Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Er dansinn þess virði?

Er dansinn þess virði?

Ég held reyndar að hreyfing sé ofmetin. Flest dýr nema manneskjur reyna að hreyfa sig sem minnst og spara þannig orku. Að fara út og skokka slítur bara vöðva þína og getur haft neikvæðar afleiðingar á heilbrigði þitt. (Það er langhollast yfirleitt að slaka bara á, lesa góða bók og drekka hóflega rauðvín og mikið kaffi.)

 

Það gildir að sjálfsögðu líka um dans, en það getur verið ágætt að horfa upp á hann. Og ég er þakklátur fólki sem nennir að dansa eins og fólki sem nennir að fara í hjúkrun. Ekki myndi ég nenna því.

Mér finnst gott að það sé loksins farið að fjalla um hvað laun dansara á Íslandi eru skammarlega lág. Í þessum efnum er ekki út í hött að tala um kvennastéttar-heilkenni. (Það eru fleiri konur sem vinna við dans en karlar).  Byrjunarlaun dansara voru sem sagt að hækka úr 215 þúsund yfir í 240 þúsund. Sem betur fer er starfsævi dansara stutt, þeir geta þá fundið sér eitthvað arðbærara að gera svo lengi sem það er ekki líkamlega erfitt því þeir eru búnir að slíta úr sér alla liði eflaust.
 

Launamunur í grunninn er auðvitað frekar kjánalegur og ég hef svo sem aldrei fyllilega keypt rökin um að kommúnismi virki ekki. (Ég er hins vegar alltof latur til að berjast aktíft fyrir honum). Það er þó lágmark að í svona blönduðu markaðshagkerfi að það sé ekki launamunur á sviðslistafólki. Dansararnir eru með langerfiðasta starfið, kommon, það er augljóst. Dramatúrgar geta bara verið að hanga á netinu allan daginn.

Svo má alveg óska dansflokkinum til hamingju með grímu-tilnefningarnar sínar. Það var gagnrýnt í grein sem ég las reyndar yfir fyrir Alexander Roberts annan stjórnenda RVK-Dancefestival hvað sjálfstæða danssenan væri hunsuð af grímunni. (En reyndar er það þannig að sjálfstæða senan hunsar grímuna algerlega og greiðir ekki gjöldin sem þarf til að tilnefna sig) en það er ekki ástæða til að gera lítið úr þessum tilnefningum. Mér sýnist dansflokkurinn loksins vera með góða listræna stjórn eftir hörmulegt millibilsástand þegar vanhæf manneskja var fengin til að stýra honum, og eftir langt tímabil með hæfum stjórnanda sem farinn var að staðna í starfi.

Til hamingju dansflokkur, og segjum eins og er, öll grunnlaun sem eru undir 300 þúsund eru bara lélegur Sigmundar Davíðs-brandari.

P.S.
Það er þess virði að nefna að í fyrsta sinn í sögu Grímu-verðlaunana er danssýning tilnefnd sem sýning ársins. Það þýðir þó ekki að þetta sé í fyrsta sinn sem verulega góð danssýning hafi verið gerð á Íslandi, t.d. finnst mér það skandall að We Are All Marlene Dietrich For hafi ekki verið tilnefnd á sínum tíma. (Ég man ekki eftir mörgum öðrum sýningum það árið jafn-vel en það segir mér að hún hefði átt að vinna það). 
Vona að ég nái að sjá Black Marrow einhvern tímann.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni