Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Sendum Angelo heim

Fyrsti punktur:

Árið 2013 voru 55 fangar í einangrunarvist í Danmörku. Hér.

Árið 2013 voru 83 fangar í einangrunarvist á Íslandi.

Danmörk er með 5 milljón íbúum.

Ísland 300 þúsund.

Gleðileg Jól.

 

Annar punktur:

Nefnd Evrópuráðs gegn pyntingum ályktaði um Ísland að hún hefði áhyggjur af óhóflegri beitingu einangrunarvistar á Íslandi.

Já, Evrópa hefur áhyggjur af pyntingum á Íslandi, sem óhófleg og ástæðulaus beiting einangrunarvistar er.

Gleðileg jól.

 

Þriðji punktur:

Líkt og nærri allir gæsluvarðhaldsfangar var Angelo Uijleman settur í einangrunarvist. Hér.

Hann er maður með þroskahömlun. Ekki ofbeldisfullur. Virðist hafa verið gabbaður til Íslands af glæpaklíku.

Hann var átta vikur í einangrun. Ekki ofbeldisfullur. Andlega fatlaður einstaklingur. (Og mér er reyndar sama þótt hann sé andlega fatlaður, hann er manneskja og manneskja sem beitir ekki aðrar manneskjur ofbeldi hefur ekkert að gera í einangrunarvist . . . sem ætti að vera síðasta úrræði!)

Gleðileg jól.

 

Fjórði punktur:

Það er víða pottur brotinn. Angelo ætti að fara heim um jólin. Og ef það er of seint, þá um áramótin. Það er engin ástæða til að geyma hann hér án fjölskyldu sinnar.

Beiting einangrunarvistar á Íslandi er greinilega kerfislægt vandamál. Framkoma ríkisins gagnvart Angelo er regla, ekki undantekning. Það lagast ekki þótt Angelo yrði sendur heim, það þarf að laga bæði.

Refsingar í fíkniefnamálum eru fáránlegar. Að smygla dópi til landsins þýðir hærri refsivist en maður fær fyrir að gera þjóðina gjaldþrota eða raðnauðga barni. 

En einhvers staðar verður að byrja.

Ég legg til að við byrjum á því að náða Angelo. (Ólafur Ragnar Grímsson, þú átt leik núna og hvort sem þú vilt enda forsetatíð þína með glæsibrag eða fara aftur í framboð þá er þetta algerlega málið). Sendum hann heim til mömmu sinnar.

Síðan þurfum við að eiga langt samtal sem þjóð um hvað við ætlumst til af dómskerfinu okkar. Persónulega get ég tekið undir með Björt Ólafsdóttur þingkonu fyrir BF sem vill leggja niður refsivist . . . en við erum að byrja á öfugum enda ef það á að gera það sérstaklega fyrir hvítflibbaglæpamenn. En það er ágætis byrjun að byrja á Angelo.

Sendum hann heim.

Það eru jú að koma jól.

Gleðileg Jól.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu