Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ef þau meintu það sem þau segðu

Málsháttasmiðurinn Vigdís Hauksdóttir sagði einu sinni að hún kærði sig ekki um að fá skítuga orku um sæstreng frá Evrópu. Talað var um að selja orku frá landsvirkjun til Bretlands og það hefði tengt Ísland við umheim sem notar kol, gas og kjarnorku, en af einhverjum ástæðum var það ESB-mengunin sem Vigdísi var efst í huga. En hvort sem það er kjarnorkuúrgangurinn eða Brussel-stimpluð eyðublöð sem ergja þingkonuna meira þá var hún alveg með það á hreinu að útlensk og óhrein orka ætti ekkert erindi á að streyma um íslenska strengi. Þó það væri ekki nema óvart.

 

Samt hefur ekki múkk heyrst í henni varðandi rafbílavæðingu. Bílafloti heimsins er þó að rafvæðast og hvort sem það er í Frakklandi eða Noregi má sjá rafbílastæði poppa upp. Bæði rafbílar til leigu líkt og borgarhjól, og rafbílar í einkaeigu í uppahverfum. Bandaríkin með fyrirtækið Tesla eru þó í fararbroddi og þegar þróunin fer í fullan gang mun það koma okkur á óvart hversu stuttan tíma það mun taka, svo við ættum helst að byrja að hugsa um það hvernig við forgangsröðum orkugjöfum okkar. Hvernig náum við að varðveita náttúruperlur og á sama tíma sjá til þess að samgöngur noti innlenda orku? (Eins gott að selja ekki alla orkuna ódýrt úr landi eða til erlendra álrisa í flýti áður en þessir möguleikar hafa verið kannaðir til hlítar). Það væri nefnilega bæði umhverfisvænt og gott fyrir þjóðarhaginn ef bílaflotinn keyrði á innlendri raforku. Orku-öryggi er í raun ekki síður mikilvægt heldur en marg um rætt matar-öryggi.

 

Framsókn þykist vera þjóðernissinnaður bænda og fjölskylduflokkur þótt í raun sé hann hagsmunasamtök örfárra fjárfesta á borð Finn Ingólfsson og Gunnlaug forsætisráðherraföður, ef hann væri það í raun væri honum sennilega helst umhugað um að íslensk fallvatnaorka væri nýtt betur. Í stað mengandi stóriðju í hvern fjörð væri stefnt að því að veita bændum hvata til að byggja gróðurhús, þeim væri seld orka á sama verði og álverunum til þess að þeir gætu boðið íslenskum neytendum tómata, kál og annað grænmeti fyrir svipað verð og þau fást á norðurlöndunum. Það myndi bæði vera gott fyrir mataræði landans, umhverfið og efnahaginn.

Og ef Eygló meinti eitthvað af því sem hún segði væri sennilega búið að gera eitthvað drastískt í flóttamannamálum eftir stuðningsyfirlýsingaflóð frá 11 þúsund Íslendingum á feisbók.

 

Ef menn væru bara það sem þeir segðust vera. Þjóðrembingslegur, sjálfstæðissinnaður flokkur eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur myndu líka eflaust styðja nýja stjórnarskrá skrifaða í samvinnu með íslensku þjóðinni frekar en að verja eitthvað danskt konungsplagg, (að viðbætum undanskildum er íslenska stjórnarskráin bara dönsk partýskinka þar sem orðinu konung hefur verið skipt út fyrir forseta). Þeir væru leiðandi í rafbílavæðingu svo Íslendingar þyrftu ekki að keyra á óhreinu norsku eða íslömsku bensíni. Og þeir myndu gefa gróðurhúsabændum orkuna á spottprís hrópandi: Íslenskt já takk! 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu