Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Af forsetum, spillingu og blindri trú

Af forsetum, spillingu og blindri trú

Hvernig liði þjóðinni ef ekki hefði tekist að kjósa forseta vegna misklíðar og ágreinings? Segjum til dæmis að Alþingi hefði breytt stjórnarskrá þannig að kjörinn forseti þyrfti 2/3 hluta atkvæða og tvær umferðir kosninga og enginn hefði fengið tilskilinn meirihluta. Innanríkisráðuneytið drægi það síðan úr öllu veldi að boða til nýrra kosninga, undir því yfirskini að það sé svo dýrt fyrir þjóðina. Það væri þá ekki hægt að koma lögum í gegn og enginn höfðingi til að taka myndir af í landsliðstreyju.  

Hér í Líbanon hefur ekki verið forseti í tvö ár, þar sem enginn frambjóðandi fékk 2/3 atkvæða í kosningunum í apríl 2014. Forsetinn er valinn úr hópi þingmanna og einungis (karl)menn úr flokki Maronite kristinna hafa rétt til að bjóða sig fram. Heimildarmenn mínir segja að þessir frambjóðendur séu flestir fyrrum stríðsherrar frá tímum borgarastyrjaldarinnar og þeir séu hver öðrum verri. 

Stjórnarfyrirkomulagið í Líbanon átti að vera tímabundin lausn árið 1926 til að ólíkir trúarhópar gætu búið friðsamlega saman og því fékk hver trúarhópur ákveðinn fjölda á þinginu og hver sitt embætti. Forsætisráðherrann er Sunni, forseti þingsins er Shia o.s.frv. Skipting þingmanna í hverju héraði tekur mið af samsetningu íbúa á svæðinu. Alltaf stóð til að breyta fyrirkomulaginu í átt að opnara lýðræði, svona eins og konungsstjórnarskrá Íslendinga átti bara að vera tímabundið plagg þar til búin yrði til sérstök stjórnarskrá fyrir Ísland.

Vandamálið er að þetta fyrirkomulag dýpkar bilið á milli hópanna því sérhver þeirra einblínir á að halda sinni stöðu. Þingmenn og ráðherrar hygla einungis félögum úr eigin hópum og þannig hefur allt kerfið orðið gegnsýrt af spillingu. Við erum langt frá því að vera saklaus af þess konar stjórnarháttum, nema trúarhópar okkar heita stjórnmálaflokkar, sem of margir trúa á í blindni.

Borgarstyrjöldin hófst m.a. vegna þess að múslimum fannst þeim ekki hafa nógu marga á þingi, auk þess að búa við félagslegt óréttlæti. Kristnir voru með meirihluta þingsæta samkvæmt stjórnarskránni og bitlingarnir fóru allir til eigenda fyrirtækja sem voru kristnir. Þannig var múslimum haldið niðri og ójöfnuðurinn jókst. Á sama hátt eykst ójöfnuðurinn á Íslandi þegar góðar stöður og viðskiptatækifæri falla í skaut fjölskyldu og flokksfélaga. Sem betur fer er lítið um vopn á Íslandi annars væri eflaust búið að stofna til alvarlegri ófriðar.

Þótt forsætisráðherrann Tammam Salam, sem er ágætur, gegni embætti forseta de facto er ljóst að það býður upp á agaleysi innan stjórnsýslunnar. Allar auðlindir eru í einkaeigu frá því að vestrænar alþjóðastofnanir settu einkavæðingu sem skilyrði fyrir fjármagni til uppbyggingar eftir lok borgarastyrjaldarinnar. Við erum að tala um nauðsyn eins og vatn, rafmagn og jafnvel strendur. Einkafyrirtækin njóta síðan verndar einhvers stjórnmálaflokks innan trúarhópanna.

Stjórnarfyrirkomulagið í Líbanon var tilraun sem hefur sýnt sig að virkar ekki. Þess vegna er svo brýnt að Íslendingar taki honum stóra sínum, komi nýju stjórnarskránni í gegn og fari að finna leiðir að starfhæfu þingi, þar sem þingmenn skiptast ekki í lið, heldur vinni sem ein heild. Eins og ég hef lengi sagt, tel ég nauðsynlegt að ráðherrar sitji ekki á þingi og að persónukjöri verði smám saman komið á. Því fyrr sem Íslendingar koma þessu í gegn, því fyrr geta önnur lönd litið til okkar og fengið þar fyrirmynd að útfærslu. Þess vegna vona ég að Íslendingum beri gæfa til að kjósa flokka sem ætla að koma nýju stjórnarskránni í gegn og láti ekki hræðsluáróður plata sig.  

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu