Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Styrkur töframannsins

Styrkur töframannsins

Um daginn voru birtar viðamiklar fréttir upp úr Fésbókar-status einhvers Einars Mikaels töframanns sem að eigin sögn er heimsfrægur á Íslandi og þarf að versla í Hagkaup á næturnar til að fá frið fyrir æstum aðdáendum.

Þar fór hann hamförum um listamannalaun og hvatti m.a. til þess að rithöfundar yrðu sniðgengnir ef þeir afsöluðu sér ekki þessum verkefnastyrkjum sem listamannalaun eru.

Þetta var rökstutt að hætti prestskonunnar Helen Lovejoy úr Simpsons-þáttunum með ýmsu sem stóðst ekki lágmarksstaðreyndaskoðun s.s. að Halldór Laxness hefði aldrei fengið listamannalaun o.fl. í þeim dúr.

Einnig bar hann því við að J.K. Rowling hefði verið bláfátæk og hefði náð að gefa út bókina á þrjóskunni og án þess að þiggja styrki. Það er heldur ekki rétt þar sem Scottish Art Council veitti henni styrk til að klára fyrstu Harry Potter-bókina.

Sjálfur sagðist þessi Einar ekki hafa þegið eða myndi sækja um styrki á borð við listamannalaun.

Það er ekki allskostar rétt þegar að er gáð.

Sjálfur fékk hann 550 þúsund kr. styrk frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands í fyrra til að reyna fyrir sér erlendis sem töframaður líkt og sést á heimasíðu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar.

Kannski ætti Einar Mikael að líta í eigin barm áður en hann hvetur til þess að vinna annars fólks sé sniðgengin vegna þess að það sótti um styrki vegna vinnu sinnar.

Það yrði allavega heiðarlegra heldur en að hann reyni þá list að dreifa athygli fólks í burtu frá spurningum um hversvegna hann sé ekki samkvæmur sjálfum sér.

Sjónhverfingar töframanna virka nefnilega ekki alltaf.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu