þetta eru bestu samtök sem ég hef kynnst á ævi minni.“

Henni þykir gott að vera kona í AA og segir að þar sé mikil virðing borin fyrir konum, þær tali á stóru fundunum, séu í ábyrgðarstöðum og með í öllum nefndum. „Það hefur orðið mikil breyting á AA frá því sem áður var. Þegar ég kom inn vorum við bara þrjár og þá voru konur ekkert að leiða fundi eða í ábyrgðarstöðum, enda karlarnir búnir að vera einráðir í nokkur ár. Það er jafnrétti í AA núna.“

Flestar beittar ofbeldi

Í rannsókn sem var framkvæmd á árunum 2000 og 2001 kemur fram að konur séu veikari þegar þær koma til áfengis­meðferðar en karlar, þær hafi fleiri fráhvarfseinkenni, séu lengur að jafna sig og hafi fleiri einkenni alvarlegrar áfengis­sýki, líkamleg og andleg. Þær séu einnig tilfinninganæmari og undanlátssamari, láti oftar undan þrýstingi og reyni frekar að bera í bætifláka fyrir sig, en karlar.

Rannsóknin var gerð á 516 sjúklingum sem komu til meðferðar á Vog, Teig og deild 33A á Landspítalanum. Konurnar sem tóku þátt lýstu marktækt meiri kvíða en karlarnir, auk þess sem þær höfðu mun meiri líkamleg einkenni, fundu oftar fyrir skjálfta um allan líkamann, handskjálfta, svita, ótta, ofsóknarkennd og örvæntingu. Þá fundu þær frekar fyrir skömm, sektarkennd og lítilli sjálfsvirðingu, en karlar.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Kynbundið ofbeldi

Þórhildur Sunna: „Í hvaða veruleika búa þau eiginlega?“
Fréttir

Þór­hild­ur Sunna: „Í hvaða veru­leika búa þau eig­in­lega?“

Lög­regla taldi ekki til­efni til að hefja rann­sókn á meintri nauðg­un þeg­ar mað­ur sagð­ist hafa sett lim í enda­þarm sof­andi 17 ára stúlku sem vildi ekki enda­þarms­mök. Þing­kona Pírata og formað­ur Laga- og mann­rétt­inda­nefnd­ar Evr­ópu­ráðs­þings­ins seg­ir að af­staða ákæru­valds­ins og mál­ið allt valdi henni veru­leg­um áhyggj­um af stöðu kyn­ferð­is­brota­mála í ís­lensku rétt­ar­vörslu­kerfi.
Hafði „enda­þarms­mök“ við sofandi stúlku – Ekki nauðgun, segir lögregla
Fréttir

Hafði „enda­þarms­mök“ við sof­andi stúlku – Ekki nauðg­un, seg­ir lög­regla

Lög­regla og rík­is­sak­sókn­ari töldu ekki til­efni til að rann­saka hvort nauðg­un hefði átt sér stað þeg­ar mað­ur þröngv­aði lim sín­um í enda­þarm 17 ára stúlku með­an hún svaf. Mað­ur­inn, fað­ir­inn í Hafn­ar­fjarð­ar­mál­inu svo­kall­aða, við­ur­kenndi verkn­að­inn í yf­ir­heyrslu vegna ann­ars máls og sagð­ist hafa vit­að að stúlk­an væri mót­fall­in enda­þarms­mök­um.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár