Þessi færsla er meira en 3 ára gömul.

Eins konar þjóðarmorð á frelsisvagninum

Árið 2011 vann ég við að afgreiða kaffi og sýna fólki steina í Volcano-house. Þetta var ágætis sumarvinna, skemmtilegir eigendur og ferðafólkið var forvitið og þakklátt fyrir kvikmyndasýningarnar í húsinu, mjög fræðandi og skemmtilegar heimildarmyndir um eldvirkasta svæði í heimi. Þetta safn, bíó og kaffihús er staðsett á mjög skemmtilegu horni Tryggvagötu og Geirsgötu, þar sem gamla hafnarsvæðið byrjar með öllum sínum gömlu verbúðum þar sem hægt er að kaupa hönnun og humar, list og latté, ís, osta og annan góðan mat, sem ég vona innilega að verði raunin áfram þrátt fyrir þennan áþreifanlega ferðamannaskort.

Eitt atvik er mér mjög minnistætt frá þessu sumri og hefur mótað hvernig ég sé þetta svæði. Það var þegar ég dag einn mætti á vakt og sá bíl sem hafði klesst illilega á vegg beint á móti. Næstu vaktir fylgdist ég með þegar fólk úr öllum áttum kom og lagði kerti og blómvendi niður til minningar um þann unga mann sem lést í því bílslysi, dreng sem enn var ekki orðinn átján ára. Nokkuð sem ég hugsa um hvert sinn sem ég geng þarna framhjá í dag.

Því miður eru svona slys ekki eindæmi í sögu Geirsgötunnar sem er sorgleg arfleifð frá þeim tíma þegar hraðbrautir höfðu forgang fram yfir mannlíf og mannslíf. Bara fjórum árum áður svo dæmi sé nefnt átti annað skelfilegt slys sér stað á horni Mýrargötu og Geirsgötu, þar sem þrjú ungmenni enduðu á gjörgæslu.

Bílablæti og breiðgöturnar sem fylgja því eru því miður ávísun á áhættuhegðun í umferðinni en hafa líka aðrar hættulegar aukaverkanir. Svifryksmengun hefur kostað okkur ótal mannslíf síðustu áratugi, þó ekki með jafn áberandi hætti og hrikaleg bílslys. Og það er ekki bara af því götur eru ekki hreinsaðar nógu mikið heldur vegna þess að óhjákvæmilega slíta dekk upp malbik, malbik leysist upp í agnir og það endar í lungum okkar allra hvort sem við erum gamalmenni á elliheimili, leikskólabörn í útivist, já og líka þeirra sem eru á leið í vinnuna eða kannski bara að rúnta sér til gamans.

Þetta dregur líka úr því að fólk gangi á svæðunum sem lögð eru undir bílaumferðina, sem er annars konar lýðheilsuvandamál en erfitt að meta hvað sá rúllandi snjóbolti kostar okkur í raun. Er ákvörðunin um að fara ekki í göngutúr eitthvað sem vindur upp á sig, ef ég fækka göngutúrunum mínum um einn í viku, 52 ári, 520 á áratug og svo framvegis, leiðir það ekki til að ég hreyfi mig sífellt minna og verð enn latari? Hefði ekki einn göngutúr til viðbótar getað undið upp á sig líka, bætt þolið og skapið? Hvað þýðir það eiginlega fyrir samfélagið í heild sinni að við öll hreyfum okkur aðeins minna en ella?

Eru það hjarta og lungnavandamál sem hefði verið hægt að forðast eða fresta um áratug? Er það aukin félagsleg einangrun, sem lýsir sér í hærri tíðni þunglyndis og kvíða?

Við tökum kannski ekki eftir því þegar bíllinn sker sig í gegnum hjarta borgarinnar, en hann fjarlægir okkur frá umhverfi okkar og jafnvel vinum. Hvað ég hefði skellt mér í göngutúr, rekist á nokkra vini, átt eitt spjall til viðbótar út í sólinni? Hvað ef við öll ættum eitt spjall aukalega í hverri viku við kunningja sem við þekkjum ekki nógu vel, segjum 52 handahófskenndir hittingar undir súð eða út í sól? Hvað ef við ættum öll nýjan vin sem við rákumst á fyrir tilviljun á horni Geirsgötunnar eða einhverrar annarrar götu?

Verður það hraustara, hamingjusamara og betur tengdara samfélag?

Hvaða orð væri hægt að nota yfir ástand sem fækkar vinum okkar, gerir okkur minna hraust og kostar jafnvel mannslíf?

Ég gæti notað stór orð, stríðsástand eða eitthvað álíka, en vandinn við að nota stór orð of oft er að þá glata þau því miður merkingu sinni. Ef maður segir að allt sé ofbeldi þá á endanum verður ekkert ofbeldi. Enda felur slík lýsing í sér að einhver sem beiti ofbeldi hafi illan ásetning.

En það á auðvitað ekki við þegar ræðum borgarskipulag. Þeir sem vilja aukna bílnotkun í umhverfi okkar vilji okkur ekki illt, þeir sem vilja almenningssamgöngur og göngugötur vilja það sama og þeir í raun: Við viljum öll það besta fyrir samfélagið okkar.

Við skulum því sleppa öllum myndlíkingum í bili.

Við erum ekki fórnarlömb ofbeldis því það eru til raunveruleg fórnarlömb heimilisofbeldis um allt land og fórnarlömb ofbeldis um allan heim, við þurfum orð  til að lýsa þeirra reynslu.

Við erum ekki frelsissviptir fangar einkabílsins heldur. Það eru til raunverulegir fangar, spörum þessi orð fyrir þau tilefni. Þeir sem hafa verið sviptir frelsi og vistaðir inn á stofnunum, eða verið svo óheppnir að fæðast sem selir í húsdýragarðinum, og það er frelsissvipting sem lýsir þeirra ástandi betur en okkar.

Það sama á við um hryðjuverk. Tölum um hryðjuverk þegar um er að ræða hryðjuverk.

Um daginn lýsti Vigdís Hauksdóttir því sem hryðjuverki að strætóstoppi væri komið fyrir á Geirsgötu. Strætó-stoppið hefur þær aukaverkanir að bíla-umferð hægist eilítið við Geirsgötu, sem hlýtur að þykja jákvætt í ljósi sögunnar. Morgunblaðið slengdi þessu upp sem fyrirsögn, þessi hjólastígur, þetta strætóstopp var eins konar hryðjuverk gegn fjölskyldubílnum svokallaða.

Fyrir nokkru síðan hættu bílasinnar að tala um einkabíla því það þótti minna of mikið á einkavæðingu sem í ljósi bankahrunsins hafði neikvæð hugrenningartengsl, og tóku að nota orðið fjölskyldubíll. Fjölskyldubíll hljómar betur en einkabíll, en því miður tekur maður eftir því þegar teppan er mest á morgnanna og síðdegis að inn í bílunum situr oft fólk einangrað og frústrerað, sem getur varla beðið eftir því að komast úr dollunni og heim í faðm fjölskyldunnar. Það er ekki að fara að breytast á næstunni, við erum í borgarlandslagi sem þarfnast þessara bíla til þess að hagkerfið og samfélagið keyri áfram, en við erum farin að skilja að þessir bílar hafa neikvæð áhrif á okkur, bæði sálrænt og líkamlega, og þeir valda slysum, mengun og gríðarlegum kostnaði fyrir samfélagið. Áður en kófið skall á, var helsta þrætueplið í stjórnmálum vegatollarnir svokölluðu, og alls ekki að ástæðulausu, kostnaðurinn við að halda uppi vegakerfinu er gríðarlegur og allt sem sparar okkur pening í því er eitthvað sem gæti farið í að reka heilbrigðiskerfi, grunnskóla eða bara eitthvað skemmtilegt eins og að halda Eurovision-hátíðina þegar við loksins vinnum hana.

Kallið það einkabílinn, fjölskyldubílinn eða frelsisvagninn fyrir mér, en spörum heimskulegar upphrópanir eins og hryðjuverk.

Er tilvist hjólreiðafólks hryðjuverk?

Eru strætósamgöngur ofbeldi?

Mér líður stundum eins og við sem lifum bíllausum lífstíl þyrftum að krota yfir gömlu Icesave/Gordon Brown skiltin og stíla á íhaldsflokkana í Reykjavíkurborg: Mr. Arnalds, Mrs.Hauksdóttir, do I look like a terrorist?

En hvaða orð sem við notum þá er hættulegt fyrir okkur að breyta ekki venjum okkar aðeins. Ef við breytum engu þá er öruggt að á næstu árum eða áratugum verði aftur sambærileg slys og gerast reglulega, og mengunin mun halda áfram að aukast jafnt og þétt, alveg eins og hún hefur alltaf gert, sem mun leiða til þess að fleira fólk mun eiga styttra og verra æviskeið.

Ég trúi því ekki að neinn ætli sér að fremja slíkt voðaverk. Miklu frekar tel ég að fólk hafi einfaldlega misskilið. Fest sig í gamalli kreddu eða gamalli pólitík og viti ekki hvernig það losni út. En það er allt í lagi að viðurkenna mistök og þroskast aðeins. Það eru til gamlir kommúnistar sem viðurkenna að ekki allt sem Stalín gerði var frábært, og kannski munu dag einn vera til framsóknarmenn sem játa að göngutúrar og hjólreiðar geti verið ágætar í bland við annað. Auknar strætósamgöngur, fleiri hjólreiðar og fleiri göngutúrar munu bjarga mannslífum, bæði með færri slysum og betra heilsufari.

Þeir sem skipulögðu borgina eins og hún er töldu sig vera að gera það öllum fyrir bestu. Engin ætlaði sér að auka meðaltal bílslysa eða hækka hlutfall þeirra sem hafa lungnavandamál vegna svifryksmengunar þegar þeir teiknuðu upp Geirsgötu eða önnur stræti. Sú kúrfa bara hækkaði, ekki afleiðing vísvitandi skemmdarverka, heldur vegna þess að þannig rættist úr kenningum um borgarskipulag sem litu vel út á blaði, en reyndust illa í raun.

En vilji fólk endilega halda sig í gamla hugarfarinu þá er ég hérna með nokkrar hugmyndir að nýjum myndlíkingum:

Morðalda á einkabílum!!?!

Þjóðarmorð á frelsisvögnum!?!!

Nauðgun á íslensku ökukonunni!?!!

Heimilisofbeldi gegn bílstjórum!?!!

Íslenski jeppinn tekinn af lífi!!?!

Þjóðvagninn svívirtur!?!!

Þessar upphrópanir má svo nota í hvert sinn:

*sem hjólastígur nær að tengja grunnskóla við íbúahverfi þannig að tólf ára börn geti hjólað í skólann án þess að rekast á bíl sem brunar á 50 kílómetra hraða.

*þegar nýjar almenningssamgöngur ná að spara láglaunafólki pening þannig að það hafi efni á að gera við húsið sitt í stað þess að þurfa að kaupa nýjan bíl, eða skella sér í langþráð sólarlandafrí.

*þegar fólk safnast saman undir berum himni á hátíðisdegi án þess að nokkur hafði áhyggjur af því að finna stæði eða festast í umferðinni á leiðinni heim.

Eða bara æpa þetta í hvert sinn sem maður rekst á hjólandi, gangandi eða skokkandi vegfarendur. Mögulega væri það effektívasta leiðin til þess að reka fólk aftur inn í bílinn.

 

Undirritað,

Snæbjörn Brynjarsson

Skáld, en ekki hryðjuverkamaður, þó hann líti stundum út fyrir það.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni