Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Valtað yfir unga fólkið

Segjum að þú sért ungur faðir, nýútskrifaður úr háskólanámi, með nýfætt barn og íbúð. Þú ert ekki lengur með námslán en þú ert ekki búinn að vinna neitt, eða í mesta falli nokkra mánuði. Í þessu tilviki áttu rétt á rúmlega 60 þúsund krónum mánaðarlega þér og barni þínu til stuðnings. Ég er hræddur um að það verði lítið um fæðingarorlof.

Það er undarlegt hversu lítið samfélagið styrkir unga foreldra miðað við þá krísu sem blasir við. Allar evrópskar þjóðir eiga eftir að kljást við lækkandi fæðingartíðni og samdrátt vinnuafls á næstu áratugum, en Ísland hefur komið betur út en flest lönd á því sviði. 

Þar sem Ísland kemur illa út er hlutfall brottfluttra. 13% Íslendinga búa erlendis, og já það er hærra hlutfall en brottfluttir Mexíkanar. (12% Mexíkana búa utan Mexíkó . . . ef Ísland væri jafnfjölmennt ríki þá væri sennilega norska fremskritts-partiet að tala um að reisa vegg þvert yfir norður-Atlantshafið sem Ísland ætti að borga fyrir).

Fæðingarstyrkir eru fyrir ungt fólk sem er að hefja líf sitt út á vinnumarkaði, og sem fasteignakaupendur. Þetta er hópur sem við ætlumst til að standi í íbúðakaupum og að eignist 2-3 börn á nokkurra ára tímabili á meðan foreldrarnir koma á sama tíma starfsframa sínum af stað. (Við ætlumst til býsna mikils af þeim ef Íslenski draumurinn á að ganga upp).

Við gerum lítið til að hjálpa þessum hóp áleiðis. Við gerum lítið til að leiðrétta stöðu þess. Ísland hefur yfirleitt verið leiðrétt í allt aðra átt. Nýverið komu fréttir um að skuldlausir fasteignaeigendur hefðu fengið milljarða úr ríkissjóði sem hluta af „leiðréttingu“ framsóknar. (Kjarninn segir að 30 prósent hafi farið til hjóna með meira en 25 milljónir króna í eigið fé eða allt í allt 24 milljarðar).

Á meðan er heil kynslóð fólks í leiguhúsnæði, sem er dýrara eða a.m.k. jafndýrt og 100% húsnæðislán. Leiguverð og fasteignaverð hefur hækkað í fasteignabólum sem skammsýnir flokkar hafa ítrekað komið af stað. En til að gera vont verra þá:

Hafa atvinnutekjur ungmenna, 24 ára og yngri, lækkað um tæpar 37 þúsund krónur á mánuði að meðaltali frá aldamótum fram til 2014.

Og kjör ungs fólks á aldrinum 25 til 39 ára hafa versnað enn meira. Atvinnutekjur þess hafa að meðaltali dregist saman um tæplega 59 þúsund krónur á mánuði og ráðstöfunartekjur eftir skatta um tæplega 50 þúsund krónur. Þetta er allt sótt í frábæra grein Fréttatímans um hvernig byrðar hrunsins hafa aðallega ratað á fólk undir fertugu.

Sama grein rekur líka hvernig tekjur þeirra yfir fimmtugu hafa hækkað á sama tíma og sá kjósendahópur hefur skammtað sér „leiðréttingu“ upp á tugi milljarða úr ríkissjóði.

Er þetta sér-íslenskt vandamál? Nei, alls ekki. The Guardian er með góða grein í dag um hvernig kjör ungs fólks hafa versnað úti um öll vesturlönd, (og hvernig sú þróun hófst ekki með kreppunni 2008 heldur löngu fyrr).

Fyrir þrjátíu árum var ungt fólk vanalega að þéna örlítið yfir meðallaunum í vestrænum ríkjum. Í dag er það komið 20% undir meðaltal.

Á heimsvísu sjáum við að atvinnuleysi meðal ungs fólks er hátt, fasteignakaup þeirra hafa hrunið og það hefur leitt til þess að fæðingartíðnin hefur einnig lækkað hratt. Allt þetta hefur komið af stað hrikalegum vítahring, þar sem hinum eldri fjölgar en þeim yngri sem eiga að annast þá fækkar. Þetta hefur líka aukið stéttaskiptingu gífurlega.

En smá varnaðarorð að lokum

Ungt fólk hefur yfirgefið gömlu flokkana, jafnaðarmanna sem og íhaldsmanna-flokka úti um öll vesturlönd. Í Frakklandi þar sem atvinnuleysi meðal ungs fólks er gífurlega hátt hefur það leitt til að ný-fasískir flokkar á borð við Front National hafa vaxið, stuðningur ungs fólks við FN var það sem leiddi til kosningasigra þeirra í fylkisstjórnarkosningum í Desember. 35% fólks á aldrinum 18-24 ára kaus flokkinn. Það er skrítið því þetta er ekki aldursflokkur sem er reiður yfir því að Alsír hafi fengið sjálfstæði, eða hefur einhvern áhuga á að banna samkynhneigð eða fá dauðarefsingar aftur. Stefnumálin passa illa við áhugasvið þessa aldursflokks, en samhljómurinn eykst þegar skoðað er hvaða kjósendur eru reiðir og telja hefðbundna pólitíkusa vinna gegn sér.

Þessi aldursflokkur er sá sami og hefur ýtt Podemos áfram á Spáni, Bernie Sanders í Bandaríkjunum og Corbyn á Bretlandi, svo það er ekkert gefið að öfgahægriflokkar höfði til hans.

Á Íslandi hafa þeir hópar sem yfirgáfu fjórflokkinn gefið til kynna að þeir hallist frekar til frjálslyndis. Enda hefur frjálslyndi almennt skort í íslenskri pólitík og samfélagi, og mín kynslóð á almennt erfitt með að skilja það samfélag sem eitt sinn bannaði bjór, guðlast, og aðrar útvarpsstöðvar en gufuna.

Það er þó ekkert víst að þessi aldursflokkur muni endilega kjósa á þessa vegu næstu áratugi. Ef eitthvað vekur ugg minn, þá er það tilhugsunin um að hvað myndi gerast ef næstu kosningar valda þessum hóp vonbrigðum. Langvarandi reiði getur stundum orðið að hatursfullri biturð. 

En sjáum til. Kannski ná píratar að standa sig undir pressu. Ég held að meira velti á því en marga grunar.

P.S.
Hér eru linkar á tvö blogg um kosningarnar desember síðasliðinn í Frakklandi. Eitt og tvö.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni