Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Alheimurinn og íslensk myndlist

Alheimurinn og íslensk myndlist

Ég er sprunginn eftir Reykjavík Dance Festival og Lókal. Ég er með einhvern svima og doða sem gæti verið Stendahl-syndróm á byrjunarstigi. Samt má ég til með að mæla með frábærri myndlistarsýningu í Hafnarborg. (Hafið í huga að listasafnið sem er í Hafnarfirði, er ókeypis, svo það kostar bara smá göngutúr/bílferð/strætómiða.

Heimurinn án okkar fjallar um eins og titillinn gefur til kynna alheiminn. Og verkin á sýningunni sem eru bæði abstrakt, geómetrísk, vídjóverk, styttur, innsetningar og málverk teygja vel á þeim parti heilahvelsins sem þráir að stöðugt víkka sig út. Finnur Jónsson er með nokkur góð verk þar en hann er einn af mínum uppáhaldsmálurum, (og það er eins og ég hef skrifað áður mikil synd að við höfum ekki varanlegan aðgang að verkum hans og annarra sígildra íslenskra málara á einhverri varanlegri sýningu), en abstrakt verk hans frá þriðja áratugnum eru einstaklega falleg. Þau eru fallega endurspegluð af verkum Vilhjálms Þorbergs Bergssonar frá áttunda áratugnum, sem þó koma ekki vel úr samanburðinum. Annað má þó segja um innsetningu Ragnar Más Nikulássonar sem kallast á skemmtilegan máta á við sægrænt vídjóverk Steinu Vasulka. Steina var sjálf þarna að segja frá verki sínu seinasta Sunnudag og sagði á hógværan máta frá listamannsferli sínum. (Kannski allt of hógværan því góð rök má færa fyrir því að þegar aðrir íslenskir myndlistarmenn hverfi úr sögubókunum muni Steina standa eftir).

Steina fléttaði inn skondnar sögur af unglingstúlku sem álpaðist fyrir eins konar fífldirfsku til Prag og sem með sömu áræðni varð einn af frumkvöðlum raflista á sjöunda áratuginum. Það var verulega ánægjulegt að heyra hana segja frá, sem og skoða styttur Gerðar Helgadóttur, og verk Mörtu Maríu Jónsdóttur og Bjargar Þorsteinsdóttur. Eins og áður sagði var geómetría mjög áberandi í sýningunni, hún var nærri symmetrísk í uppbyggingu þar sem listamenn spegluðu hvorn annan, hver úr sínu horni og hafði bæði stjarnfræðilegar og sögulegar víddir.

Vel gert Hafnarborg.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni