Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Bedúínalíf

Bedúínalíf

Þessar vikurnar dvel ég í Wadi Rum eyðimörkinni í boði Bedúína. Þetta er ævintýralíf. Vaknað fyrir sólarupprás, klifrað upp á næsta klett og hugleitt á meðan sólin silast upp fyrir fjallið í austri. Þvínæst eru nokkrar jógaæfingar í stóra tjaldinu á meðan strákarnir útbúa morgunmat fyrir ferðamennina. Þeir stelast til að gjóa augunum að mér í jóganu, því þeir eru ekki vanir því að sjá konur í jóga. Því næst drífum við okkur yfirleitt í þorpið til að skila ferðamönnunum og fara í sturtu, því vatn er af skornum skammti hér.

Þorpið sem um ræðir er Wadi Rum village, en þar var bedúínum boðið að hafa varanlega búsetu í stað þess að flakka um eyðimörkina á milli graslendna og vatnsbóla, því það fór yfirleitt ekki saman. Segi ykkur meira frá því seinna.

Ferðamennirnir koma fyrri part dags, arabískur tími er mjög afstæður, skoða eyðimörkina yfir daginn og gista svo í búðunum eina nótt. Þeir eru sóttir í ferðamiðstöðina, því enginn fer inn án þess að hafa leiðsögumann.

Jepparnir sem innfæddir nota til að ferja menn um mörkina eru eldgamlir fjórhjóladrifnir pallbílar. Ferðamennirnir sitja á pallinum með skýli yfir. Þetta eru fornir bílar sem hanga saman af gömlum vana, því það þýðir ekkert að vera með nýjan bíl hér. Í fyrsta lagi myndi gírskiptingin fljótlega eyðileggjast, a.m.k. í sjálfskiptum bílum, því það færi sandur í hana. Í öðru lagi er hitinn svo mikill yfir daginn að bíllinn yrði fljótt mattur. Ég fékk að keyra einn jeppann og fyrirmælin voru „stígðu svo tvisvar á kúplinguna, því hún virkar yfirleitt ekki í fyrsta skiptið.“ Það gleymdist hins vegar að nefna að bremsurnar voru búnar líkar, en það kom ekki að sök því hraðinn er ekki mikill á þessum slóðum.

Þetta er mjög skemmtilegt samfélag. Hér heilsast allir þegar þeir mætast á bílunum og kalla stríðnisorð til hvers annars eða einhverjar gleðikveðjur, eftir því hvernig liggur á mannskapnum. Ef einhver er strand er stoppað til að kanna hvernig hægt sé að hjálpa. Í dag til dæmis mættum við manni sem fylgdi ferðamönnum á kameldýrum. Hann var orðinn vatnslaus og að deyja úr þorsta svo við gáfum honum eina stóra flösku. Því næst mættum við manni sem hafði fest bílinn í sandinum. Strákarnir þrír sem keyrðu mig, skelltu sér út og ýttu honum af stað. Svipað og uppi í óbyggðum Íslands.

Hér í búðunum er rafmagn frá sólarpanelum, tvö vatnsklósett og sturtur. Í búðunum eru tíu tveggjamanna tjöld, þrjú stór sameiginleg tjöld og eldstæði undir berum himni. Eftir kvöldmat er kveiktur eldur, lagst á dýnur í kringum eldinn og horft á stjörnurnar sem eru ótrúlega margar. Sumir fá sér smá sísju.

Kvöldmaturinn er eldaður í sandinum, í gryfju sem er þannig umbúin að sandurinn fer ekki í matinn og síðan breitt yfir með ábreiðu og sandur þar ofan á. Svo eldast maturinn hægt og rólega á meðan fólkið skoðar eyðimörkina. Algjörlega ljúffengt.

En áður en kvöldmatur er framreiddur er skotist upp á næsta klett og fylgst með sólinni setjast til viðar. Hér er sólarupprás og sólarlag hluti af daglegu lífi, svona eins og sumir horfa alltaf á uppáhaldsþáttinn sinn í sjónvarpinu. Hvort ætli sé nú betra fyrir sálina, ferðalag sólarinnar eða sápuópera um annað fólk? 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu