Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Glottandi feðgar

Glottandi feðgar

Einhvern tíma í orrahríðinni sem á hefur gengið, varpaði snápur á Fréttablaðinu fram þeirri kenningu að fylgni væri milli fjármuna og hæfileika.

Yfir þessu hneyksluðust margir, sem skiljanlegt er - enda tóm vitleysa.

Þó - miðað við það sem við sjáum í kringum okkur - mætti færa kenninguna nokkuð nær veruleikanum, ef við aðskiljum ríkt fólk sem hefur unnið sig upp úr bágri stöðu (og notað til þess færni eða hæfileika) og svo hina sem hafa ýmist fengið allt upp í hendurnar, eða komist í aðstöðu hvar siðleysi þeirra nær að blómstra.

Annars vegar höfum við t.d. Steve Jobs, sem vann sig upp úr litlu og notaði til þess augljósa færni á ýmsum sviðum - hins vegar höfum við feðgana Gunnlaug Sigmundsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, sem báðir falla í síðarnefnda hópinn; hafa komist í álnir sökum einhvers sem ég get ómögulega skilgreint sem hæfileika.

Sá hópur - við getum kallað þá "hina óverðskulduðu" - er yfirleitt fyrirlitinn af dugnaðarforkum, jafn ríkum sem fátækum. Sem vonlegt er.

Allt væri það í góðu lagi og óþarfi að minnast á, nema fyrir þá staðreynd að hinir óverðskulduðu slysast oft til að draga rangar ályktanir af ríkidæmi sínu - og telja, líkt og snápurinn, að ríkidæmi þeirra hljóti að þýða þeir séu merkismenn og hafi sitthvað til málanna að leggja. Geti jafnvel stjórnað heilu landi, ef svo ber undir.

Hinir óverðskulduðu tengja sem sagt vitlaust - horfa á eigið ríkidæmi og draga þá alröngu ályktun að þar hafi gáfur og gjörvuleiki spilað einhverja rullu.

Það er um þetta leyti, sem þeir byrja að þvælast fyrir heiðarlegu, hugsandi fólki - líkt og Sigmundur Davíð gerði allt of lengi (og faðir hans með fádæma fullyrðingum í blaðaviðtali, sama dag og sonurinn hrökklaðist gleiðbrosandi frá völdum).

Síðan þá hafa feðgarnir keppst við að glotta og endurtaka óspart hve dásamlega hafi spilast úr hlutunum - allt sé þetta með eindæmum frábært. 

Þessi taktlausu viðbrögð við þeim hörmulegu aðstæðum sem Sigmundur Davíð kom þjóðinni í - sýna enn og aftur áðurnefndan mun; muninn á hinum óverðskulduðu - og þeim sem hafa unnið sér inn fyrir ríkidæminu.

Ríkt fólk, sem komist hefur áfram á eljusemi og hæfileikum - er vant því að keyra á veggi og mistakast herfilega. Yfirleitt (en auðvitað ekki alltaf) viðurkennir þetta fólk mistökin, greinir þau og einsetur sér að láta slíkt ekki henda sig aftur. Ósérhlífni í sjálfsskoðun eru forsenda þess að þetta fólk læri af mistökum og geri betur næst.

Hinir óverðskulduðu, glotta eins og fábjánar, kenna öðrum um ákeyrsluna og segja mistökin vera þátt í "flottri fléttu", sem á endanum mun skila gríðarlegum árangri. Engin sjálfskoðun; enginn lærdómur. Þeir sem gagnrýna eru bara pjattrófur með aflitað hár.

Sko.

Ég get alveg sætt mig við að ríkt fólk sitji á alþingi - og jafnvel í ráðherrastólum. Sjálfur tel ég það ekki af hinu góða, en átta mig á að margir eru því ósammála. Lýðræði heitir þetta víst og ég ræð ekki miklu; reyndar engu, hvað viðkemur Íslandi.

En í Guðs bænum, kæru Íslendingar - ekki hleypa hinum óverðskulduðu að kjötkötlunum aftur, því þeir kunna sig ekki í ríkidæminu og hafa enga reynslu af fátækt. Þeir hafa ekkert það, sem heiðarlegu alþingi vanhagar um.

Á þessu eru undantekningar; ég þekki það.

En af hverju að taka áhættuna?

Brennt barn forðast eldinn; þjóð sem hefur þolað Sigmund Davíð, áttar sig á að tengslin milli ríkidæmis og hæfileika, eru stórlega ofmetin.

Ef ekki bara tóm vitleysa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni