Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Af hverju ættirðu að búa í mygluðu húsi?

Einu sinni var maður sem bjó í gömlu, margsprungnu, mosagrónu húsi. Hann hugsaði smá um að byggja sér nýtt hús, keypti sér meira að segja teikningar að draumahúsinu, en ákvað síðan frekar að breyta bara gamla húsinu í staðinn. Hann byggði bíslag hér og útskot þar, breiddi lök fyrir einfalt glerið í gluggunum, tróð dagblöðum inn í sprungur, skóf mesta mosann af og málaði yfir myglubletti.

En það var sama hvernig hann tróð, skóf og málaði, húsið varð aldrei eins og draumahúsið, myglan hélt áfram að dreifa sér og trekkurinn og kuldinn alveg að drepa hann. Samt bjó hann áfram í gamla húsinu, af þrjóskunni einni saman.

Svona er sagan um lýðræðisríkið okkar. Það er sama hvernig þingmenn reyna að staga, bæta og mála yfir mygluna, það verður aldrei nútímalegt og lýðræðislegt vegna þess að grunnurinn er gallaður. Það er ekki hægt að þróa alvöru lýðræði með þá fornaldarstjórnarskrá sem nú er í gildi.

Við eigum nýja stjórnarskrá sem hæfir alvöru lýðræðisríki og tilurð hennar var líka eins lýðræðisleg og hægt var.

Við völdum 25 hæfa einstaklingar til að semja stjórnarskrá, klæðskerasniðna að þörfum þjóðarinnar: Dreifa valdinu þannig að ráðherrar sitji ekki á þingi; hafa auðlindir í þjóðareign svo hægt sé að standa straum af heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngukerfi osfrv; að þjóðin sjálf hafi málskotsrétt; minnka vald stjórnmálaflokka og leyfa einstaklingsframboð.

Þetta voru ekki einhverjir ómerkingar að rissa upp óraunhæf drög. Þetta var þjóðkjörið fólk sem nýtti nótt og dag til að afla sér upplýsinga um hvernig önnur lönd höfðu sína stjórnarskrá, hvaða ákvæði væru ný, hver væru nauðsynleg fyrir lýðræðisríki, hvað hafði virkað vel í öðrum löndum og hvernig best væri hægt að tryggja réttindi hins almenna borgara. Saman fundu þau lausnir sem hentuðu allri þjóðinni.

En þegar kom að því að samþykkja stjórnarskrána voru ráðamenn ekkert tilbúnir að dreifa valdinu, því þeir vildu halda áfram að semja eigin leikreglur. Auðlindirnar þurftu að vera áfram í einkaeigu til að standa straum af eigin kosningabaráttu og áróðri til að halda völdum; og að einhverjir Gummar úti í bæ gætu gefið kost á sér til þings var bara fáránleg hugmynd.

Því gerðu þeir nýju stjórnarskrána tortryggilega, sögðu hún væri ófullkomin, óskýr, ómerkileg drög; draumórar þeirra sem skortir raunsæi og visku. Að málskotsréttur myndi bara skapa vandræði því almenningur væri ekki nógu gáfaður til að fara varlega með hann og það væri ekki hægt að taka auðlindir bara si svona af réttmætum eigendum þeirra. Það skipti engu þótt þjóðin hafði samþykkt hina nýju stjórnarskrá með meirihluta atkvæða.

Stjórnarskrá er ekki draumórar, heldur mikilvægur hlekkur í þróun samfélagsins. Hún er grunnur sem lög byggja á. Þú byggir ekki draumahúsið á brotnum, mosagrónum fornaldargrunni sem er allt of lítill.

Stjórnarskrá á ekki vera ítarlegt plagg, heldur rammi utan um önnur lög sem gefur til kynna hvernig samfélag við viljum hafa og hvert við viljum stefna sem lýðræðisríki. Stjórnarskrá tekur breytingum eftir því sem samfélagið vitkast og þroskast og því er ekkert sem heitir „fullkomin stjórnarskrá“. En ramminn þarf að ríma við það stjórnskipulag sem við viljum. Það er ekki hægt að breyta fornaldarstjórnarskrá í nútímastjórnarskrá, ekki frekar en þú getur breytt gallabuxum í hvíta skyrtu.

Hversu lengi sættum við okkur við að búa í gömlu mygluðu samfélagi með trekk, þar sem vald og auðlindir eru á fárra höndum. Viljum við ekki frekar komast í nútímann, nota teikningarnar sem við eigum nú þegar og byggja draumahúsið?

Kjósum fulltrúa sem hyggjast koma nýju stjórnarskránni í gegn óbreyttri. Tvisvar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni