Pistill

Ég vil borga meira fyrir hlutina en ég þarf

Snæbjörn Ragnarsson velur ekki lægsta verðið.

Heilög stund Snæbjörn fer oftar í klippingu en hann þyrfti, á þriggja vikna fresti, en segir klippinguna sjálfa ekki aðalatriðið. Mynd: Heiða Helgadóttir

Peningarnir mínir fara í teiknimyndasögur, föt, hljóðfæri, bensín, mat og áskrift að ameríska fótboltanum. Ég fer í klippingu og ég drekk kaffi og bjór og ég reyni að eyða aðeins meira í þetta en ég þarf.

Ég fer oftar í klippingu en ég þyrfti. Ég fer til nafna míns, hans Stjúra, og hjá honum á ég bókaðan tíma á þriggja vikna fresti fram að jólum. Þetta er vitanlega heimskulegt því ég skarta fremur ólögulegu hanakambslíki sem ég hirði ekkert og skeggi sem ég greiði ekki nema í stólnum hjá Stjúra. Svo vill til að umræddur stóll stendur í Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar og þar kaupi ég oftast mín föt. Þau kosta nú heldur meira en ég kæmist upp með að borga, til dæmis í stórmörkuðum eða á lagersölum, og ef ég virkilega legði mig fram gæti ég komist upp með miklu lægri útgjöld með netinnkaupum frá útlöndum.

Og talandi um kaup yfir netið. Sennilega er Nexus mín uppáhaldsbúð því þar kaupi ég myndasögurnar mínar. Þær eru örlítið dýrari þar en erlendis (þótt verðið þar sé raunar ótrúlega samkeppnishæft) og ég gæti sparað talsvert með því að panta í magnkaupum á Ebay. Nú eða hreinlega með því að lesa stafrænt og fá sögurnar í iPaddinn. Þá þyrfti ég ekki einu sinni að fara út úr húsi.

Eðli málsins samkvæmt fara umtalsverðir peningar frá mér til hljóðfærabúða því ég lifi og hrærist í tónlist alla daga og endalaust. Rekstrarvörur á borð við strengi og snúrur og neglur og svoleiðis kosta sitt og reglulega kaupi ég dýrari hluti á borð við hljóðfæri, magnara og önnur tæki og tól. Tónlistarstússið hefur líka í för með sér ferðalög til útlanda og þar gæti ég nú aldeilis gert góð kaup ef ég teygði mig eftir þeim. En nei, ég kýs að gera sem mest í Hljóðfærahúsinu og sólunda þessum umframkrónum glaður.

Nú veit hvert hugsandi mannsbarn að kaffi má kaupa í matvöruverslunum og bjór í áfengisverslunum og þar eru sennilega bestu kaupin. Það breytir því ekki að ég lít mjög reglulega inn á Skúla Craftbar til að drekka bjór og þar er hann mjög sennilega dýrari en á öðrum knæpum. Kaffið sötra ég svo úr pappamáli sem ég sæki mér á kaffihús borgarinnar og borga hreinlega margfalt á við það sem ég læt fyrir heimauppáhellinginn.

„Ég vil kaupa mér skemmtilega daga.“

Nýjasta sprengjan á íslenskan markað var hið áður óséða bensínverð hjá Costco, sennilega 30 krónum ódýrara en hjá samkeppnisaðilunum. Ég vil samt alveg endilega halda áfram að arka með minn bensínlykil inn á mína Olís-stöð og borga hitt verðið áfram. Ég borða líka á Rosenberg þar sem piparsteikin er miklu dýrari en það sem ég set á grillið heima hjá mér, ég horfi á ofurhetjumyndirnar í bíó, þær sömu og ég get séð í ótakmörkuðu magni á Netflix fyrir verð eins bíómiða á mánuði, og ég kaupi áskrift að NFL sem kostar mig á ársbasís talsvert minna en að stríma leikjunum af netinu. Ok, tökum þetta síðasta út fyrir sviga því þar værum við að tala um lögbrot og hreinan stuld. En hvatirnar eru þær sömu.

Og hverjar eru þá þessar hvatir? Af hverju vil ég borga meira? Er það vegna þess að ég á svona mikinn pening? Alls ekki. Ætli ég sé ekki bara svona rétt í meðallagi staddur fjárhagslega á Íslandi. Ég kvarta ekki, en ég færi líka létt með að keyra mig á hausinn í snatri ef ég ekki héldi í taumana. Ef ég væri ríkur ætti ég fleiri skópör frá Kormáki og Skildi, fleiri Fender-bassa úr Hljóðfærahúsinu og fleiri viðhafnarútgáfur úr Nexus. Nei, ég þarf að velja mér hvað ég kaupi. Og ég vil kaupa mér skemmtilega daga.

Hvað í veröldinni er gaman við það að horfa í peninga alla daga og endalaust? Hvað fær fólk út úr því að standa í röð þegar verslanir opna til að borga minna en það gæti gert annars staðar? Hvaða gleði fæst með því að bera saman samsærisbækur á Facebook og kvarta undan okri hingað og þangað? Auðvitað eigum við ekki að láta bjóða okkur svindl og svínarí og auðvitað höfum við mismikið á milli handanna. Ég segi það samt viðstöðulaust að ég vil frekar heilsa vinalegu stelpunni í Olís þegar ég borga bensínið vegna þess að hún kannast við mig frá því síðast en að bíða í röð við Costco. Hún gaf mér meira að segja kaffibolla um daginn. Mennirnir sem stóðu vaktina á Skúla þegar ég fór þangað í gær eru vinir mínir og þeir sögðu mér fullt af skemmtilegum hlutum um bjórinn sem ég var drekka. Snillingarnir í Nexus staldra við og tala við mann um ótrúlegustu hluti, ráðleggja mér til og frá, sérpanta, nördast, hlæja og segja sína skoðun umbúðalaust og strákarnir í Hljóðfærahúsinu sömuleiðis. Og þessi heilaga stund þegar við Baldur bróðir förum saman til Stjúra í klippingu er ómetanleg. Klippingin sjálf er ekki aðalatriðið, auðvitað ekki. Samskiptin eru málið. Um daginn töluðum við um tölvuleiki og skáluðum í viskíi meðan afgreiðslumenn Herrafataverzlunarinnar báru á skóna mína sem ég keypti hjá þeim fyrir tveimur árum. Svona dagar eru það sem gefa lífinu gildi, ekki biðröð að nóttu til fyrir utan enn eina verslunarkeðjuna.

Kannski er fólk að spara fyrir einhverju og ég ætla ekki að drulla yfir það. Ég vil samt frekar hafa alla daga ársins skemmtilega með því að borga aðeins meira og sleppa því að fara í 3 vikur til Bene eða Tene.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

NEI, við veitum ekki þessar upplýsingar

Fréttir

Þorsteinn aftur staðinn að rangfærslum – nú um málefni lífeyrisþega

Úttekt

Umsátrið um Katar

Fréttir

Telja að fólk hafi ekki kynnt sér skýrslurnar nógu vel – Benedikt: „Ég kom ekkert nálægt skýrsluvinnunni“

Úttekt

Fjársvelt samneysla og sögulegar óvinsældir

Pistill

Hvern leikur þú?

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Slæm tíðindi af Stefáni Karli

Fréttir

Var látin afneita áföllum í áfengismeðferð

Viðtal

„Það var öskrað á mig og mér hótað“

Pistill

Borgar sig ekki að eiga íbúð

Fréttir

Vopnaðir sérsveitarmenn handtóku ölvaðan mann í miðbænum

Fréttir

Föður barnanna vísað úr landi í nótt