Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Lykt af peningum

Lykt af peningum

Fyrir örfáum árum boðuðu Íslendingar nýtt samfélag byggt á jafnrétti, virðingu, réttlæti, ábyrgð og heiðarleika. Svo fátt eitt sé nefnt. Þetta átti að verða göfugt samfélag, ekki gráðugt; setja átti þarfir fjöldans ofar löngunum hinna fáu. Samfélag hinna upplýstu, hvar ákvarðanir skyldu metnar út frá rökum - burtséð frá hvort hugmyndasmiðurinn klæddist Merino ull eða íslenskri.

Í eitt augnablik áttuðu Íslendingar sig á því sem John K. Galbraith átti við þegar hann sagði:

"Wealth, in even the most improbable cases, manages to convey the aspect of intelligence."

Íslendingar skynjuðu að engin samsvörun er milli auðs og verðleika - milli peninga og gáfnafars. Sú tenging er ekki til; Íslendingar sáu þetta - og voru kannski, einmitt á þeim tímapunkti, áratug(um) á undan öðrum þjóðum Evrópu.

Í eitt augnablik var Ísland á réttri leið; hið "ógeðslega samfélag" skyldi þrifið hátt og lágt. 

Svo gerðist hitt og þetta - þið þekkið það. Stjórnmálastéttin notaði þau vopn sem ávallt virka þegar almenningur gerist of kröfuharður; að ala á sundrungu og stríðsæsingi. Þannig má tryggja að þjóðin verði á endanum vígamóð og sætti sig við flesta óáran fremur en áframhaldandi orrustur. Enginn hinna hefðbundnu flokka getur talist saklaus af þessari sögu - ekki fremur en almenningur sjálfur, sem virðist endalaust láta siga sér frá því sem máli skiptir.
Í dag eru Íslendingar komnir á þann stað að gildi þjóðfundarins 2009 eiga kannski betur við á röngunni:

Misrétti, virðingarleysi, ranglæti, ábyrgðarleysi og spilling.

Núverandi stjórnvöld hafa brugðist í því sem kannski var mikilvægast verkefnið - að sætta þær fylkingar sem sprottið hafa upp á síðustu árum; fylkingar sem eyða mestum tíma sínum og orku í að berja á hver annarri, yfirleitt út af smáatriðum sem engu skipta í hinu stóra samhengi.
Þvert á móti hafa stjórnvöld - ekki síst Framsóknarflokkurinn - gengist upp í að ala á óþoli og misklíð. Þær endalausu svívirðingar, misskilningur, blákaldar lygar og afneitanir sem koma úr þeirra herbúðum, stafa ekki af heimsku. Þetta eru vopnin sem Framsókn hefur - okkur er ætlað að rífast um nýjustu afneitun Sigmundar Davíðs - eða galna fullyrðingu frá Vigdísi - meðan hinir háu herrar sinna því sem þeir telja mikilvægast; að færa eins mikið af gæðum Íslands og hægt er til "réttra aðila", áður en almenningur opnar augun og rís upp. 

Stjórnvöld víða um heim eru í sömu stöðu - það er kurr meðal almennings og viðvaranir eru farnar að berast. Eftir að brauðmolakenningin lagðist á dánarbeðið - og rís vonandi aldrei upp aftur - upplifir fólk hefðbundna stjórnmálamenn sem peð auðvaldsins. Á Íslandi er þetta kannski augljósara en annars staðar, því nálægðin er mikil og atvinnulíf að mestu fábrotið. Heilt yfir hafa stjórnvöld sjaldan þorað að hrófla við nokkru sem máli skiptir hvað viðkemur ákveðnum atvinnugreinum - og þegar það gerist er tilgangurinn ævinlega sá að róa öldur mótmæla, fremur en rökstudd stefna í átt að langtíma markmiði.

Í dag blasa síðan við verkfallsátök hvar ítrustu kröfur hljóða upp á eitthvað sem almenningur í flestum nágrannalöndunum myndi ekki sætta sig við. Lífskjör á Íslandi verða ekki töluð upp með skýrslum sem útlista fyrir þjóðinni hve gott hún hefur það, heldur með aðgerðum sem tryggja að sá sem lifir sæmilega skynsömu lífi geti ávallt náð endum saman um mánaðarmót. Allt annað er óásættanlegt.

Forseti Íslandis boðaði í London, árið 2005, að útrásarvíkingarnir gætu leyft sér meiri áhættu á erlendri grund, sökum þess þeir gætu ávallt treyst á íslenska öryggisnetið. Nú er kominn tími á að þetta öryggisnet sé dregið fram og möskvarnir þrengdir, svo hinir fátækustu fái notið. Lágmarkslaun upp á 300.000 krónur eru léleg og munu ekki tryggja þær breytingar sem til þarf. En slík laun eru byrjunin - og þau hljóta að teljast lágmarkskrafa í landi sem býr við - að sögn - besta gjaldmiðil í heimi, brakandi hagvöxt og allt það leikrit.

Það er kominn tími á að rykið sé dustað af gildum þjóðfundarins 2009, öryggisneti Ólafs sé snarað upp, örlítið breyttu - og orð Galbraith's séu höfð til hliðsjónar.

Það að einhver lykti af peningum, gerir viðkomandi ekki hæfari til að taka ákvarðanir um þína framtíð.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni