Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Stærsti vinningurinn

Það datt einhver í lukkupottinn í gær og fékk 86 milljónir í Víkingalottóinu.

Vonandi verður þetta viðkomandi til  gæfu og vart annað hægt annað en að óska viðkomandi til hamingju.

Samt er þetta ekki stærsti lukkupotturinn sem frést hefur af nýverið hér á landi.

T.d. duttu vildarviðskiptavinir Arion-banka óvænt í lukkupottinn þegar þeir keyptu sér miða í einkavinavæðingarlottóinu á sérstöku tilboði og unnu 410 milljónir um daginn.

Stóri vinningurinn í einkavinavæðingarlottóinu kom svo upp úr lukkupottinum í gær.

Þá fengu nýir eigendur Borgunar sem höfðu keypt fyrirtækið af Landsbankanum án útboðs og á „special price for you my friend“, marga milljarða vinning þegar Visa International tók yfir Visa Europe.

Einnig fengu þeir bónusvinninginn þegar það kom í ljós að svo „heppilega“ vildi til að Landsbankinn hafði sleppt því að setja fyrirvara í samning um þessa væntanlegu yfirtöku ólíkt því þegar hann seldi Arion-banka hlutinn í Valitor nokkuð fyrr.

Þetta kallar maður einhvern stærsta lukkupott ársins sem svo heppilega vildi til að rataði til innvígðra innan Borgunar og frændagarðs fjármálaráðherrans Bjarna Ben.

Frændgarður hans er reyndar gasalega heppinn þegar kemur að lukkupottum líkt og þegar Matorka og Kynnisferðir frænda hans fengu óvænta undanþágu frá skatti.

En það er ekki víst að þetta verði lengi kallað stærsti lukkupottur ársins í lottóinu.

Það eru nefnilega tveir risalukkupottar framundan.

Landsbankinn og Íslandsbankinn.

Það verður svo sannarlega stærsti vinningur þessa áratugs líkt og Landsbankinn og Búnaðarbankinn þess síðasta.

En það er samt óhætt að vara strax við því að það verður mjög erfitt fyrir flesta að fá vinning í þessu lottó.

Það eru nefnilega 99% líkur á því að vinningsmiðinn verði við hliðina á koníaksglasi í vina- og vandamannahóp Bjarna Ben og annarra innvígðra Sjálfstæðismanna.

Við hin verðum bara að bíta í það súra epli að þurfa að borga lottómiðann þeirra.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni