Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Mannúð í móttöku - forðumst ljótu dæmin

Mannúð í móttöku - forðumst ljótu dæmin

Eins og flestir vita að þá geisar flóttamannaskrísa í Evrópu og víðar. Helsta ástæða hennar er hið grimmilega borgarastríð í Sýrlandi, sem nú hefur staðið í um hálfan áratug og kostað um 300.000 manns lífið. Nú glímir alþjóðakerfið við alvarlegasta flóttamannavanda sem um getur síðan 1945 og milljónir manna eru flótta, bæði í Evrópu og Mið-Austurlöndum.

Áhrifa alls þessa og fleiri atburða gætir einnig hér á Íslandi og í aðdraganda Alþingiskosninga.

Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði hafa mótað sér stefnu í málefnum sem gengur út frá mannréttindum og mannvirðingu. Sama hvort um er að ræða sýrlenskan flóttamann, Edward Snowden, kúrdíska móður eða Julian Assange. Fyrir Dögun eru allir jafnir og Dögun vill bjóða fólk sem hingað leitar í neyð velkomið og taka á móti því eins og hæfir siðmenntaðri þjóð. Líka Snowden og Assange, sem hafa staðið að ótrúlegum afrekum og afhjúpað gríðarlega spillingu og ofbeldi.

Ljót dæmi – nei takk!

Nú þegar erum við byrjuð að sjá verulega ljót dæmi um meðferð á flóttafólki og eða hælisleitendum. Skemmst er frá því að minnast þegar lögreglumenn drógu hælisleitendur með valdi út úr Lauganeskirkju og sagt var frá í Stundinni. Fram að þessu hefði maður haldið að kirkjur væru griðarstaður, en um það var svo sannarlega ekki að ræða í þessu tilfelli. Samkvæmt áreiðanlegum heimildum er einn þeirra sem dreginn var út úr kirkjunni kominn aftur til hins ofbeldisfulla Íraks (fyrst til Noregs og síðan áfram) og hefur það skítt þar. Þetta var Íslandi til skammar.

Þegar undirritaður bjó í Svíþjóð á árunum 1996-2007, þá komu reglulega upp brottvísunarmál, sem bitnuðu mjög grimmilega á fólki. Oftar en ekki var um að ræða fjölskyldur sem voru búnar að koma sér fyrir í landinu, börn komin í skóla, feður í vinnu og svo framvegis. Sem betur fór tókst að snúa við mörgum þessara mála, m.a. vegna þrýstings frá almenningi og fjölmiðlum. Þar með var mannúð sýnd í stað harðneskju og saklausu fólki forðað frá því að vera hent aftur inn á stríðssvæði, eins og t.d. Írak. Gleymum því ekki að stanslaust stríð hefur geisað í Írak, frá því að Bandaríkjamenn réðust þar inn árið 2003, með samþykki Íslands, þáverandi utanríkis og forsætisráðherra. Fleiri hundruð þúsund manna (hermanna og almennra borgara) hafa fallið í þeim átökum og engin lausn er í sjónmáli.

Mannúð móttökumálum

Í stefnu Dögunar segir orðrétt: ,, Dögun vill að vel sé tekið á móti flóttafólki og að Ísland virði flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna í hvívetna. Við leggjum áherslu á að þær stofnanir sem hafa með málefni flóttamanna að gera séu í stakk búnar til að afgreiða þau mál skjótt og örugglega.“

Margt bendir til þess að íslenskur vinnumarkaður geti á komandi árum tekið á móti mörgum vinnufúsum höndum. Í þessu samhengi má nefna það að fæðingatíðni var í fyrra sú lægsta frá upphafi mælinga, eða 1.81 barn per konu. Þetta er áhyggjuefni og kemur meðal annars inn á fæðingarorlof og fleiri slíka þætti.

Það er ákveðinn gæðastimpill að hingað vilji leita fólk til að fá skjól og hæli, það bendir til þess að friður og hagsæld ríki hér. Flóttamenn, sem síðan fara út á vinnumarkaðinn, hafa því jákvæð áhrif á hagkerfið og borga sína skatta eins og aðrir. Þess vegna er nauðsynlegt að stuðla að íslenskukennslu fyrir flóttamenn sem setjast hér að, því án tungumálsins geta margar hindranir risið. Tungumálið er því lykillinn að því sem síðar kemur. 

Dögun vill taka á þessum málum af mannúð og mannvirðingu og í samræmi við alþjóðlega sáttmála sem Ísland er aðili að. Dögun vill líka að stjórnkerfið verð þannig útbúið að mál í kerfinu taki ekki óeðlilega langan tíma og fái skilvirka afgreiðslu. 

Höfundur skipar 3ja sæti í Kraganum fyrir Dögun, samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu