Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Vinnukona í silkisokkum og sement

Fyrir hartnær öld var Háskóli Íslands rétt kominn á táningsaldur og eins og Íslendinga er siður stóðu yfir mikil átök um hlutverk hans og tilgang. Raunar var allt menntakerfið undir í þessum deilum. Menn greindi ekki síður á um hlutverk menntaskólans sem undirbúning fyrir háskólanám. Á mjög einfaldaðan hátt má segja að þá, eins og nú, hafi tekist á tvær fylkingar – íhaldsmenn og róttæklingar. Íhaldsmenn töldu menntunina í landinu standa á brauðfótum eins og glögglega mætti sjá á ört minnkandi hlut latínu en róttæklingar voru á öndverðum meiði. Þórbergur Þórðarson skrifaði: „Íslenzkir mentamenn hafa aldrei verið jafn-lærðir, vitrir og vel innrættir em þeir eru þennan dag í dag.“

Það er auðvelt að vera vitur eftirá. Það er samt fullkomlega ljóst að í málefnum menntunar voru hugmyndir manna eins og Þórbergs lífvænlegri en sumra andstæðinga hans. Menntakerfi þjóðanna tóku stakkaskiptum á tuttugustu öld, það var ekki annað í boði. Enda var ekki lengur hlutverk þeirra að undirbúa einsleita stétt karla fyrir fáein embætti. Og þótt nokkur eftirsjá sé að latínunni þá verður því ekki neitað að hún gegndi miður þokkalegu hlutverki við að velja úr þjóðarsúpunni þá sem töldust fallnir til náms – og hina sem skyldu strita. Ég hygg það sé rétt hjá Þórbergi þegar hann segir: „Þegar latínumoldviðrinu slotar á Vesturlöndum, rofar fyrst til á himni þekkingarinnar. Latínan gat af sér sjálfsþótta og kyrstöðu í andlegum efnum og hélt huganum föstum við hégómlega hluti.“

Einn erkióvina Þórbergs var menntaskóladúxinn og ráðherrann Jón Þorlákson. Það fór í taugarnar á Jóni að hinum eldheita villutrúarmanni væri borgað úr ríkissjóði fyrir að safna sjaldgæfum orðum af munni sveitafólks. Raunar gerði Jón það að sérstöku baráttumáli sínu að stöðva fjárstyrk til Þórbergs til þess arna. Hann sá engan tilgang með slíkri söfnun enda væru flest orðin hvorteðer bæði klúr og ljót.

Jón uppskar mikinn reiðipistil frá Þórbergi. Þar færði Þórbergur rök fyrir því að Jón hefði hvorki vit né sæmilega heilbrigðar skoðanir á málfræði og kallaði umfjöllun hans um orðasöfnunina „helbert illgirnisrugl lítils karls.“ Þórbergur benti á að Jón stæði fyrir einstaklega lágfleyga hugmynd um tilgang lífs og menntunar. Jón teldi að barátta mannsins hnitaðist um að verja sig gegn náttúruöflunum með því að steypa utan um sig vatnsheld hús. Þórbergur sjálfur taldi að menntun hefði viðameiri og æðri tilgang en svo að hún teldist óþörf þegar einföldum grundvallarþörfum væri mætt. Raunar grunaði Þórberg að stétt hinna fínni borgara hefði afar takmarkaðan áhuga á því að koma ófínni börnum til mennta. „Ef vinnukona dirfist að ganga í silkisokkum eins og húsmóðir hennar þá er dómsdagur í nánd.“.

Eftir á að hyggja stafaði auðvitað slagur Sjálfstæðismanna við Þórberg minnst af mismunandi skoðunum á málfræði. Hið pólitíska ofstæki réði för. Þórbergur hvorki naut né leyfði íhaldsmönnum að njóta sannmælis. Á Íslandi hefur gengið illa að losna við þá hugmynd að það sé merki um árangur að komast í þá stöðu að geta beitt opinberum völdum gegn óvinum sínum. Hitt er ljóst að ekkert samfélag hafði fyrir hundrað árum efni á því að leyfa íhaldsmönnum að ráða för, hvorki í málfræði né menntun. Til þess breyttist einfaldlega of marg of hratt. Bæði tungumálið og menntakerfið þurftu sárlega á því að halda að fá að þróast með. 

Maður skyldi af þessu ætla að nú, tæpri öld seinna, væri öllum fullkomlega ljóst að stórkostlegar breytingar séu framundan á báðum þessum sviðum. Heimurinn er að ganga gegnum tæknibyltingu sem hugsanlega er óviðjafnanleg í mannkynssögunni. Við þurfum að gera íslensku og Ísland gildandi í splunkunýjum heimi.

Það er samt ekki svo. Menntakerfið er næstum fullkomlega vanbúið til að mæta hinum stóru ákorunum sem eru framundan. Menntakerfið og afleidd kerfi (t.d. heilbrigðis- og fjármálakerfi) er enganveginn í stakk búið til að mæta morgundeginum. 

Nú er nýkomin út skýrsla um menntakerfi OECD-ríkjanna. Það er skuggaleg lesning. Raunar alveg ömurleg. Það skiptir engu máli í hvaða samhengi Íslandi er flétt upp. Við stöndumst engan samanburð við önnur ríki af svipaðri gerð. Við er ríkt samfélag sem heldur úti menntakerfi miklu fátækara ríkis. Með einni áhugaverðri undantekningu þó.

Menntakerfi landsins kostar í heildina svipað og meðalmenntakerfi innan OECD. Fyrst og fremst vegna þess að það er tiltölulega dýrt að mennta börn fram til 16 ára aldurs. Þegar menntaskólaaldri er náð hrynur fjárfestingin. Framhalds- og háskólanám á Íslandi er rekið fyrir lægri framlög en tíðkast hjá öðrum þjóðum. Háskólanám á Íslandi er svo illa fjármagnað að við föllum í flokk með örfáum þjóðum eins og Tyrklandi, Kolumbíu og Síle. Á sama tíma þykjumst við ætla að eiga einn af hundrað bestu háskólum í heimi.

Nýlega var ákveðið að fresta öllum aðgerðum til að bæta úr þessu vegna þess að það er ekki nægur pólitískur þrýstingur. Það er enginn Kári Stefánsson að pönkast persónulega í ráðherrum vegna menntakerfisins. Þess vegna má það bíða.

Raunin er sú að það má ekki bíða. Menntakerfið á Íslandi stendur á brauðfótum. Næstu kynslóðir fara út í heim sem er margfalt flóknari en sá heimur sem við þurftum að fóta okkur í. Það gengur ekki lengur að reka hér menntakerfi sem virðist miðast við það að framleiða annarsvegar einfalda embættismenn og hinsvegar vinnuafl.

Stjórnmála-, embættismenn og hagsmunaaðilar tengdir atvinnulífinu hafa mikið gert úr því að skólakerfið á Íslandi sé þrátt fyrir þessa skekkju dýrt. Leik- og grunnskólinn kosti svo mikið að hér þurfi fyrst og fremst að flytja til peninga. Það verði að hagræða í leik- og grunnskólum til að losa um fjármagn fyrir hin skólastigin. Það má gera með tvennum hætti: Með því að auka kostnað foreldra, t.d. með einkaskólakerfi, eða með því að fækka verulega starfsfólki. 

Hið síðarnefnda er leiðarljósið í kjaraviðræðum sveitarfélaga og grunnskólanna. Sveitarfélögin ætla sér að fækka starfsfólki verulega til að ná fram hagræðingu. Ef því markmiði verður ekki náð við samningaborðið verður það gert með lagasetningu.

Eitt hefur sárlega vantað. Umræðuna. Hér á landi er sáralítil umræða um þessi mál. Stefnumarkendur þurfa ekki að standa skil á framtíðarsýn sinni og forsendum. Menntamálaráðherra kemst upp með að ferðast um landið með íhaldsáróður sinn og einfaldanir og hvergi mætir honum gagnrýni eða fyrirstaða. 

Upplýstri umræðu er raunar gert erfitt um vik. Hún grundvallast á upplýsingum. Þess er haganlega gætt að upplýsingar sem stangast á við stefnumörkun komist ekki upp á yfirborðið. Í nýjustu skýrslu OECD um menntakerfið er Íslandi oftar en ekki sleppt í upptalningum vegna þess að engin gögn fengust frá yfirvöldum hér.

Þá hefur aldrei fengist upp á yfirborðið greining á hinum háa kostnaði við skólann frá 2-16 ára. Hvers vegna rekum við dýran leik- og grunnskóla? Stafar það kannski af því að hér á landi eru laun svo lág að börn þurfa lengri skólavist til að foreldrarnir nái endum saman? Hvaða máli skiptir dreifbýlið? Og hve mikið af peningum sem fara til skólakerfisins enda í steinsteypu? 

Hafandi setið í nefndum og ráðum hjá fleiri en einum skóla kæmi mér ekkert á óvart þótt skuggalega hátt hlutfall þeirra peninga sem fara til menntamála í þessu landi endi í vasanum á verktökum.

Sement hefur enda alltaf staðið nærri hjarta íhaldsmannsins.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni