Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sjálfsalar flýja land

Sjálfsalar flýja land

Skítlegt eðli stjórnmálanna er áberandi í kjaradeilum, en þar virka ekki þau vopn sem pólitíkusar hafa mest dálæti á. Í kjaradeilum vantar erlenda skúrka sem herja á íslenskar hetjur - en án slíkrar sögu er erfitt að siga skrílnum frá því sem máli skiptir. Ekki einu sinni þeir verst upplýstu í samfélaginu myndu kaupa þá skýringu að Danir eða Bretar stæðu bakvið lög á hjúkrunarfræðinga - og þegar hvorki er hægt að kenna Dönum né Bretum um ófarir dagsins, þá er fokið í flest skjól.

En þeir kunna ýmislegt, stjórnmálamenn og snatar þeirra. Aðferðafræðin í dag er gamalreynd, en töluvert ógeðfelld í ljósi upphafsorða sáttmála núverandi ríkisstjórnar:

"Ríkisstjórnin mun leitast við að virkja samtakamátt þjóðarinnar og vinna gegn því sundurlyndi og tortryggni sem einkennt hefur íslensk stjórnmál og umræðu í samfélaginu um nokkurt skeið."
(Stjórnarsáttmáli, 2013 - sótt 15.06.15)

Leið ríkisstjórnar og fylgihnatta er að snúa þessum göfugu orðum á hvolf. Þjóðinni skal sundrað og alið á tortryggni á sem flestum vígstöðvum; menntaðir gegn ómenntuðum, stétt gegn stétt og sjúkir gegn heilbrigðum - svo fátt eitt sé nefnt.

Sjúklingum og aðstandendum þeirra - fólki sem oft er að ganga í gegnum erfiðustu reynslu lífs síns - er bent á hjúkrunarfræðinga sem sökudólga; þeirra er ábyrgðin á vanvirku kerfi. Þó ættu flestir að sjá að hagsmunir sjúklinga verða aðeins tryggðir til frambúðar með bærilega óþreyttu starfsfólki sem nýtur þess að mæta í vinnuna og upplifir að störf þess og menntun séu metin að verðleikum. Það vantar mennskuna í þá sem skilja ekki svo einfalda formúlu.

Sumir hafa þá gefið í skyn að hjúkrunarfræði sé svo einfalt fag að háskólanámið sé óþarft - og skuli því horft framhjá náminu þegar samið er um launin. Fyrir utan hrokann og skilningsleysið, missir slík gagnrýni marks. Hún hefur ekki snertiflöt við kjaraviðræður. Löggjafinn ákveður þau skilyrði sem einstaklingur skal uppfylla áður en viðkomandi getur titlað sig hjúkrunarfræðing. Telji botnfallið í sjálfstæðisflokki að löggjafinn sé á villigötum, vísa ég á kosningarnar 2017. Sjálfstæðisflokki - og öðrum flokkum - er frjálst að fara fram með loforð um að draga úr kröfum á stéttina.

Flokkurinn gæti þar litið til verka Hetherwick Ntaba, fyrrum heilbrigðisráðherra Malaví, sem greip til þess ráðs að undirmennta hjúkrunarfræðinga svo þeir neyddust til að sætta sig við bág kjör og vinnuaðstæður - þvingaðir í vistarband með því að gera menntunina óboðlega fyrir kröfuharða kaupendur.

"We have got to face the situation by training a lot more of our nurses at the other level, where they will not be marketable in the UK, US and other countries."
(Hetherwick Ntaba, 2004)

Ekki veit ég hvort íslensk þjóð myndi sætta sig við slíkar aðfarir gegn því kerfi sem hún hefur löngum hreykt sér af og talið hið besta í heimi? Aumt er það í dag - verra yrði það á eftir.

Að síðustu eru svo þeir sem telja samninga milli aðila út í bæ eiga ráða öllu um launakjör hjúkrunarfræðinga. Það tekur sig ekki að eyða orðum í slíka vitleysu. VR semur ekki fyrir FÍH. Punktur.

En hver svo sem framtíðin verður, er ljóst að framkoma stjórnvalda í garð hjúkrunarfræðinga hefur valdið skaða sem gæti endað í neyðarástandi. Sett eru lög á stéttina með tilvísun í þjóðarhagsmuni og öryggi sjúklinga - líkt og í verkfallinu felist hryðjuverk - og öll ábyrgðin færð á þessa tilteknu stétt. Flestum er þó ljóst að stjórnvöld vilja ekki semja, heldur fela nefnd að tilkynna hjúkrunarfræðingum um þau laun sem valdhöfunum þóknast að láta af hendi rakna. Merkilega margir virðast styðja tuddana tvo á þeirri vegferð.

Hjúkrunarfræðingar geta að sjálfsögðu ekki sætt sig við þetta og munu því horfa til landa hvar þekking þeirra er metin að verðleikum, sem og framleiðslukostnaður þeirrar menntunar sem vinnuveitandi er að kaupa. Sífellt fleiri átta sig á að það er ekkert tiltökumál að flytja milli landa. Því fleiri sem fara, því erfiðara verður að lækna sár íslenska heilbrigðiskerfisins.

Í þessari sögu eru ekki erlendir skúrkar. Í þessari sögu eru íslenskar hetjur og erlendir vinir. Vinirnir bjóða Íslendingum betri kjör, fullkomnari vinnuaðstöðu, meiri kaupmátt, aukin frítíma, fjölskylduvænni samfélög og betra veður.

Íslenskir skúrkar bjóða upp á hryðjuverkalög og maðkað mjöl.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu