Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Ósýnilega hækjan

Ósýnilega hækjan

Frakkinn Frédéric Bastiat skrifaði árið 1850 ritgerð sem nefnist Ce qu'on voit et ce qu'on ne voit pas, eða á íslensku Það sem sést og það sem sést ekki. Hún fjallar um búðareiganda sem verður fyrir því óláni að sonur hans brýtur glugga á búðinni en er hughreystur með þeim orðum að svona gangi jú tilveran fyrir sig og að nú fái gluggagerðarmaður verkefni við að gera við gluggann. Bastiat vill með þessu dæmi varpa ljósi á þá algengu meinloku að horfa einungis í ávinningin af ákveðnum fjárfestingum en ekki í þann fórnarkostnað sem felst í að hægt hefði verið að fjárfesta í einhverju öðru og betra. Það sem sést er þau efnahagsumsvif sem felast í því að búðareigandinn borgar gluggagerðarmanni fyrir að gera við gluggann - en það sem sést ekki er þau töpuðu umsvif sem búðareigandinn hefði getað farið út í með sömu peningum í staðinn ef glugginn hefði ekki verið brotinn. Fleiri dæmi af svipuðum toga um það sem sést og það sem sést ekki eru síðan rekin þó búðarglugginn brotni sé þekktasta dæmið og ritgerðin oft kennd við hann.

Röksemdafærsla Bastiats lifir enn góðu lífi og er oft þörf áminning þegar til að mynda ávinningur af fjárfestingum er metinn. Peningar sem eru settir í eitt verkefni eru peningar sem fara ekki í annað verkefni sem hefði skilað meiru, en einmitt af því að betra verkefnið er ekki framkvæmt sést það ekki og hverfur í skuggann af því sem sést. Þannig er auðvelt að benda á flotta byggingu sem dæmi um vel lukkaða framkvæmd og fjárfestingu, af því hún bætir einhverju við það sem fyrir var og er öllum sýnileg. Önnur not fyrir sömu peninga sem hefðu verið betri eru hins vegar ekki sýnileg og þess vegna getur verið erfitt að sannfæra fólk um ágæti þeirra. Bastiat minnir okkur hins vegar á að gleyma aldrei því sem sést ekki.

Þessi áminning á við á fleiri sviðum.

Mér finnst til dæmis í umræðum um kynjakvóta að hið óséða gleymist oft. Mynstrið er fyrirsjáanlegt. Einhver bendir á kynjahalla einhvers staðar og stingur upp á kynjakvótum til að jafna þann halla. Einhver annar stígur þá fram og finnst hugmyndin niðurlægjandi fyrir konur af því þær eigi ekki að þurfa á 'hækjum' að halda til að komast áfram. Gott og vel.

Það sem sést: Handstýrður og einfaldur kynjakvóti til að jafna kynjahlutföll. Sýnilega hækjan.

Það sem sést ekki: Innbyggður og flókinn kynjakvóti sem skekkir kynjahlutföllin til að byrja með. Ósýnilega hækjan.

Ósýnilega hækjan er það sem gjarnan er nefnt forréttindi í jafnréttisumræðunni. Kerfislæg og ómálefnaleg skekkja í samfélaginu sem færir einum hópi sjálfkrafa hin og þessi fríðindi sem aðrir hópar þurfa að hafa meira fyrir að fá. En einmitt vegna þess að hækjan er svo kerfislæg og sjálfvirk vill hún gleymast. Það þarf að hafa fyrir því að velta henni fyrir sér og greina hana til að hún verði sýnileg. Og hún er vissulega til staðar; rannsóknir sýna að karlar hafa forskot á konur á ýmsum sviðum eingöngu út á kyn sitt. Eitt nýlegt dæmi er þegar rithöfundurinn Catherine Nichols gerði tilraun með að senda út handrit að skáldsögu undir sínu nafni annars vegar og karlkyns nafni hins vegar. Niðurstöðurnar voru sláandi; sem karlmanni var henni mun betur tekið sem rithöfundi. Bara með því að skipta um kyn fékk hún mjög öfluga hækju sem hverjum sem er myndi þykja mjög niðurlægjandi - ef hann bara sæi hana og áttaði sig á henni.

Rannsóknir sýna fram á tilvist svipaðra hækja sem fólk fær fyrir að vera hvítt, gagnkynhneigt, og ýmislegt fleira sem fólk velur sér ekki sjálft og hefur ekkert með hæfni þess að gera en gefur samt sem áður forskot í tilverunni. Í Bandaríkjunum er til dæmis mikið tekist á um áhrif kynþátta á samfélagið - og rifist um hvort það sé niðurlægjandi fyrir svart fólk að taka við hinum og þessum hækjum frá hinu opinbera. Gjarnan er því afneitað að einhver vandamál séu til staðar yfir höfuð, jafnvel þó að það blasi við að það halli á svart fólk að ýmsu leyti í bandarísku samfélagi. Þá er jafnvel farið út í að kenna því sjálfu um sína stöðu og því alfarið afneitað að viðhorf samfélagsins (oft ómeðvituð) til svarts fólks gætu haft eitthvað með vandamálin að gera. Samanburður við fortíð þar sem misréttið var mun sýnilegra er líka algengur, til að halda því fram að nú sé jafnrétti náð og ekkert til að kvarta yfir. Mynstrin í þessu eru alltaf hin sömu og það er auðvelt að detta niður í þau af því að skekkjurnar eru svo lúmskar og ósýnilegar.

Nú er ég ekki endilega að tala fyrir kvótum sem réttustu leiðinni til að takast á við ósýnilegu hækjunar. Þær er það inngrónar og lúmskar að þær verða aldrei almennilega lagaðar nema með miklum samfélagslegum breytingum, sem vissulega hafa átt sér stað nú þegar og eiga sér ennþá stað (og þurfa að halda áfram að eiga sér stað). Mín eigin pólitísku gildi snúast mun frekar um að rækta jarðveg fyrir breytingar en að stýra þeim að ofan, þó slíkt gæti alveg verið réttlætanlegt til að takast á við mjög öfgafullar skekkjur. Ég held líka að þeir sem vilja kvóta séu almennt alls ekkert á móti öðrum og víðtækari leiðum til breytinga samhliða þeim. Leiðirnar eru margar. En það er þó lágmark að viðurkenna að ósýnilegu hækjurnar eru þarna og að breytinga er þörf, þó maður sé ekki endilega samþykkur einhverjum tilteknum leiðum sem stungið er upp á til að koma breytingunum á.

Að segja að allir ættu bara að vera fullfærir um að komast áfram á eigin verðleikum er gott og blessað - en þegar ríkjandi veruleiki er sá að ákveðnu fólki er sannarlega gert erfitt fyrir að njóta sín til fulls vegna samfélagslegrar skekkju duga slík orð afskaplega skammt í besta falli og eru í versta falli tilburðir til að gera lítið úr því að fólk dirfist að kvarta yfir því óréttlæti sem það finnur fyrir. Ef fólk er á móti hækjum þá hlýtur það að vera á móti ósýnilegum hækjum jafnt sem sýnilegum. Svo einfalt er það nú.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu