Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Hvernig verður ný ríkisstjórn og hverju breytir hún?

Það er raun­hæf­ur mögu­leiki að gjör­breytt rík­is­stjórn und­ir for­ystu Pírata taki til starfa eft­ir næstu þing­kosn­ing­ar. Stund­in rýn­ir í stöð­una, hugs­an­leg­an kosn­inga­sig­ur Pírata og list hins mögu­lega.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn þurfa á kraftaverki að halda til að geta setið áfram við völd eftir þingkosningarnar sem fram fara þann 29. október. Þótt fylgi Pírata hafi dalað undanfarna mánuði er enn raunhæfur möguleiki að flokkurinn vinni kosningasigur og gjörbreytt ríkisstjórn taki til starfa að kosningum loknum.

En hvaða flokkar eru líklegir til samstarfs við Pírata og um hvað kynnu þeir að sameinast? Eru róttækar lýðræðisumbætur framundan? Mun nýrri ríkisstjórn takast að tryggja almenningi stóraukna hlutdeild í arðinum sem verður til við nýtingu auðlinda landsins?

Samkvæmt skoðanakönnun MMR sem framkvæmd var dagana 22. til 29. ágúst eru Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar þeir stjórnmálaflokkar sem njóta mest fylgis. Sjálfstæðisflokkurinn bætti lítillega við sig og mældist með 24,6 prósent en fylgi Pírata minnkaði og stendur nú í 22,4 prósentum. Fylgi Vinstri grænna stendur í 12,4 prósentum, Samfylkingin er með 9,1 prósent, Framsókn með 10,6 prósent, Björt framtíð með 4,5 prósent og Viðreisn með 8,8 prósent.

Þrátt fyrir að núverandi stjórnarflokkar sæki á samkvæmt nýjustu könnun er staða þeirra enn veik. Svanur Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði og ötull stuðningsmaður Pírata, segir á Facebook-síðu sinni í dag að þrátt fyrir að fylgi Pírata hafi minnkað sé staðan í grunninn óbreytt.

„Ríkisstjórnarflokkarnir í bullandi minnihluta, með stuðning einungis um 1/3 kjósenda. Stjórnarandstaðan er meirihlutafl sem 2/3 kjósenda velur,“ skrifar Svanur sem spáir því að Viðreisn og Þjóðfylkingin muni taka fylgi af Sjálfstæðisflokknum. Þannig muni Píratar á endanum standa uppi sem stærsti flokkur landsins í næstu þingkosningum.

Hvort sem það rætist eður ei er ljóst að ef niðurstöður þingkosninganna þann 29. október verða í takt við fylgismælingar undanfarinna mánaða verða Píratar og Sjálfstæðisflokkurinn einu flokkarnir sem gætu átt möguleika á að mynda saman tveggja flokka ríkisstjórn.

Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn ólíklegt

Áhrifafólk í Pírötum sem Stundin hefur rætt við segir að lítill sem enginn áhugi sé á því innan flokksins að ganga til stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, hvað þá Framsóknarflokkinn. Það sama gildir um vinstriflokkana en bæði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, útilokuðu samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í viðtali við Kjarnann þann 26. júlí síðastliðinn.

Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, gerði slíkt hið sama en tók þó fram að hún hefði ekki umboð til að tala fyrir hönd flokksins. Stuttu síðar, þann 12. ágúst, lenti Birgitta í fyrsta sæti í sameiginlegu prófkjöri Pírata á höfuðborgarsvæðinu. Þótt hún fari ekki með eiginlegt leiðtogahlutverk í Pírötum er óhætt að fullyrða að enginn hefur fengið sterkara umboð frá grasrót flokksins heldur en Birgitta. Sú skoðun er útbreidd meðal áhrifafólks í flokknum að stjórnarsamstarf við núverandi stjórnarandstöðuflokka og/eða hinn nýja flokk, Viðreisn, sé mun ákjósanlegra heldur en að leita samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn eða Framsóknarflokkinn.

Fráfarandi stjórnarherrar
Fráfarandi stjórnarherrar ákváðu að stytta kjörtímabilið í kjölfar Panama-hneykslsins

Viðreisn var stofnuð að frumkvæði fólks sem hafði gefist upp á því að reyna að breyta stefnu Sjálfstæðisflokksins í tilteknum málum. Áhrifafólk í Viðreisn sem Stundin hefur rætt við segir flokkinn opinn fyrir stjórnarsamstarfi við nánast hvaða flokk sem er svo lengi sem stefnumál Viðreisnar hljóti framgang.

Viðreisnarfólk virðist kunna hvað síst við Framsóknarflokkinn og einn af viðmælendum Stundarinnar innan flokksins bendir jafnframt á að Sjálfstæðisflokkurinn sé mun íhaldssamari en Viðreisn, svo sem í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og andstöðu sinni við að kosið verði um aðildarviðræður við Evrópusambandið. 

Benedikt Jóhannesson
Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar

Þá virðist vera nokkur meðvitund um það innan Viðreisnar að stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn gæti reynst hinum nýja flokki skeinuhætt. „Eitt helsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er reyndar einmitt það að margir tengja Viðreisn við Sjálfstæðisflokkinn og við erum með þannig stimpil á okkur, en ef þú lítur á stefnumálin þá ríma þau mjög illa við stefnu Sjálfstæðisflokksins,“ segir einn viðmælandi Stundarinnar. Það að Þorsteinn Víglundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, hyggi á oddvitasæti í flokknum er varla til þess fallið að ná umræddum stimpli í burtu né heldur sá orðrómur að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi forystukona í Sjálfstæðisflokknum, ætli að gera slíkt hið sama.

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, fullyrðir í pistli á vef sínum að líklegasta niðurstaða næstu kosninga sé sú að mynduð verði þriggja flokka ríkisstjórn hægriflokka, þ.e. Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Framsóknarflokksins. Eins og fylgistölur standa nú, og hafa gert undanfarna mánuði, þyrfti þó umtalsverðar fylgissveiflur svo Viðreisn ætti yfir höfuð möguleika á að koma núverandi stjórnarflokkum til bjargar.

Hins vegar má ekki vanmeta þau áhrif sem ójafnt vægi atkvæða eftir kjördæmum getur haft. Slíkt gæti bitnað harkalega á flokkum eins og Pírötum og Viðreisn. Út frá skoðanakönnunum undanfarinna mánaða og margstaðfestum vinsældum Pírata má samt álykta að talsverðar líkur séu á að þeir vinni kosningasigur í haust og leiti samstarfs við einhverja af núverandi stjórnarandstöðuflokkum og/eða Viðreisn.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Stjórnmálaflokkar

Fóru í boðsferð til Krímskaga á Pútínráðstefnu
FréttirStjórnmálaflokkar

Fóru í boðs­ferð til Krímskaga á Pútín­ráð­stefnu

Birgitta Jóns­dótt­ir, stjórn­ar­formað­ur IMMI, og Sara Elísa Þórð­ar­dótt­ir, vara­þing­kona Pírata, fóru á áróð­urs­ráð­stefnu sem er fjár­mögn­uð af rúss­nesk­um yf­ir­völd­um. „Ég er ekki sér­stak­ur stuðn­ings­mað­ur Rússa, Kína, Banda­ríkj­anna né annarra stór­velda og gagn­rýni þau öll við hvert tæki­færi, líka þarna,“ seg­ir Birgitta.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár