Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

SÝSLUMAÐUR TEKUR EKKI VIÐ KREDITKORTUM

Ég man tímana tvenna.  Ég man ryðguð hús í Skuggahverfinu, lamin af grenjandi rigningu.  Ég man rottugang á sama svæði og óttann við illkvendið Marzibil sem átti heima á hæðinni fyrir ofan okkur á Lindargötunni.  Ég man Breiðholtið byggjast upp og ævintýraheiminn sem var einhvernvegin lagður eins og rauður dregill fyrir framan okkur krakkana.  Ég man tár og hlátur.  Naglaspýtur, steypuklessur og þegar kókómjólkin var í þríhyrndum umbúðum. Lykt af nýþornaðri steypu í bland við blautt sag og tónarnir úr gömlu Grundig útvarpstæki. Leif Garrett.  Það fór ekki vel fyrir honum.

Sumt var gott við þennan tíma en annað var alveg ferlegt.

það sem var ferlegt var eiginlega bara kerfið og stemninginn.  Það var allt bannað.  Það var bannað að skemmta sér. Bjór var bannaður. Matur var bannaður.  Það fékkst ekkert í búðunum.  Unglingar máttu ekki hittast.  Það var bannað að hanga í sjoppum.  Það var einhverra hluta vegna talið mjög skemmandi.   Fyrirbærið „lúgusjoppan“ var bein afleiðing þessarar ömurlegu áráttu. Egill Helgason hefur stundum gert þessu skil í glettnum tón en þetta er auðvitað ekkert fyndið.

-Þetta er bilað og brenglað.

Það var allt erfitt.  Það var allt gert erfitt.  Það er svolítið skrýtið að hugsa til þess en þetta var stefnan og inntakið.  Inntakið í þessu  öllu var eins og síðasta setningin í leiðinlegu rifrildi sem fylgt var eftir með hurðarskelli.

Það var einmitt hinn viljandi erfiðleikaásetningur sem ég á svolítið erfitt með að koma hugsun yfir og hvað þá skilning.  Mér er það svolítið framandi að gera hlutina erfiða þegar það er jafn mikið mál (eða jafnvel minna mál) að hafa þá auðvelda.

Eftir þennan dramatíska inngang langar mig að fara upp í Hlíðarsmára.  Þar eru skrifstofur Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

Þangað leita hundruðir manna á hverjum degi.  Það er alltaf biðröð en þrátt fyrir það er þjónustan alltaf góð.  Allt  hreint og beint. Allt í röð og reglu og viðmót starfsfólks til fyrirmyndar.  Flestallir þurfa að borga fyrir þjónustu Sýslumanns eins og gengur en þá kemur  eins og óþolandi dægurlag aftan úr fortíðinni að . . . .

. . . . Sýslumaður tekur ekki við kreditkortum.

Nú er ágætt að halda því til haga að fyrir mér er þetta ekkert stórmál.  Ég hef þó þurft að vesenast nokkuð vegna þessa en það reddaðist fyrir horn.  Ég er viss um að margir hafa lent illa í þessari furðulega fyrirkomulagi.  Margir nota bara kreditkort í sínum búskap og mér er sagt að það sé aðeins hagkvæmara en að notast bara við debetkort.

Ég held að opinberar stofnanir nema Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu taki allar við kreditkortum taki þær á annað borð við greiðslum.

Það er bara svo skrýtið að stór opinber stofnun, skuli skrúfa niður þjónustuna sína og gera fólki aðeins erfiðarar fyrir en efni standa til.  Einhver sagði mér að margoft væri búið að benda stofnunninni á þetta en svörin væru ýmist enginn, fá eða hreytingur um að „Sýslumaður sé ekki lánastofnun“.

Ef þetta er rétt, þá er hér á ferðinni leiðinlegur misskilningur.

Þau fyrirtæki sem taka við greiðslukortum eru ekki að lána fé.  Féð er tryggt.  Lánið er ekki 30 dagar eins og margir halda heldu er hægt að stilla það af eftir þörfum hvers og eins. Mér skilst að 2 daga skil séu bísna algeng.  Þá fær söluaðili greitt frá greiðsluþjóustunni eftir 2 daga.

Það væri gaman að sjá þetta breytast.  Svona stífni þjónar engum tilgangi nema til að kynda undir gremju og leiðindi.

 

Hérna er hlekkur á bloggið mitt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni