Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Alvöru fólk þarf sterka leiðtoga

Alvöru fólk þarf sterka leiðtoga

I would not lead you into the promised land if I could, because if I led you in, some one else would lead you out. You must use your heads as well as your hands, and get yourself out of your present condition,

sagði verkalýðsforinginn Eugene Debs í frægri ræðu sem hann hélt eitt sinn fyrir langa löngu.

Alla mannkynssöguna höfum við af manna kyni þurft að þola sterka leiðtoga. Nánast sama hvaða pólitísku skoðun við höfum, alltaf náum við að persónugera hana í einhverri hetju, eins og t.d. Eugene Debs.

Ég fæ alltaf ákveðið óbragð í munninn þegar ég þarf að nota orð eins og „ráðherra“ eða „þjóðhöfðingi.“ Þjóðhöfðingi er reyndar einstaklega lýsandi fyrir sögulegan uppruna nútíma-leiðtogablætis, höfðingi er ólýðræðislega kjörinn frekjudolla, toppur feðraveldisins að hverju sinni. (Jafnvel þegar viðkomandi er ekki með typpi)

Í dag erum við almennt orðin sammála um að góður leiðtogi sé sá sem hlusti á fólkið, góður leiðtogi sé sá sem geri aðra í kringum sig að leiðtogum. Og þó það sé vissulega framför, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að nærri 100% af vandamálum heimsins spretta frá leiðtogum, lélegum og meingölluðum leiðtogum.

Né breytir það þeirri staðreynd að lausnir koma frá fjöldahreyfingum. Góðar hugmyndir treysta á margar raddir, slæmar hugmyndir þurfa á sterkum leiðtoga að halda.

En aftur að höfðingjanum. Þjóðhöfðingjanum. Forseta Íslands.

Forseti okkar þrjú hundruð þúsund manna þjóðar er sextándi launahæsti þjóðhöfðingi í heimi

Í sautjánda sæti er forseti Suður-Kóreu, Park Geun Hye. Hún er þjóðhöfðingi 51,529,338 manna þjóðar, getur lýst yfir stríði fyrir hönd ríkisins, getur hafnað lögum (Park er með neitunarvald en ekki synjunarvald), og hún er yfir framkvæmdavaldinu á máta sem forseti Íslands er ekki.

Þetta er með öðrum orðum frekar krefjandi starf að öllu jöfnu. Og suður-kóreska stjórnarskráin kveður strangt á að forseti sitji einungis eitt fimm ára kjörtímabil, enda hefur þjóðin slæma reynslu af sterkum leiðtogum. 

Í þættinum ritstjórarnir á Hringbraut sátu tveir karlar um daginn sem flokka mætti til leiðtoga. Báðir voru fyrrum ritstjórar og fyrrum formenn stjórnmálaflokka. Talið barst að forsetakosningunum og voru báðir á því að það væri hættulegt ef krafa kæmi upp um leiðtoga eins og Donald Trump. Sterkan leiðtoga.

En á sama tíma hörmuðu þeir að ekki væri kominn alvöru frambjóðandi. „Alvöru fólk.“ Forsetaembættið væri hreinlega gjaldfellt fyrst að svo margir teldu sig geta sinnt því.

 

Forsetaembættið íslenska er reyndar dálítið skondið. Þetta er óarfgeng konungstign, en sá sem gegnir tigninni öðlast í krafti þjóðkjörsins umboðið sem búið var að taka úr höndum konungsvaldsins. Þetta er embætti Schrödingers, í senn það valdamesta og valdaminnsta í stjórnsýslunni. Klárlega með einhvers konar umboð, en umboð til nákvæmlega hvers?

Það veltur eiginlega á forsetanum.

En af hverju eru frambjóðendurnir sem nú eru komnir ekki alvöru? Þarf forseti Íslands að vera einhver glansmynd? 

Íslendingar hafa margoft kosið yfir sig sterka og freka karla. Framfarasinnað fólk talar stundum um sterkar konur. Og ef fólk vill ekki sterkan leiðtoga vill það klókann leiðtoga. Íslendingar elska að láta leika á sig, elska klækjabrögð. Það er ekki satt að þjóðin láti plata sig, allir þeir hægrimenn sem styðja Ólaf í dag vita vel að hann var einu sinni þjóðernissinnaður kommúnisti, en þeir dást að danssporinu sem felst í algerri kúvendingu á öllum prinsippum. 

En það er sem betur fer komin ný tíska sem sumir sterku leiðtogana hafa reynt að máta á sig. Við erum farin að sjá meira af einlæga, mjúka stjórnmálamanninum sem ítrekar að hann sé eiginlega ekki stjórnmálamaður. Bara maður sem fæst við stjórnmál.

Forsetinn er einhvers konar persónugerving þjóðarinnar, hann er fjallkonan. Og enginn verður forseti án þess að vera trúður fyrst. Trúðar eru mjög misskildir, þetta er háalvarleg starfsgrein og íslenski forsetinn þarf að kunna að tala um fegurð íslensku tungunnar, menningarinnar og eins og ÓRG orðaði það visku þjóðarinnar. Og svo sagði Vigfús spítalaprestur að börnin væru vitrasta fólkið, það var mjög forsetalegt.

 

Menn geta endalaust kvartað yfir því að ÓRG hafi smjaðrað fyrir útrásarvíkingunum, en þá gleyma menn því auðvitað að íslenskir forsetar smjaðra fyrir okkur öllum. Þegar ég hitti næsta forseta mun hann segjast hafa lesið bækurnar mínar og elski pistlana mína, og svo mun hann auðvitað sturta orðum yfir mig (ekki orðum heldur orðum, þetta er lélegur orðaleikur) af því það er það sem forsetar gera.

Besti aðilinn til að sinna þessu hlutverki er auðvitað þegar kominn fram á sjónarsviðið. Hún kann að fást við orð og orður mun betur en ég, enda með lengri starfsreynslu sem skáld en ég hef lifað. Ýtið á þennan hlekk til að kynnast viðkomandi nánar.

Hvað hina frambjóðendurna varðar þá hef ég bara eitt að segja. Þið eruð ekki sterkir leiðtogar, en það er líka bara allt í lagi. Þið eruð öll alvöru fólk, pínu hégómleg að sjálfsögðu, en þótt að sjálfskipuð elíta agnúist yfir framboði ykkar þá megið þið ekki gleyma að hafa bara gaman af þessu.

Ég myndi alveg gegna þessu embætti þó ekki væri nema fyrir launin, (og matinn og húsið og bílinn sem fylgir með).

Saga forsetaembættisins er í raun saga elítu sem smám saman missir tökin. Sjáið bara þróunina. Fyrst fengum við Sveinn Björnsson, landstjóra og landsföður kosinn inn af alþingi. Síðan kom Ásgeir frá vinstrikantinum með stuðningi sveitanna og framsóknar. Tengdasonur Ásgeirs leit svo á að hann væri kjörinn í embættið, enda fyrrum borgarstjóri og virðulegur mjög, en í þetta sinn stóð á innvígslunni og þess í stað var valinn ópólitískur minjavörður. Og svo koll af kolli. Vigdís var hluti af viðnámi við pólitískum frekjukörlum, en svo náði fyrrum fjármálaráðherra að smeygja sér inn.

ÓRG varð glamúr-forseti en það var bara í eðli embættisins að mótast að manninum. Og í eðli mannsins að mótast að tímanum.

Næsti forseti verður ekki bling-forseti því við lifum ekki á bling-tímum. Forsetar reyna yfirleitt að vera alþýðlegri en forveri sinn, ekkert er í raun forsetalegra en að segja: „sjáðu mig, ég er bara eðlilegur maður eins og þú.“

Ef einhverjir hafa hætt við framboð sitt af því andstæðingar þeirra voru ekki „alvöru fólk“ eins og einn ritstjórinn orðar það, þá voru það ekki miklir forsetar þar á ferð. Það væri virkileg synd ef einhver pólitíkus með kosningamaskínu færi inn og tæki embættið. Það væri afturför frá kosningunum þegar Kristján Eldjárn nappaði Bessastöðum frá Gunnari Thoroddsen. En í núverandi pólitíska loftslagi verður það að teljast ólíklegt.

Íslenska þjóðin mun velja einhvern sem kann í það minnsta að virðast einlæg/ur og viðkomandi verður að sjálfsögðu að vera duglegur að hrósa fólki, náttúru, börnum, tungumáli og lyfta fólki með sér á plan leiðtogans.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu