Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Raunsæi og kristalskúlur

Raunsæi og kristalskúlur

Í ársbyrjun 2007 sagðist systir mín vera að pæla í nýrri íbúð til kaups. Ég ráðlagði henni að bíða með það. Sagði henni að þetta yrði allt saman hrunið með miklu brambolti innan næstu þriggja ára og bankarnir farnir á hausinn. Sem betur fór ákvað hún að fara að ráðleggingum mínum.  

Það þurfti ekki hámenntaðan sérfræðing til að sjá þetta fyrir. Enda veit ég fátt um fjármál og rekstur. Veit bara það eitt að til þess að rekstur fyrirtækis eða heimilis geti borið sig fjárhagslega þarf innkoman að vera ívíð betri en útgjöldin. Ég veit heldur ekkert um hagfræði eða markaðslögmál.  Ég er bara ósköp venjulegur gaur út í bæ. Samt virðist ég stundum vita betur en svokallaðar greiningardeildir bankanna. Kristalskúlurnar sem þar eru notaðar við spámennsku brugðust herfilega í aðdraganda Hrunsins, eins og frægt er orðið.

Það þurfti bara smá raunsæi til að sjá þetta fyrir. Raunsæi er vanmetið fyrirbæri og er oft ruglað saman við svartsýni.  Raunsæi er kommon sens byggt á fyrri reynslu.

En það var ekki að finna í greiningardeildunum og kristalskúlunum þeirra.

Því miður virðist mér að enn sé verið að nota sömu kristalskúlurnar eftir Hrun. Fyrir Hrun sáust í þeim ofurhagkerfi, alþjóðleg fjármálamiðstöð og ómælt magn steinsteypu. Í dulúðugum reyk kúlanna sjást núna hótelbyggingar um allar koppagrundir og stríðir straumar erlendra ferðamanna. Þeir verða taldir í milljónum og rutt frá Leifsstöð í hraðlestum. Þetta verður sko eitthvað!

Blessuð mjólkurkýrin verður blóðmjólkuð en svo virðist sem það eigi ekkert að fóðra hana. Allar þessar milljónir ferðamanna verða nefnilega að stórum hluta hingað komnar til að skoða íslenska náttúru. Og ennþá hefur ekkert verið gert til að mæta þessum straumi. Það verður einhver bið á því. Iðnaðarráðherra var gerður afturreka með heimskulega hugmynd um náttúrupassa sem átti að skaffa pening til að búa ferðamannastaðina og náttúruna undir þessi ósköp.  Það kom auðvitað ekki til greina að taka þetta fjármagn beint úr ríkissjóði. Á meðan mokar ráðherrann hundruðum milljóna í stóriðjufyrirtæki og vildarvini Sjálfstæðisflokksins sem ætla í fiskeldi.

Innan næstu þriggja ára verður ferðaþjónusta á Íslandi hrunin. Það þarf enga sérfræðinga til að sjá það. Bara smá raunsæi.  Við höfum nefnilega dæmin annars staðar frá. Vinsælir ferðamannastaðir við sólarstrendur hafa margir hlotið þessi örlög þegar átroðningurinn hefur orðið það mikill að ekki hefur verið við neitt ráðið. Þegar strendurnar eru orðnar ógeðslegar, allt úttraðkað og sjúskað – þá er einfaldlega ekkert varið í staðinn lengur og ferðamennirnir fara eitthvert annað.

Hótelævintýrið sem nú er í uppsiglingu verður þá á pari við laxeldið og loðdýraræktina. Hálfbyggðar hótelbyggingar verða vitnisburður um offjárfestingu, fjöldagjaldþrot og milljarða afskriftir sem varpað verður yfir á almenning meðan greiningardeildirnar pússa kristalskúlurnar og fjárfestarnir leita nýrra ævintýra.

Raunsæi eða svartsýni?

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu