Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sérðu það sem ég sé?

Sérðu það sem ég sé?

Frá því ég byrjaði að gera dansverk með konunni minni, eða kannski öllu heldur verk um dans, eða verk um hvernig hægt sé að tjá sig með dansi, hef ég verið með ákveðna spurningu á heilanum. Sjá hér.

Allir þeir sem vinna við samskipti og upplýsingamiðlun hvort sem um er að ræða kennara, rithöfunda, auglýsingaframleiðendur eða blaðamenn hljóta að hugsa stöðugt um tungumálið, möguleika þess og ómöguleika. Takmörk þess hafa reyndar ávallt heillað mig meira en möguleikarnir. Ég man t.d. enn þá skýrt eftir því þegar ég var nýbyrjaður í grunnskóla og heyrði um litblindu, að til væri fólk sem sæi ekki rauðan eða grænan lit. Allt í einu rann upp fyrir mér að ekki væri víst að fólk sæi það sama og ég. Hvernig gat ég vitað að mín líkamlega upplifun af því að sjá rauðan lit væri sú sama og stráksins sem stóð við hliðina á mér. Kannski sá heilinn hans bláan í stað þess að sjá rauðan, og þótt við báðir notuðum orðið rautt til að lýsa litnum á bílnum fyrir framan okkur, gat vel verið að hans rauði væri allt annar en minn. 

Ég áttaði mig auðvitað ekki á því þá að þetta væri spurning sem allir á einhverjum tímapunkti spyrja sig að. Eins og hvernig getur maður vitað að restin af heiminum sé ekki draumur? Eða er maður kannski eina lifandi manneskjan í alheiminum og allt hitt sjónhverfing? Maður getur auðvitað ekki vitað neitt fyrir víst. Hvað þá tjáð það.

Sumir vísindamenn hafa gert það að ævistarfi sínu að velta fyrir sér hvort að fólk skynji heiminn eins. Augu okkar eru mismunandi uppbyggð og einn vísindamaður við háskóla í Wisconsin sem heitir Joseph Carroll fullyrðir að það sé nánast öruggt að enginn sjái nákvæmlega sama litinn. Grein í Livescience hér.

Við upplifum heiminn öll á mismunandi máta og tungumálið sem við höfum sameiginlega skapað í gegnum aldirnar nær sennilega aldrei að brúa bilið milli þess sem við upplifum og hvað við náum að tjá öðrum. Við höfum að minnsta kosti ekki nógu mörg orð til að tjá öll þau mismunandi stig af upplifunum sem lífið hefur upp á að bjóða. Stundum finnst mér eins og hver hlutur ætti að hafa sitt eigið orð, rétt eins og einstaklingar hafa allir nafn. Það er ekki bara hægt að kalla dýr „kött“ eða „hund“, eða ávöxt „grænt epli“ eða „appelsínu“, hvert einasta fyrirbrigði er svo sérstakt að það þyrfti í rauninni eitthvað meira til að lýsa því. Og þá er ég ekki að tala um lýsingarorð, því þau teikna upp blekkjandi mynd, enda vitum við ekki neitt um hvernig aðrir upplifa hrjúft, kalt, stökkt, mjúkt, gróft, undið og svo framvegis. Ég hef enga trú á því að ég geti lýst nokkrum hlut fyrir þér þannig að þú skiljir hvað ég meina. Ég átta mig á því að þetta er engin frumleg hugsun hjá mér, ekkert frekar en þegar ég sex ára fór að efast um raunveruleikann og upplifun mína á honum. Miðaldaspekingar t.d. voru mjög uppteknir af þessum vangaveltum. Munkurinn Duns Scotus á 13 öld var sannfærður um að ekkert væri nákvæmlega það sem við köllum það. Við næðum aldrei yfir kjarnann, yfir the „whatness“ eða „thisness“ hlutarins. 

Because there is among beings something indivisible into subjective parts -- that is, such that it is formally incompatible for it to be divided into several parts each of which is it -- the question is not what it is by which such a division is formally incompatible with it (because it is formally incompatible by incompatibility), but rather what it is by which, as by a proximate and intrinsic foundation, this incompatibility is in it. Therefore, the sense of the questions on this topic [viz. of individuation] is: What is it in [e.g.] this stone, by which as by a proximate foundation it is absolutely incompatible with the stone for it to be divided into several parts each of which is this stone, the kind of division that is proper to a universal whole as divided into its subjective parts? Linkur

Ég er reyndar ekki viss um að ég skilji þessa tilvitnun. Ég skil ekki nein orð lengur.

Og þar af leiðandi er ég kominn út í dans. Tjáning nær bara ekki það langt án hugsanaflutnings og ég held að eina leiðin til að segja eitthvað, segja eitthvað raunverulega, sé með því að segja ekki neitt. Á hverjum degi stend ég nú á sviði og velti fyrir mér tilgangsleysi þýðingar, takmörkunar tungumáls og líkama, og reyni samt sem áður að finna leið til að láta skáldsögu lifna við án þess að segja orð. Ég veit svo sannarlega ekki hvort að ég nái fram á frumsýningu á Laugardaginn án þess að brotna niður grátandi, hlaupa út á götu og biðja fólk um að segja mér að þau sjái það sem ég sé og skilji hvað ég meina.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni