Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Jens, Ai og Franco

Jens, Ai og Franco

Það er kominn tími á smá listflakk eftir pistla um pólitík og húsnæðismál.

Síðustu tvær vikur í París höfum við verið þokkalega dugleg við að kíkja út. Í fondation Cartier sáum við sýningu eftir japanska ljósmyndarann Daido Moriyama. Einar og sér fannst mér ljósmyndirnar af subbulegustu hornum Shinjuku (og aðallega Kabuki-Cho) ekki beinlínis heillandi, jafnvel full klisjukenndar, en dáðist þó að dugnaðinum í ljósmyndaranum að taka marga tugi mynda daglega yfir heilt ár.

En sú frásögn sem hann barði saman með því sem í fyrstu virðist tilviljunakennd uppröðun hversdagslegra mynda af húsum í niðurníslu, ruslatunnum, klám-auglýsingum eða plöntum og gæludýrum, vann þó á. Sérstaklega var slædsjóvið af svarthvítu myndunum í hliðarrými dáleiðandi.

Aðaluppgötvunin fyrir mér var samt ljósmyndarinn Franco Fernell. Í kjallaranum var heildarsýning verka eftir þennan kólumbíska ljósmyndara, sem var algjörlega mögnuð. Hann er sérstaklega öflugur þegar hann klippir saman og litar myndir sínar, seríur hans um dauða hluti eins og flutningakassa og ferðagáma, og byggingar sem stendur til að rífa voru áhrifamikil í einfaldleika sínum, og langt um betri en fyrstu ljósmyndaseríur hans þar sem hann tók myndir af fólki úr vændisiðnaðinum eða billjarð-leikmönnum.

Við fórum líka í fyrsta sinn á Fondation Louis Vuitton, sem er æðisleg bygging ef maður er Frank Gehry aðdáandi. Þar var virkilega flott sýning Bentu, með ótal vídjóverkum, málverkum, ljósmyndum og styttum sem áttu það sameiginlegt að vera öll nýleg (frá árinu 2014-2015) og vera frá Kína. Ekkert verk stóð upp úr sem virkilega spennandi, eða krassandi, en ég gæti séð fyrir mér að fara aftur og skoða betur. Húsið skyggði svolítið á, og sama gilti um stjörnurnar á efri hæðinni eins og Ai Weiwei . (Reyndar var ein innsetning eftir Ólaf Elíasson búin að smygla sér þangað líka, en þegar við komum út og rákumst á speglagöngin vorum við alveg búin á því).

Í gær kíktum við niður í Marais á þrjár opnanir, ég rek ekki hinar tvær, heldur nefni bara það sem við vorum virkilega hrifin af. (Að fara á Laugardagskvöldi niður í Marais og rölta milli gallerí-opnana er annars ágæt leið til að skoða hátískuföt og sníkja ókeypis veitingar. Húsin er svo falleg að manni líður samstundis eins og maður sé ítalskur fursti um leið og maður gengur inn eftir marmaragólfinu).

Í Galerie Perrotin sáum við málverkasýningu eftir sænska listamanninn Jens Fänge sem mér fannst frábær. Listamaðurinn leikur sér með perspektív og skakka rúmfræði sem kallast á við miðalda-íkon og kúbisma. (Reyndar minnir hann helst á Chirico ef út í það er farið). Verkin eru „næstum“ þrívíð, og það er þetta „næstum“ sem dregur mann algerlega inn. Persónurnar virðast svífa yfir umhverfi sínu, og málverkin inn í málverkinu bæði skaga út og kalla fram fjarvídd.

Jens skyggði algerlega á sýningu John Hendersons á neðri hæð gallerísins, sem hafði skemmtilegt konsept, (steypt málverk, styttur sem líktu eftir málverkum) en heillaði mig ekki alveg. (ÉG var kannski með kominn með ofnæmiskast eftir mínímalísku málverkasýninguna sem við fórum á fyrr um kvöldið og höndlaði ekki meiri einfaldleika).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni