Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Meistarar ljóðsins

Tveir skáldmeistarar gáfu út ljóðabækur fyrir jólin, Sigurður Pálsson og Þorsteinn frá Hamri. Bók Sigurðar ber heitið „Ljóð muna rödd“, bók Þorsteins „Núna“. Sé Sigurður skáld léttleikans og  glettninnar  þá er Þorsteinn skáld  þungra þanka  og alvöru. Í ljóðum Sigurðar er flæði, í ljóðum Þorsteins þung undiralda, ljóð Sigurðar stundum hástemd, ljóð Þorsteins fremur lágstemd.

Ljóð muna rödd

Eins og heiti bókarinnar gefur til kynna er röddin eitt meginstefjanna  hjá Sigurði. En frumefnin fjögur koma líka mjög  við sögu, við kynnumst stafrófi eldsins og bið jarðar. Hún bíður og býður okkkur upp á  „rólegt svarthol“  þegar ævinni lýkur. Í loftinu hljóma  raddir og vatn er í geislandi skál, geislandi vatn. Orð verða draumar, draumar orð. Ljóðin eru flest hver áberandi persónuleg og virðast einlæg, þetta er kannski persónulegasta bók Sigurðar. Vá er fyrir dyrum en ljóðmælandi vill takast á við hana með sólríkri glaðværð. Eina veila bókarinnar er að minni hyggju sú að dálítið er um kvæði sem ekki falla alveg að heildinni, til dæmis kvæði sem fjalla um það að búa á Íslandi („Hér á spássíu Evrópu“ og „Fámenn eyja“). Þau eru efni í aðra bók (ég mun skrifa mun nánar um þessa bók í öðru samhengi).

Núna

Heitið á bók Þorsteins vísar augljóslega til augnabliksins, í fyrsta kvæðinu segir: „Ljóð okkar, þau eru líðan okkar hverju sinni,…“ Í kvæðinu „Farþegi“ segist ljóðmælandi hafa verið frá því í árdaga í sama vagni, í sömu lest (lestarferðin er væntanlega lífshlaupið). Gluggi er opinn og sést „unaður heimsins, miklir og þéttir skógar. Svo gerist eitt andartak að ljóðmælandi nær að grípa um grein:

„...Ég næ að spenna

greipar

um grein…“(bls 9).

Biður ljóðmælandi um leið? Hver er hans Guð? Náttúrufegurðin? Andartakið er skáldinu mikilvægt, það minnir okkur á að gleðjast yfir unaði þess, vitandi að ekkert varir að eilífu. Ekki bara núið, augnablikið er skáldinu hugstætt,  heldur tíminn, fortíð og framtíð. Í kvæðinu „Barnið  í vöggunni“ les barnið  inngang að verðandi ævitíð, inngang sem skráður er sólstöfum. Annars eru fortíðin og minningarnar í brennidepli. Minningar um unað augnablika, „Andartökin svo ein og heil í fyrndinni…“ (bls. 54). Þessar minningar eru skáldinu fararefni. Í ljóðinu „Frá þeim dögum“ minnist skáldið æskunnar með gleði. Gleðin er eitt meginstefja bókarinnar, gleði þess sem ornar sér við arinelda minninga en kann að njóta andartaksins og kvíður ekki framtíðinni. En í sumum kvæðum er tónninn ögn þyngri, í „Í stef úr strengleik“ stendur þessi gullvæga setning:

„Mér flýgur í grun að ég ferðist raunar

um óland í hjarta mér, innst…“ (bls. 37).

Lokaorð

Þorsteini hefur ekki förlast,  fremur hið gagnstæða, hið sama gildir um Sigurð. Þeir eru réttnefndir meistarar ljóðanna.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu