Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að dansa oná dildó

Að dansa oná dildó

Þessi fyrirsögn er misvísandi en nú hef ég náð athygli þinni og sleppi ekki í bráð. Dansdúóið Florentina Holzinger og Vincent Riebeek sem koma frá Austurríki og Hollandi voru á Lókal/RVK Dancefestival seinasta Laugardag með magnað verk. Það var verk sem var fullt af ást, gagnkvæmri virðingu, færni og krafti. Og húmor.

Fyrsta sena Schönheitsabend (fegurðarkvöld) byggir á ballettinum Shéhérazade, sem byggir á upphafssögu 1001 nætur þar sem kona súltansins heldur framhjá honum sem gerir það að verkum að hann treystir engri konu lengur. (Og tekur þær allar af lífi eftir brúðkaupsnóttina ... talandi um minnimáttarkennd). Jæja, ballettinn sem frumsýndur var 1910 gerir út á exótískar og erótískar austrænar ímyndir og sjokkeraði dansheiminn þá. Hann er meira að segja nokkuð erótískur á nútímamælikvarða. Hér er vídjó sem sýnir senuna, en það má segja að Hollensk/Austuríska dansdúóið hafi tekið það aðeins lengra. 
 

(Annars er gaman hvernig ímynd miðausturlanda í Evrópu endurspeglar oft siðferðisviðmið vesturlanda, undir lok þurrkuntulega Viktoríutímans var ímynd arabaríkjana kvennabúr súltana þar sem naktar konur dönsuðu ögrandi magadansa eða lágu naktar í leti en í dag þegar vesturlönd hreykja sér af frjálslyndi sjáum við ekkert fyrir okkur nema búrkur.)

Sagan hefst sem sagt á því að frú Súltan hleypir gyllta þrælnum út úr búri sínu og dansar við hann. Sá dans vindur upp á sig og í útgáfu Florentinu og Vincent blandast loftfimleikar og sleipiefni inn. Ég veit ekki hversu umdeilt þetta atriði verður í huga þess sem ekki sá atriðið, þegar Florentina setur á sig strap-onnið og fer inn í Vincent, en ef maður fókuserar bara á þá gjörð missir maður af miklu. Dans uppfullum af húmor og ást.

Það skapaðist óneitanlega mikil spenna í öðrum hluta verksins þegar Florentina endurlék seinasta dans Vaslav Nijinsky, sem var ögrandi dansari á tímum fyrri heimsstyrjaldar, (og heimsfrægur áður en hann fór inn á geðveikrahæli). Verkið snýst að einhverju leyti um listræna ögrun, hvað hneykslar okkur, hvað gerir hneykslunina spennandi, en þó meira um ástríðuna, hryllinginn, óttann og geðveikina sem drífur listsköpunina áfram. Florentina náði fram bæði kómískum og tragískum hæðum í gjörningi Nijinskys, og Vincent var óborganlegur á hljómborðinu. 

Vincent og Florentina eru vafalaust heitasta dúóið í dansheimi Evrópu um þessar mundir, í meira en einum skilningi orðsins. Ég er þakklátur fyrir að hafa náð að sjá verkið í Tjarnarbíó, mér finnst það hljóma sterkara en önnur verk þeirra, (hef einungis séð verkið Wellness eftir þau, en verð að játa að mér finnst Kein Applause fur Scheize hljóma spennandi miðað við titil). Wellness var ágætt, en það var ekki sú sprengja sem ég sá á sviði í Tjarnarbíó. Þið getið séð treilerinn fyrir það verk hér. (Já dansverk hafa líka treilera stundum). 

Kannski var Schönheitsabend betra af því þau voru bara tvö ein á sviðinu. Ég legg ekki í að greina það og leyfi því að vera ráðgátu fyrir okkur í bili. Önnur verk á sviðslistarhátíðunum tveimur verðskulda vitaskuld blogg og athygli líka, Atlas hreyfði við mér og mörg önnur fengu mig til að hugsa. (ohh... ofboðslega er þetta eitthvað dipló hjá mér ... jú og svo voru sum sem mér finnst mikilvægt innlegg í umræðuna).

Já, kannski ættirðu kæri lesandi að skreppa á Nazanin, það er vissulega innlegg í umræðu sem svo sannarlega er í deiglunni núna. Og ef þú vilt meiri dans þá tékkaðu á Milky Whale. Og ef þú vilt þenkjandi húmor þá Crisis Meeting. Og kynna þér nýja íslenska leikritun þá tékkaðu á Frama. Svo ættu allir að fara einhvern tímann á ævinni á ódauðlegt verk. Það er margt í gangi, allt að ske.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu