Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

„Öræfin eru á alla mælikvarða verðmætari villt en virkjuð“

„Halda þau enn að stór­iðja, fisk­veið­ar og land­bún­að­ur séu einu bjargráð þjóð­ar­inn­ar? Eru þau svona mikl­ar gung­ur að þau geta ekki stað­ið í lapp­irn­ar gegn freka karl­in­um?“ Stund­in birt­ir er­indi frá há­tíð til vernd­ar há­lend­inu.

Paradísarmissir, hátíð til verndar hálendinu, var haldin síðastliðið fimmtudagskvöld. Hátíðin var haldin á vegum náttúruverndarsamtaka og ferðafélaga til þess að vekja athygli á fyrirhuguðum framkvæmdum á hálendi Íslands. 

„Sótt hefur verið inn á hálendið í auknum mæli á undanförnum áratugum og víðernin fara ört minnkandi. Vaxandi þrýstingur er á að raska hálendinu enn frekar með virkjunum, uppbyggðum vegum og raflínum. Tillögur eru um að leggja uppbyggðan veg um Kjöl og háspennulínu og uppbyggðan veg yfir Sprengisand. Þá undirbúa orkufyrirtækin að reisa að minnsta kosti fimmtán nýjar virkjanir eða uppistöðulón á hálendinu, þar af eru fjórar fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðum sem nú eru í verndarflokki í verndar- og orkunýtingaráætlun stjórnvalda," segir á vefsíðu framtaksins, Hjarta landsins.

Húsfyllir var á hátíðinni en við birtum ræður sem fluttar voru þetta kvöld, þar sem fólk var meðal annars hvatt til þess að leggjast fyrir jarðýturnar, vogi þær sér upp á Sprengisand.

Stundin birtir hér ræðurnar sem fluttar voru á hátíðinni.

Malbikaðar hraðbrautir á hálendinu

15 nýjar virkjanir áformaðar á hálendi Íslands með tilheyrandi láglendisvæðingu hálendisins með gistihúsum og vegasjoppum

 Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar:

Hvers vegna er blásið til baráttufundar núna? Jú, vegna þess að sjaldan hefur verið jafnmikil nauðsyn á samstöðu um vernd hálendisins og á næstu misserum. Það er komið að ögurstundu.

Ögurstund er magnþrungið orð. Er þessi dramatík mín einvörðungu vegna þess að ég er fæddur dramadrottning, sem ég fúslega viðurkenni, eða hangir fleira á spýtunni?

Skoðum það nánar.

Landsnet hyggst reisa stóra og áberandi háspennulínu í lofti þvert yfir Sprengisand, ekki ólíka þeim sem við sjáum á Hellisheiðinni. Sprengisandslína myndi kljúfa hálendið í herðar niður.

Og Orkufyrirtækin vilja:

  • Virkja Jökulsárnar í Skagafirði með óbætanlegu tjóni fyrir flúðasiglingar og víðfeðmustu flæðiengi landsins og jafnvel Norðurlandanna.
  • Tvær vikjanir í Skjálfandafljóti með uppistöðulónum hátt upp á hálendinu og neikvæðum áhrifum á einstaka fossa eins og Aldeyjarfoss.
  • Virkja jarðhitasvæðið við Fremrinámar á ósnortnu landsvæði við Ketildyngju, milli Mývatns og Herðubreiðarfjalla.
  • Virkja jarðvarma við Hágöngur í anddyri Vatnajökulsþjóðgarðs.
  • Virkja við Skrokköldu á Sprengisandsleið.
  • Virkja við Norðlingaöldu í jaðri Þjórsárvera og eyðileggja víðerni vestan Þjórsár og fossana, þá bræður Dynk, Gljúfurleitarfoss og Kjálfaversfoss.
  • Reisa Bjallavirkjun og Tungnaárlón á óbyggðum víðernum milli Friðlands að Fjallabaki og Vatnajökulsþjóðgarðs.
  • Virkja Hólmsá við Einhyrning eða við Atley og Skaftá við Búland.
  • Reisa þrjár virkjanir á vatnasviði Hvítár: Hagavatnsvirkjun við Langjökul á frábæru útivistarsvæði, í Stóru-Laxá og við Búðartungu 5 km ofan Gullfoss.
  • Þá eru uppi hugmyndir um vindmyllur á tveimur stöðum.

Samtals eru þetta um 15 nýjar virkjanir á hálendi Íslands.

Og þetta er ekki alveg búið...

Því virkjunum fylgja nýjar, uppbyggðar og helst malbikaðar hraðbrautir á hálendinu, og í kjölfarið láglendisvæðing hálendisins með gisithúsum og vegasjoppum. Skynsamleg ákvörðun Vegagerðarinnar í gær um að fresta umhverfismati nýs Sprengisandsvegar um sinn er þó áfangasigur okkar allra.

Kæru gestir!

Gleymum því ekki að enginn hefur greint frá því í hvað eigi að nota þessa orku.“

Gleymum því ekki að fjórar af þessum virkjanahugmyndum eru í verndarflokki rammaáætlunar! Ég sem hélt í sakleysi mínu að verndarflokkur þýddi vernd!

Gleymum því ekki að enginn hefur greint frá því í hvað eigi að nota þessa orku.

Gleymum því ekki að nú þegar hefur fjölmörgum svæðum á hálendinu verið fórnað. Getum við samþykkt að skipta köku á milli verndar- og orkunýtingar sem þegar er hálf? Svar mitt er

NEI!

Góðir gestir!

Þið munuð heyra hér á eftir hvers virði hálendið er. Þessar framkvæmdir ógna því virði. Þannig að ég spyr: „Hvaða framtíð viljum við sjá fyrir hálendi Íslands?“

Þessa hérna sem ég hef hér að framan lýst?

Eða þessa hér þar sem við tryggjum varanlega vernd hálendis Íslands?

ÞETTA ERU VALKOSTIRNIR! Svellkaldur raunveruleikinn.

Ég legg til að við nálgumst vernd hálendisins með jákvæðni og berjumst fyrir okkar sýn, gerum hana að raunverulegum, áþreifanlegum valkosti sem getur hrifið fólk með okkur á verndarvagninn.

Að lokum geri ég orð Guðmundar Páls Ólafssonar heitins að okkar allra: „Á meðan er okkar sæng upp reidd: Að verja hálendið, sjálft hjarta landsins, með ráð og dáð, sem sverð þess og skjöldur. Og annaðhvort verjum við það núna eða aldrei. Í húfi er æran, þín og mín; heiður allra Íslendinga.“

Látum þennan fund marka endi Paradísarmissis og upphaf Paradísarheimtar.“

Aldeyjarfoss
Aldeyjarfoss

Enginn selur sjálfviljugur úr sér hjartað

Við Íslendingar erum ekki lengur blásnautt fólk, við erum rík þjóð.

Snorri Baldursson, líffræðingur og handhafi íslensku bókmenntaverðlaunana fyrir bókina Lífríki Íslands:

Ég var beðinn að koma með fræðilega vídd inn á þennan fund og reyni að byrja þannig.... en tala þó ekki síður frá hjartanu, enda er vernd hálendisins hjartans mál ekki síður en höfuðsins.

Landslag er afurð andstæðra afla sem hlaða upp annars vegar og rífa niður hins vegar. Eldvirknin hefur byggt upp landið og ísaldarjökullin er það meginafl sem hefur rofið það og mótað. Þótt þessi öfl hafi verið mikilvirkust á ísöld hafa þau síður en svo látið af störfum. Enn eru megineldstövar í óða önn að hlaða upp gíga og hraun og enn eru jöklar og jökulár að puða við að rjúfa, slétta og jafna... að ógleymdum vindinum.

Miðhálendi Íslands er eldbrunnin háslétta þakin hraunbreiðum, vikrum og svörtum söndum. Upp úr sléttunni rísa bláhvítar jökulbreiður, grænir móbergshryggir, formfögur eldfjöll, dyngjur og stapar. Á stöku stað eru uppsprettulindir, gróðurvinjar og litskrúðug háhitasvæði, og til jaðranna samfelldar grónar heiðar með fiskivötnum þar sem himbrimi og hávella syngja. “Nóttlaus voraldarveröld þar sem víðsýnið skín” kvað Stephan G. og fangaði í einni setningu töfra öræfanna og íslenska sumarsins.”

„Hvergi í heiminum sé unnt að finna á afmörkuðu svæði jafn fjölbreytileg ummerki um átök jökla og eldvirkni og á hálendi Íslands.“

Virtustu jarðvísindamenn okkar hafa komist að þeirri skýru niðurstöðu að hvergi í heiminum sé unnt að finna á afmörkuðu svæði jafn fjölbreytileg ummerki um átök jökla og eldvirkni og á hálendi Íslands. Og jarðmyndanir sem þar er að finna hafa hjálpað fræðimönnum að skýra sambærileg fyrirbæri á plánetunni Mars; hrauntraðir, hamfarahlaupsfarvegi, gervigígaþyrpingar. Líf sem uppgötvast í Skaftárkötlum undir Vatnajökli leiðir óðar hugann að því hvort sambærilegt líf sé að finna undir íshellunni á Evrópu fylgitungli Júpíters.

Semsagt, hvergi er sköpun Jarðarinnar og starfsemi mótunarafla hennar, jarðelds, jökla, vatns, vinds og lífs sýnilegri en á hálendi Íslands. Þar fer fram stöðug sýnikennsla í landmótun og næmar manneskjur skynja þar vel þennan frumkraft sköpunarinnar. Það eru ekki margir staðir á jörðinni sem búa yfir sambærilegum töfrum og eru jafn aðgengilegir. Lundúnarbúi getur á einum degi komist úr skarkala stórborgarinnar aftur til upphafsins! Og fyrir okkur, íbúa þessa lands, tekur það aðeins einn til tvo tíma.

Æ fleiri ferðamenn, innlendir og erlendir, eru að uppgötva þessa staðreynd. Árið 1969 þegar Búrfellsvirkjun var vígð og markaði upphaf stóriðjustefnunnar, komu hingar 44.000 erlendir ferðamenn. Á síðasta ári voru þeir rétt um ein milljón og skiluðu um 300 milljörðum í gjaldeyristekjur, meir en nokkur önnur atvinnugrein. Fjórir af hverjum fimm þessara ferðamanna, 800.000 manns, sögðust koma hingað fyrst og fremst vegna einstæðrar náttúru landsins.

Öræfin okkar, hálendi Íslands, er þess vegna einstök gersemi fyrir okkur íbúa þessa lands og alls heimsins, langstærsta óbyggða víðerni Evrópu sunnan heimskautsbaugs og einn allra dýrmætasti arfur þjóðarinnar til langs tíma litið. Þetta blásna, eldbrunna hjarta landsins hefur aldrei verið byggt – að undanskildum örfáum útilegumönnum – en það býr samt í okkur öllum. Öræfin búa í hjörtum okkar og sinni, hugarheimi, sögum, menningu og listum. Þau eru hluti af okkur alveg eins og sagan og tungan. Hvar væru íslensku ævintýrin, útilegumannasögurnar, hrollvekjurnar án óbyggðanna?.... “Enn er þó reymt á Kili”..... Eða kvæðin og vísurnar sem allir þekkja: “Ríðum og ríðum”, “Yfir kaldann eyðisand”, ”Óbyggðirnar kalla” og „kyrja þar dimman kvæðasón Kverkfjallavættir reiðar“. Örnefni eins og Ódáðahraun, Sprengisandur, Eiríksjökull, Hvannalindir og Vonarskarð springa út í hugum okkar í litríkum sögum og sýnum. Öræfin eru náttúruarfur Íslendinga, Konungsbók náttúrunnar.

„Öræfin búa í hjörtum okkar og sinni, hugarheimi, sögum, menningu og listum. Þau eru hluti af okkur.“

Önnur konungsbók, Konungsbók eddukvæða, er með orðum Arnaldar Indriðasonar „tötrum klædd bókardrusla... en … þótt við ættum aðeins hana eina værum við rík að bókmenntum og hefðum lagt stóran skerf til heimsmenningarinnar.“ Hvað er hálendið annað en Konungsbók íslenskrar náttúru? Þótt við ættum það eitt, villt og dulúðugt, værum við rík að náttúrugæðum. Að spilla því meir en orðið er fyrir svokallað raforkuöryggi eða örfá megavött til viðbótar er ekkert annað en glæpur gegn náttúrunni og íslenskri þjóðarsál. Væri atvinnuveganefnd Alþingis til í að selja Konungsbók eddukvæða bærist í hana gott tilboð, svo sem eins og tveir milljarðar?

Blásnautt alþýðufólk hér áður fyrr notaði skinnhandrit í skóleppa og reyndi jafnvel að leggja þau sér til munns í hallærum. Fátæklingar úti í heimi selja úr sér annað nýrað til að framfleyta fjölskyldum sínum, vegna þess að það er eina úrræðið sem eftir er. En enginn selur sjálfviljugur úr sér hjartað og við Íslendingar erum ekki lengur blásnautt fólk, við erum rík þjóð.

Í mínu ungdæmi þótti það ekki bera vott um mikil búhyggindi – frekar heimsku og búskussahátt – að eta útsæði næsta árs. Samt eru sterk öfl í þessu þjóðfélagi ennþá til sem vilja eta þetta útsæði framtíðarinnar, þennan óendanlega dýrmæta náttúru- og menningararf okkar. Jökulfljótin og háhitasvæðin fara ekkert á næstunni þótt þau fái að renna og blása óáreitt. Þau mala okkur gull óhamin. Öræfin okkar eru á alla mælikvarða verðmætari villt en virkjuð.

„Jökulfljótin og háhitasvæðin fara ekkert á næstunni þótt þau fái að renna og blása óáreitt. Þau mala okkur gull óhamin.“

Ég klóra mér oft í kollinum yfir okkar ágætu ráðamönnum, körlum og konum til hægri og vinstri. Eru þau svona rígföst í fjötra hugarfars síðustu aldar að þau skynji ekki tíðarandann? Halda þau enn að stóriðja, fiskveiðar og landbúnaður séu einu bjargráð þjóðarinnar? Eru þau svona miklar gungur að þau geta ekki staðið í lappirnar gegn freka karlinum sem á og rekur Skrokköldu hf eða Hagavatnsvirkjun ehf? Ráða eiginhagsmunir för? Hvað veldur?

Ég hef ekki svar við því, kæru áheyrendur, en veit þó að við getum ekki treyst á skyndilega hugarfarsbreytingu stjórnmálamanna. Við verðum sjálf, með órofa samstöðu, að tryggja vernd hálendisins. Til þess þurfum við að láta finna fyrir okkur. Við þurfum að tala við vini og vandamenn, senda bréf og pósta, skrifa greinar, birta myndir, láta til okkar taka á samfélagsmiðlum. Við þurfum að nýta sambönd okkar í útlöndum, standa á Austurvelli og óhlýðnast þegar þess þarf. Og við þurfum umfram allt að vera albúin að leggjast fyrir jarðýturnar, vogi þær sér upp á Sprengisand.“

Kerlingafjöll
Kerlingafjöll

Töfrar fjallanna bíða eftir sínu skáldi

Þessi ósnortnu, óefnislegu, og ólýsanlegu verðmæti miðhálendisins sem við þurfum að standa vörð um.

Steinar Kaldal, verkefnastjóri hálendisverkefnis Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands:

„Í viðamikilli könnun á meðal Norðurlandaþjóðanna voru Íslendingar meðal annars beðnir um að nefna helsta tákn þjóðar sinnar.

Íslensk tunga, saga og menning voru nefnd af mörgum. En það sem flestir nefndu var íslenskt landslag.

Landslagið liggur djúpt í vitund okkar og óvíða hefur það meiri áhrif á okkur en á víðernum miðhálendisins.

Að lýsa áhrifunum og fegurðinni sem þar ber fyrir augu er hins vegar ekki einfalt. Listamaðurinn Guðmundur Einarsson frá Miðdal, sem var einn frumkvöðla hálendisferða hér á landi, orðar þetta vel í bók sinni Fjallamenn, sem gefin var út árið 1946.

„Það er að sínu leyti eins erfitt að lýsa útsýni af fjöllum eins og að lýsa sjónarhæð fuglsins, og að ætla sér að mála sólina.“

Standandi á hæsta tindi Kerlingarfjalla, Snækolli, með útsýni yfir ósnortin víðernin, lýsir hann því sem kemur upp í hugann og skrifar: Það er að sínu leyti eins erfitt að lýsa útsýni af fjöllum eins og að lýsa sjónarhæð fuglsins, og að ætla sér að mála sólina.

Hljóðfalli brimsins, vorþytinum í grasinu og norðurljósadansi vetrarins hefur verið lýst meistarlega á öllum öldum. En töfrar fjallanna bíða eftir sínu skáldi.

Það er margt til í þessu hjá Guðmundi Einarssyni.

Og það eru þessi ósnortnu, óefnislegu, og oft á tíðum ólýsanlegu verðmæti miðhálendisins, sem við þurfum að standa vörð um.“

Kjölur
Kjölur

Kaupmáttur aukist með heróínsprautu í hagkerfið

Ef allir jarðarbúar myndu nota jafnmkið af auðlindum og við íslendingar þá þyrfti að minnsta kosti ellefu jarðir til viðbótar.

Kristín Helga Gunnarsdóttir, rithöfundur, leiðsögumaður og náttúruverndarsinni:

„„Leikur öræfaandi,

Hvísla einveruhljóð,

breiðist hátignarhjúpur

yfir heiðanna slóð.

O'n af fornhelgum fjöllum

þrumar forlagamál.

Á þeim afskekktu stöðvum

ríkir ómælissál.”

Þannig fangaði Jóhannes úr Kötlum öræfaandann - galdurinn sem býr í auðninni og kyrrðinni.

Og við spyrjum okkur: Hvers virði er þetta? Getum við búið til gjaldskrá? Hvað borgum við fyrir að sjá og upplifa? Er verðmiði? Hvaða rekstrarforsendur má leggja til grundvallar hér

Hagfræðileg viðmið, hagræn gildi, hagvöxtur, arðsemi fjármagns, framleiðni hagkerfa, krafa um stöðugan vöxt, einkaneysla og kaupmáttaraukning. Hér eru aðeins örfá af ótal handónýtum hugtökum sem byggja á ónýtu kerfi fortíðar. Kerfi sem við rogumst með og felur í sér tortímingu jarðar, afát, ofneyslu, ágang, græðgi og sóun sem bitnar fyrst og síðast á heimilinu okkar, plánetu jörð. Bitnar á nærumhverfinu, landinu og sveitinni okkar, bakgarðinum og okkur sjálfum, en mest þó á afkomendum okkar um ókomna tíð.

„Kerfi sem við rogumst með og felur í sér tortímingu jarðar, afát, ofneyslu, ágang, græðgi og sóun sem bitnar fyrst og síðast á heimilinu okkar, plánetu jörð.“

Og í stað þess að sjá sjúkdómseinkennin, hlusta á hjartslátt jarðar, fylgjast með óstöðugu línuriti ,höldum við ótrauð áfram. Við sláum okkur á lær í veislum yfir því að ef allir jarðarbúar myndu nota jafnmkið af auðlindum og við íslendingar, og gera sömu neyslukröfur og við, þá þyrfti að minnsta kosti ellefu jarðir til viðbótar.

En við hljótum að læra og lifa í batnandi heimi. Eða eins og Birtíngur sagði - „Allt er gott, allt gengur vel. Allt gengur hið besta sem má.“

Afhverju búum við þá við ríkisstjórn sem starfar eftir hugmyndafræði liðinnar aldar? Ráðamenn sem kasta fjöreggjum á milli biðflokka og nýtingarflokka - eins og óðar tröllskessur? Afhverju höfum við verið slegin áratugi aftur í tímann í hugarfari, viðhorfum, stefnu og framtíðarsýn?

Eitt er þó öðruvísi í dag en um miðja síðustu öld. Við erum fleiri sem spyrnum við fótum. Við, náttúrufólkið, erum ekki lítill hópur sérvitringa sem auðvelt er að hundsa og hæðast að. Nei, við erum fjöldahreyfing. Það er vitundarvakning. Hún er ekki bara á Íslandi heldur út um alla veröld. Við erum mörg og okkur fjölgar mjög hratt.

Því miður líka vegna þess hve víða blikur eru á lofti. ,,Fyrst láta þeir eins og við séum ekki til. Svo hlæja þeir að okkur. Því næst berjast þeir við okkur og svo sigrum við,”sagði Mahatma Gandhi. Þau orð eru okkar leiðarljós. Þannig verður maður að sjá þetta ferli sem við erum í. Þetta er barátta fyrir framtíðina. Orrustan um Ísland, liður í stærri baráttu fyrir lífvænlegri veröld.

Þannig vitum við öll að í framtíðinni mun hver einasta ákvörðun sem stjórnmálamenn standa frammi fyrir verða tekin eingöngu með tilliti til umhverfis og náttúru- aðeins með hliðsjón af því hvað það gerir fyrir jörðina, landið, sveitina og bakgarðinn. Við erum á þessum krossgötum núna og aðstæður þvinga valdamenn veraldar á næstunni til að velja þessa stefnu. Því fyrr sem þeir átta sig, því betra.

Og hvar er betra að skapa fyrirmyndina en á Íslandi? Við erum fámenn. Við búum við landfræðilega einangrun en erum líka miðsvæðis í veröldinni. Við náum svo auðveldlega athygli þegar við hrópum hátt – hvort sem við skandalíserum eða gerum eitthvað sniðugt. Við höfum hér mögnuð tækifæri til að búa til nýja framtíðarsýn fyrir veröldina til að lifa eftir. Þar er afkomutækifæri fyrir okkur svo aðrar þjóðir megi læra af, skoða og nýta sér. Við gætum leitt umræðuna á heimsvísu, umræðuna um það hvernig mannskepnan getur lifað af í heiminum með sem minnstri áníðslu. Það hlýtur alltaf að vera hið endanlega markmið.

 Endalaust þarf að skoða nýja virkjanakosti, endurskoða og endurflokka ár og sprænur, öræfi og eyðiland. 

En allt stefnir að stækkun og framfarir ganga út á að finna ný þolmörk og komast þangað. Endalaust þarf að skoða nýja virkjanakosti, endurskoða og endurflokka ár og sprænur, öræfi og eyðiland. Það er ekki síst svo verktakar hafi risaverkefni til að keyra áfram dýran tækjabúnað og mannafla sem krefst öflugra skyndiúrræða, svo kaupmáttur aukist með heróínsprautu í hagkerfið.

Við þurfum að hugsa hlutina upp á nýtt. Ekki lappa upp á ónýtt kerfi. Það vantar nýtt kerfi – kerfi sem heitir ekki hagkerfi. Það orð er ónýtt. Kannski ætti það að heita jarðkerfi? Og hagfræðingar morgundagsins væru þá jarðkerfisfræðingar sem gæfu út jarðtölur og könnuðu jarðvöxt, og jarðræn gildi. Hagkerfi er hannað út frá peningalegu regluverki, en jarðkerfið myndi taka inn allar breyturnar. Taka inn þessar breytur sem manneskjur vandræðast með í dag og kalla tilfinningabreytur, náttúrubarnaskap og fjallagrasalógíg.

Það sem er gott fyrir jörðina er gott fyrir okkur. Vð erum eitt. Hættum að tala um mann og náttúru. Maður er náttúra. Við þurfum ný gildi með framtíð jarðar, lands, sveitar, okkar sjálfra og afkomendanna að leiðarljósi.

Við erum landverðir og flytjum fjársjóðinn frá einni kynslóð til annarrar. Við hverfum sjálf eftir augnablik og verðum að mold. Við verðum að jörð sem öðrum verður falið að varðveita svo næstu kynslóðir njóti gæða og deili saman.

Við erum landverðir og vitum að morgundagurinn geymir nýjar uppfinningar sem ganga út á að ganga ekki á - heldur gefa og auka vöxt og viðgang náttúru og jarðar.

Við erum rómverjar norðursins. Í Róm biðja heimamenn alla að virða og ganga vel um sameiginlegar fornminjar heimsins. Þar stinga menn varla niður múrskeið án þess að ræða mál og skipuleggja. Við ættum hvergi að mega stinga niður skurðgröfukjafti án þess að taka samtalið langa um gildi lands og framtíðar og jarðrænnar þróunnar.

Við erum rómverjar norðursins. Í Róm biðja heimamenn alla að virða og ganga vel um sameiginlegar fornminjar heimsins.

Við erum fjöldahreyfing og við verðum að stækka hratt því við stöndum vörð um heimsminjar. Þekking er öflugasta vopnið í baráttunni gegn öfgaöflum. Innleiðum umhverfis - og náttúruverndarfræði í skólakerfið frá fyrstu tíð. Tölum saman. Upplýsum og leysum allan okkar sköpunarkraft úr læðingi í þágu náttúru- Verum jarðsýn.

Raflínurskógar og upphækkaðar hraðbrautir með vegasjoppum og tilheyrandi mannvirkjum á öræfum Íslands er allra síst það sem ferðamaðurinn leitar að, hvort heldur hann er íslenskur eða gestur að utan.

Það vissi Jóhannes úr Kötlum líka þegar hann sagði þetta um öræfin: „Þar er hreinleikans heimur, og þar hverfur allt tál; þar er hliðið til himins mannsins hrjáðustu sál Einmitt þessvegna er þögnin meiri en þrumuhljóð heit, — margfalt auðugri auðnin en hin algróna sveit.“

Sprengisandur
Sprengisandur

Skítt með loftslagsbreytingar og súrnun sjávar

Hverjum er ekki sama um grjót og svarta sanda þegar hörmungar minnkandi hagvaxtar kalla á umsvif

Þorbjörg Sandra Bakke, Tinna Eiríksdóttir og Hrönn Guðmundsdóttir: 

 

Ísland örum skorið

I

Ísland ögrum skorið

skorið í sundur með háspennulínu

þvert yfir Sprengisand

krass!

Íslands þúsund ár

í uppistöðulóni

urð og grjót og svartir sandar

allt á kafi

allt á bullandi kafi

því að lítil þjóð

með stóra drauma

kann sér ekki hóf

 

II

Á Íslandi ríkir sátt um orkuframleiðslu

sátt um að tapp‘af Reykjanesinu

sátt um að fórna Torfajökli

sátt um að landslag sé einskis virði

nema það skili hagnaði

sátt um Ísland örum skorið

sátt um að nema aldrei staðar

skál í Skjálfandafljóti

skál í Þjórsárverum

skál í hagvexti

skál!

drekkum okkur full

erfum börnin að þynnkunni

og að dreggjum deyjandi lands

 

III

Hverjum er ekki sama um grjót og svarta sanda

þegar hörmungar minnkandi hagvaxtar

kalla á umsvif, kalla á aðgerðir

kalla á íslensk jökulvötn

að hætta að renna gagnslaus til sjávar

fórna sér fyrir málstaðinn

koma svo!

 

IV

Og ál er sko grænn málmur

Bjarni Ben segir það, Orkustofnun segir það

ál mun bjarga heiminum og okkur

og hey, við erum öll hlutlaus

hlutleysið bullar í æðum vor

skítt með loftslagsbreytingar og súrnun sjávar

við virkjum okkur til sjálfbærni

fögnum, systur

því enn eru Íslands þúsund ár á útsölu

 

V

Og hey, hlýnun jarðar býður upp á nýja og spennandi möguleika

í akuryrkju, ferðamennsku og skapandi niðurrifi

Disneyland víðernanna

býður í ferðamannapartý þúsaldarinnar

hálendið, gerum það spennandi!

fáum Helga Björns til að segja að það sé sexí

þolmörk ferðamannastaða er mýta

og hálendið stórt

rúmar eina, tvær, þrjár Kárahnjúkavirkjanir

og túrista á rútum

Því virkjanir eru líka náttúra

stöðvarhús er náttúra

steindautt Lagarfljót er náttúra

– og við hljótum að finna tæknilega ásættanlega leið til að virkja Gullfoss án þess að túristarnir taki eftir:

„passaðu þig samt, það er mjög löng röð á klósettið. Þú mátt ekki missa af rútunni!“

grípum gæsina meðan hún gefst …

og við færum bara gæsirnar ef þær eru fyrir

þjóðin lepur dauðann úr skel

nema álverum fjölgi

árangur áfram, ekkert stopp!

 

VI

Nú skal bjarga sökkvandi skipi

göngum með grasið í skónum

á eftir Alcoa

því að allt er vænt sem vel er grænt

þótt grænt sé svart

og sokkið land

og brennisteinsmengaður mosi

 

VII

…og hjól atvinnulífsins snúast áfram

og áfram og áfram og áfram

um Íslands þúsund ár

þar til enginn man lengur

hvernig víðerni og eyðimörk

og ósnortið land

gerði fólk með stóra drauma meyrt í hjartanu

hjarta landsins

horfið undir steinsteypu og mannvirki

gildi þess mælt í dollurum í ársreikningi Alcoa

foldin fagra og jökulsins kraftur

BAMM!

 

VIII

Og svo einn daginn,

þegar ég er löngu dáin

og við erum öll löngu dáin

og barnabörnin og barnabarnabörnin

og barnabarnabarnabörnin hafa eignast sín börn

þá spyr kannski einhver

 

„Manstu?

Manstu þegar það voru engar raflínur?

Manstu þegar það var engin virkjun?

Manstu þegar það var ekkert uppistöðulón?

Hvernig var þetta þá?

var í alvörunni hægt að sitja í þögn?

var í alvörunni ekkert nema víðáttan hvert sem litið var?

nei, ég man ekki“

 

IX

En hvað ef við skrifum nýja sögu

nýja Íslendingasögu

um fólk sem horfði fram á veginn

og sá betra Ísland með blóm í haga

hjarta landsins heilbrigt, sláandi, óstíflað

urð og grjót og svartir sandar

um Íslands þúsund ár

sagan er okkar

við skrifum hana

áfram, systur!

– kaflaskil 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár