Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Óvinsælu mannréttindin

Óvinsælu mannréttindin

Fréttir berast nú af því áliti samtakanna Human Rights Watch að fíkniefnaneysla sé mannréttindi.

Eða svo segja fjölmiðlar allavega í sínum hrásuðuútgáfum af álitinu. Raunveruleikinn er kannski aðeins flóknari.

Álitið snýst fyrst og fremst um að rekja hvernig bann- og refsistefna í þessum málum leiðir til margvíslegra mannréttindabrota, bæði beint og óbeint. Í sumum ríkjum er dauðarefsing við fíkniefnabrotum. Annars staðar sæta neytendur fíkniefna harðræði af hálfu lögreglu og annars yfirvalds. Í Bandaríkjunum og víðar verða minnihlutahópar mun frekar fyrir barðinu á stefnunni en aðrir. Bannstefna ýtir undir völd glæpasamtaka sem níðast á fólki. Þannig er áfram rakið.

Svo er vissulega komið inn á spurninguna um hvernig fíkniefnaneysla sem slík tengist mannréttindum. Ekki er sagt beint út að hún teljist til mannréttinda; orðalagið er að bannstefna leiði óhjákvæmilega til skerðingar réttinda á borð við sjálfsákvörðunarrétt og rétt til friðhelgi einkalífs. Í minni þýðingu segir nánar til tekið að:

Sú ákvörðun að nota fíkniefni snýst um persónulegt val sem varið er af réttinum til einkalífs, sem er hornsteinn virðingar fyrir sjálfsákvörðunarrétti og mannlegrar reisnar. Skerðingar á sjálfsákvörðunarrétti og réttinum til einkalífs eru eingöngu réttlætanlegar ef þær standast kröfur um lögmætan tilgang, meðalhóf, nauðsyn og jafnræði. Human Rights Watch telur að þessi viðmið standist sjaldan eða aldrei þegar kemur að glæpavæðingu fíkniefnanotkunar einstaklinga eða vörslu fíkniefna til einkanota.

Á einföldu máli þýðir þetta að við höfum öll ákveðin réttindi sem ríkið má ekki skerða nema það þjóni ríkum tilgangi og hagsmunum sem ekki er hægt að ná fram með öðrum leiðum. Þetta er alveg þveröfugt við þá tilteknu og vanhugsuðu venju allt of margra að ákveðið fólk hafi sökum ákveðnar hegðunar í raun kallað yfir sig ákveðna refsingu.

„Veit fólk sem neytir fíkniefna ekki fullvel að það er ólöglegt og refsivert? Er þetta ekki slæmt? Þarf ekki að stöðva þetta? Þarf ekki að vernda börnin fyrir þessu?

Þannig hugsa og tala margir. Það krefst róttækrar (í þeim skilningi að hugsa út frá grunnforsendum) nálgunar að snúa þessu við og hugsa málið fyrst og fremst út frá ófrávíkjanlegum réttindum einstaklingsins. Þau réttindi verða ekki skert nema mikið liggi við og það þjóni einhverjum tilgangi. Tilgangslaus skerðing þeirra er hins vegar mannréttindabrot. Afar margt bendir til að refsistefna í fíkniefnamálum þjóni ekki þeim tilgangi sem henni er ætlað. Nema auðvitað að tilgangurinn sé fyrst og fremst sá að gleðja fólk sem finnst gott á fíkniefnaneytendur að vera refsað. Sú Þórðargleði hefur þó ekkert með mannréttindi að gera heldur er hún þvert á þau.

Vandamálið er að fólk er oft á tíðum leiðinlega gjarnt á að varpa mannréttindaþankagangi fyrir róða þegar mannréttindabrotin beinast alveg örugglega ekki að því sjálfu. Svo lengi sem það er einhver hópur fólks sem er öðruvísi en við, siðferðilega á einhverju lægra plani, öðruvísi á litinn, og svo framvegis - þá er bara í góðu lagi að það búi við skert réttindi. Þannig virkum því miður við mannfólkið og fordómar okkar. Við erum með réttindi, þau eru réttlaus. Það þarf að berjast meðvitað gegn þessari tilhneigingu. Ávallt og ævinlega. Til þess er mannréttindahugtakið. Ef öllum þætti þau sjálfsögð fyrir alla væri hugtakið ekki einu sinni til. Hugtakið er nánast eingöngu notað til að lýsa skorti; að mannréttindi séu skert. Sjaldnar tölum við um hvað það sé nú gaman hvað við búum við mikil mannréttindi, þau auðvitað sé hollt og gott að reyna að gera það reglulega til að minna okkur á hversu mikið hefur áunnist.

Það má vera að einhverjum finnist nóg komið í mannréttindabaráttunni þegar rætt er um mannréttindi í sambandi við fíkniefnaneyslu. Að búið sé að teygja hugtakið of langt og að það sé merkingarlaust. Ég hugsa hins vegar þveröfugt - það er nákvæmlega á jaðrinum sem mannréttindabarátta hefur alltaf verið háð. Ef hún er algjörlega vinsæl og ruggar engum bátum er hún í raun þegar fyrir löngu unnin.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu