Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

The Drumpfinator

Netið er frábær vettvangur skoðanaskipta og wikipedia hefur gagnast mér óendanlega við skriftir. Það hefur breytt því hvernig ég les og hugsa, að mestu að jákvæðu leiti.

En það eru hættumerki. Algóryþmarnir sem stýra því sem leitarvélar skila okkur, skila helst því sem við höfum annað hvort klikkað á áður eða lækað. Facebook sýnir okkur brot af því sem okkur líkar. Á twitter fáum við fréttir frá þeim sem við höfum ákveðið að fylgjast með.

Því fer fjarri að ég vilji meina að við höfðum það betur áður með flokksblöð. Netið gefur þeim smáu og fátæku smá sjéns, því það kostar lítið að blogga, talsvert minna en að prenta. (Þess vegna er netfrelsið svona mikilvægt, ef farið væri að rukka fólk fyrir hraðann inn á síðum þeirra myndi það leiða til að netið myndi lenda algerlega í höndum stórfyrirtækja).

Fyrir nokkrum dögum setti ég inn viðbót á netvafrann minn. Drumpfinator byggir á skemmtilegum John Oliver brandara, Drumpf er ættarnafn Donald Trump áður en faðir hans breytti því og það hljómar kjánalega. Drumpfinator breytti fyrirsögnum á netinu, þar sem áður stóð „Donald Trump wins New Hampshire“ umbreytist í „Donald Drumpf wins New Hampshire“.

Þetta var fyndið. Drumpf er fyndið nafn.

En eftir rúman sólarhring af Drumpf-fyrirsögnum fékk ég nóg. Ekki af því þetta er álíka barnalegt og að kalla Jón Gnarr, Jón Gunnar Kristinsson, heldur af því ef lítið forrit getur umbreytt fyrirsögnum og texta þannig að hann henti skoðunum mínum fyrir fram, bara með því að breyta einu orði þá erum við komin á upphafsstað afar hættulegrar þróunar.

Nú þegar hafa foreldrar tök á að kaupa eða hlaða ókeypis niður forrit sem koma í veg fyrir að börn þeirra geti leitað uppi klám eða ofbeldi. (Auðvitað eru leiðir framhjá sem allir unglingar kenna sjálfum sér þegar forvitni þeirra yfirstígur tækniþekkingu foreldra þeirra).

En hvers vegna ekki forrit sem hreinsar burtu allar upplýsingar sem vísa til þróunarkenningarinnar? Eða forrit sem birtir einungis jákvæðar fréttir þegar maður fer á vefsíðu? (Erum við ekki öll annars með ad-block sem hreinsar burt auglýsingar á internetinu?)

Á endanum eru engin mörk fyrir því hversu langt er hægt að taka sjálfritskoðunina. Sjálfritskoðunin sem hreinsar burt óþægilegar skoðanir, staðreyndir, eða bara fólk sem þér líkar illa við, áður en þú sérð það. Drumpfinator er bara byrjunin.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni