Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Bananakassinn

Bananakassinn

Óhætt er að segja að landflótti hafi brostið á þegar litlum hópi manna hafði næstum því tekist að kollkeyra íslenskt samfélag á haustdögum 2008 og Geir H. Haarde bað Guð um að blessa Ísland. Þá fékk litla eyþjóðin heldur betur skell, sem aðeins er sambærilegur við endalok fullveldis Íslands í kjölfar Sturlungaaldar árið 1262, þegar Þjóðveldið sundraðist vegna græðgi og valdabaráttu.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar fluttu tæplega 28.000 manns frá landinu á árunum 2009-2015. Það er álíka og að næstum allur Kópavogur hefði horfið úr landi, næst stærsta bæjarfélag landsins. Langflestir þeirra sem fluttu frá landinu gerðu það af efnahagslegum ástæðum; vinnumissir, lág laun, háir vextir, betri aðstæður fyrir barnafjölskyldur á Norðurlöndum (þangað sem margir/flestir fóru) og svo framvegis.

Það er þó ekki svo að enginn hafi flust til landsins á þessu tímabili, þetta er jú alltaf spurningin um ,,út og inn.“ Það heitir svokallaður ,,flutningsjöfnuður.“

Segja má því að bananakassinn svokallaði hafi verið grimmt notaður á þessum árum, enda mjög heppilegur til flutninga; hann er harðger, þægilegur og í góðri stærð. Varð einskonar tákn um afleiðingar kreppunnar. Flestir fengu og fá líka bananakassa ókeypis í verslunum, enda þægilegt fyrir kaupmenn að þurfa ekki að henda þeim  sjálfir.

Í þeim kosningum sem nú standa fyrir dyrum vill Dögun í raun berjast gegn bananakassanum. Með því að stuðla til dæmis að því að gera róttækar umbætur á fjármálakerfi landsins, sem miða að því að lækka vexti, sem eru óskiljanlega háir á Íslandi. Stofnun samfélagsbanka er liður í þessu. Dögun vill einnig afnema einn versta óvin íslenskra launamanna, verðtrygginguna. Þá vill Dögun innleiða mun meira valfrelsi og nýjungar á íslenskum húsnæðismarkaði, sem hingað til hefur einkennst af miskunnarlausri séreignastefnu. Búseturéttir, leiguréttir og ýmis form búsetu sem tíðkast í nágrannalöndum okkar og víða í Evrópu eru allt mál sem eru á málaskrá Dögunar.

Leggjum bananakassann til hliðar – það er að segja þegar búið er að koma þessum bognu ávöxtum fyrir í búðarhillunum. Bless bananakassi! 

Höfundur er í 3ja sæti á lista Dögunar í Kraganum – Suðvesturkjördæmi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni