Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þjóðaratkvæðagreiðsluhugmynd forsætisráðherra

Forsætisráðherra hefur hent því út að hann myndi vilja sjá þjóðaratkvæðagreiðslu um verðtrygginguna.

Nú væri hægt svo sem að bæta ýmsu við það sem bent hefur verið á með eðli þjóðaratkvæðagreiðslna og tilgang þeirra en það er ágætt að velta fyrir sér af hverju Sigmundur Davíð er að viðra þetta.

Fyrir það fyrsta þá er hann að tala um það að láta þjóðina ákveða hvort hann eigi að efna kosningaloforð sítt sem hann var kosinn út á og hefur haft nær þrjú ár til að efna en lítið aðhafst í þeim málum.  Það má líta á það þannig að hann sé að reyna að firra sig ábyrgð á eigin loforði og velta henni yfir á kjósendur um leið og hann ætlar að reyna að nýta sér tækifærið til eigin vinsældaaukningar fyrir næstu þingkosningar.

Líklegast er þó aðalástæðan fyrir þessu að samstarfsflokkurinn standi í vegi fyrir því að Sigmundur geti komið þessu kosningamáli í gegn en að sama skapi þá hefði hann sem annar af forystumönnum ríkisstjórnarinnar getað barist fyrir þessu af hörku strax í stað þess að láta málið stoppa líkt og það væri húsnæðismálafrumvarp frá Eygló Harðar. Ef þetta er stórmál að hans mati sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur í vegi fyrir þá ætti hann að slíta samstarfinu, boða til nýrra kosninga og óska eftir nýju umboði til að framkvæma þetta kosningaloforð.

En svo er það nú líka eitt annað sem spilar talsvert inn í þetta. Þetta er nefnilega vel til þess fallið að þyrla upp moldviðri og hasar sem myndi skipta þjóðinni upp í tilgangslausu rifrildi meðan athyglin færðust frá öðrum málum s.s. niðurrif heilbrigðisþjónustu, sölu Landsbankans til vildarvina, aukinni misskiptingu, verndun kvótagreifa og öðrum þeim málum sem ríkisstjórnin hefur sett á oddinn. Þessi „divide and conquer“-taktík hefur nefnilega verið ansi oft beitt af hálfu Framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokks þ.e. að etja fólki saman og nýta sér það til vinsældaaukningar eða athyglisdreifingar í gegnum tíðina.

Svo yrðu það nú niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar sjálfrar ef hún færi fram. Ríkisstjórninni og ráðamönnum ber nefnlega enginn skylda til að hlýta henni sbr. „ráðgefandi“ né myndi fara eftir henni ef hún væri þeim í óhag. Þetta yrði ávísun upp á „status quo“-ástand ef það eru deilur um þetta milli stjórnarflokkana og myndi eingöngu nýtast fyrir kosningaáróður Framsóknarflokksins með endurnýtanlegum kosningaloforðum. Ef svo Sjálfstæðisflokkurinn tekur fálega í þessa hugmynd opinberlega þá er líka hægt að veifa því að það hafi ekki staðið á Framsókn að leita eftir vilja þjóðarinnar eða reyna að efna kosningaloforð sem líklegast var aldrei ætlun að efna.

Eða munið þið kannski eftir kosningaloforðinu um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald ESB-viðræðna og hvernig stjórnarflokkarnir hafa efnt það?

Þessi hugmynd um þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám verðtryggingar er því frekar tilgangslítil í ljósi ýmisra þátta en ef ráðamönnum er alvara með að láta þjóðarvilja ráða þá ættu þeir að byrja á því að fara eftir niðurstöðum síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá. Þar hefur bæði þing og stjórn svikið eigin þjóð um efndir á þeim niðurstöðum og vinnur þess í stað hörðum höndum að því að koma í veg fyrir aukið lýðræði m.a. með frekar þröngt skilgreindu og óásættanlegu ákvæði stjórnarskrárnefndar um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Það minnir mann reyndar á eitt annað.

Kosningaloforð Framsóknarflokksins um nýja stjórnarskrá árið 2009.

Það var mikið að marka það.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni