Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Draugaborgin Hebron

Draugaborgin Hebron

Við gistum tvær nætur í Hebron, þessari fjölmennustu borg Vesturbakkans. Þar búa um það bil 200 þúsund íbúar, auk 500-650 landnema inni í borginni og auk þeirra sem búa í sérstökum byggðum rétt fyrir utan borgina.

Leiðsögumaðurinn og baráttumaðurinn Badee Dweik sýndi okkur hvernig nýju landnemar taka yfir svæði heimamanna og hengja ísraelska fána utan á hús sem áður tilheyrðu Palestínumönnum. Landnemar mega nefnilega eiga byssur og eiga því hægt með að reka Palestínumenn í burtu. Í einu húsinu voru iðnaðarmenn ennþá að byggja húsið þegar vopnaðir landnemar komu, ráku þá í burtu, merktu húsið Ísrael og höfðust fyrir í húsinu. Þó svo að dómsyfirvöld dæmdu hústökuna ólöglega gátu eigendur hússins ekkert gert, því landnemarnir sátu sem fastast og beindu vopnum að hverjum sem ætlaði að reka þá út.

Á öðru húsi tóku landnemar yfir aðra og þriðju hæðina, en palestínski eigandinn bjó ennþá á jarðhæðinni með fjölskyldu sinni. Ísrealsku flögginn voru áberandi utan á húsinu, nærliggjandi húsum til áminningar um ógnina.

Yfir markaðssvæðið sem Hebronbúar hafa enn aðgang að hefur einnig verið hengt upp net, því ofan á markaðssvæðinu eru ný hús, landnemahús og íbúar þeirra stunda það að henda rusli út. Við hittum einmitt eina fjölskyldu sem býr í húsi alveg við markaðsvæðið. Hús landnemanna lá hærra en hús palestínsku fjölskyldunnar svo girða þurfti net fyrir ofan innganginn til að taka við ruslinu sem landnemar hentu yfir palestínsku fjölskylduna. Jafnframt byggðu landnemarnir körfuboltavöll til að gera lífið óbærilegt vegna hávaða. Allt til að reyna að hrekja fjölskylduna í burtu. Þessi árátta landnema að henda rusli yfir annað fólk, segir meira um þá en mörg orð.

Á einum stað höfðu landnemar skotið vatnstank íbúa svo vatnið lak allt út. Vatn er það dýrmætasta hér um slóðir. Einhver átök brutust út vegna þessa sem enduðu með því að tvö börn fjölskyldunnar sem átti vatnstankinn voru skotin.

Ástæðan fyrir því að gyðingar ásælast Hebron er að borgin eða öllu heldur moskan í miðbænum er talin vera annar heilagasti staður gyðinga á eftir Jerúsalem. Ibrahimi moskan í Hebron er nefnilega byggð ofan gröf Abrahams og Söru, sona þeirra og tengdadætra, sem eru forfeður og formæður allra gyðinga.  

Áður höfðu múslimar og gyðingar jafnan aðgang að moskunni og ísraelskir hermenn gættu þess að allt færi friðsamlega fram. En eitt febrúarsíðdegi árið 1994 þegar 800 múslimar höfðu rétt lagst á bæn í moskunni, mætti gyðingur nokkur í hermannabúningi með fullhlaðna hríðskotabyssu og auka hylki með. Honum tókst að myrða 29 manns og særa hundruðir í viðbót. Eftir þetta var ákveðið að skipta moskunni í tvennt. Múslimar hafa norður helminginn og gyðingar þann syðri.     

Á gangi um draugahverfið sáum við fjóra landnema ganga um svæðið og einn þeirra, kannski tæplega þrítugur, var með stóra marghleypu. Á öðrum stað kom maður æðandi á fjórhjóli og keyrði óþægilega nálægt okkur þar sem við vorum á gangi með Badee leiðsögumanni. Næst keyrði sá brjálaði næstum á hann og æpti ókvæðisorðum að honum. Í þriðja sinnið hótaði ökumaðurinn að hans tími væri kominn og gaf þannig í skyn að bráðum yrði hann drepinn. Þetta gerist í hvert sinn sem Badee sýnir fólki svæðin sem landnemar eru að taka yfir ólöglega.

Það væri auðveldara fyrir alla ef landnemar og Palestínumenn byggju í aðskildum byggðum, en stefna yfirvalda og landnema er að hrekja núverandi íbúa í burtu og því byggja þeir alveg ofan í húsunum sem fyrir eru. Svo gera þeir allt til að gera hinum lífið leitt. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni