Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Ætlar að drepa krabbann

Hann byrj­aði á sjó átta ára, er hætt­ur að vinna fyr­ir út­gerð­ar­menn og rær á sín­um eig­in smá­báti. Hann lif­ir á land­inu og sjón­um, en glím­ir núna við krabba­mein. Björn Þor­láks­son hitti Ólaf Gunn­ars­son sjó­mann á af­mæl­is­dag­inn hans þá ný­kom­inn úr geislameð­ferð, í ver­búð við smá­báta­höfn­ina á Ak­ur­eyri.

Nú er það spurningin hvort viðbrögð fólks við þessu viðtali drepa mig eða hvort krabbameinið drepur mig. Ætli sé nú samt ekki líklegast að ég lifi hvort tveggja af,“ segir Ólafur Gunnarsson sjómaður og brosir hæglátlega þegar blaðamaður Stundarinnar kveður hann að loknu viðtali á hans „heimavelli“.

Heimavöllurinn hans Óla, eins og hann vill láta kalla sig, er verbúð niðri við smábátahöfnina á Akureyri. Þar sátum við í tvo tíma á sunnudegi og ræddum saman. Þung orð hins reynslumikla sjómanns um meingallað kvótakerfi, brottkast og uppkaup útgerðarmanna standa upp úr í því spjalli. Óli er líka húmorískur jaxl eins og tilvitnunin að ofan er dæmi um. Hann tekst nú á við krabbamein. Er hættur á togurum en rær á eigin bát sem oftast. Hann segist njóta þess frelsis að geta nú tjáð umdeildar skoðanir sínar og langar að koma skilaboðum áleiðis, vekja þjóðina. Þöggun og þrælsótti skýri hvers vegna ekki sé rætt meira um brottkastið. Það sé stærra mein en fólk geri sér grein fyrir. Vegna vanmetins umfangs þess sé öll fiskveiðiráðgjöf marklaus. Óli viðurkennir að hann hefði ekki þorað að segja opinberlega satt um brottkastið fyrir nokkrum árum þegar hann reri undir fána leiðandi íslenskra útgerða.

Með sjóræningjafána sér við hlið

Þegar við mælum okkur mót í verbúðinni er afmælisdagur Óla, hann er 62ja ára. Sjómaðurinn er nýkominn að sunnan úr geislameðferð vegna krabbmeins í lunga þegar fundum okkar ber saman. Hann virðist baráttuglaður og æðrulaus í senn. Gómsæt afmæliskringla bíður á borðinu og búið að hella upp á gott kaffi. Við geymum okkur að ræða sjúkdóminn og talið berst að sófa til hliðar þar sem blasir við mikill sjóræningjafáni. Fánann segist Óli hafa fengið að gjöf frá systur sinni. Hann neitar því ekki að flaggið kunni að vera til marks um að í honum búi síðbúinn byltingarsinni. Rás 2 rokkar í útvarpstækinu og fyrir utan blasir við fagurt útsýni, fjöll og smábátar. Ekki einn sjónauki heldur tveir í glugganum. Verklegur hnífur í leðurhulstri á borði. Beittur eins og eigandinn.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár