Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Alltaf einn á vaktinni

Það er rétt hjá Karli Th. Birgissyni að sagfnfræðingar nútímans þurfa að uppfæra vinnubrögð sín. Sagan „gerist“ að verulegu leyti í stafrænum – og hverfulum – heimi. Þótt aðeins séu fjögur ár síðan ÓRG var kosinn forseti síðast er megnið af heimildunum um kosningabaráttuna horfið fyrir löngu. Það lúrir einhversstaðar djúpt í afkimum netsins – og flest mun líklega aldrei eiga afturkvæmt.

Alltaf einn á vaktinni á líklega að vísa til hugmynda ÓRG um sjálfan sig og forsetaembættið. Það gæti samt alveg eins vísað til Karls Th. sem vofir yfir kosningabaráttunni og punktar hjá sér alla mögulega og ómögulega hluti, allt frá safaríku innanbúðaslúðri til bragðgæða kleinanna í kosningamiðstöðvunum.  

Þetta er á köflum mjög fyndin bók og skemmtileg. Ekkert fer á milli mála að Karl er skoðanaríkur maður enda fer það svo að á endanum hafa flestar lykilpersónur bókarinnar smátt og smátt skrifast fullkomlega inn í það hlutverk sem maður hafði á tilfinningunni að Karl hefði ætlað þeim allan tímann. Bókin inniheldur ekki að litlu leyti bergmál atburðanna í huga höfundarins. 

Sú mynd sem dregin er upp í bókinni lýsir efnilegu forsetaframboði sem fer út um þúfur vegna óskipulags og innri meinsemda – en þó fyrst og fremst vegna skemmdarverka andstæðinganna. 

Sé bókin lesin núna koma í ljós svo stórkostlegar hliðstæður að undrun sætir. Nákvæmlega sömu fangbrögðum er beitt. Við höfum draumaframbjóðanda RÚV sem sumum finnst að hefði átt að vera í útsendingarbindindi mánuðina fyrir kosningabaráttuna, gamla pólitíska klækjarefinn sem notar hálfsannleik og lygar til saga undirstöðurnar undan aðalkeppinaut sínum. Við höfum paranojuna um ESB. Við höfum reipitog bjart- og bölsýni.

„Enginn styður Ólaf af gleði, frekar einhverjum ótta eða vörn, virðist vera. Eins og hann eigi að passa okkur fyrir vonzku heimsins.“

Svona kemst Karl að orði eftir að hafa farið í hina köldu og húmorslausu kosningamiðstöð Ólafs og Dorritar við Laugarveg og reynt að lesa hug hins ískalda forseta. 

Við lesturinn rann upp fyrir mér að víst er forsetinn samingingartákn. Að minnsta kosti eftir hrun. Forsetakosningarnar 2012 og 2016 snúast um það hvort einkennistilfinning þjóðarinnar er bjart- eða bölsýni; gleði eða ótti. 

Bjartsýnin kringum Þóru stóð á brauðfótum. Guðni virðist standa sterkari að vígi núna. 

Mér finnst Karl gera kosningabaráttunni 2012, sem ég fylgdist afar vel með, mjög góð skil – að öllu leyti nema einu. Alveg eins og fjarlægð er milli lesandans og ÓRG er líka fjarlægð milli lesandans og þjóðarinnar. Af lestri bókarinnar má ráða að þjóðin hafi meira og minna látið plata sig upp úr skónum þegar hún flykkti sér á bak við gamla forsetann sinn að endingu. 

Málið er ekki alveg svona einfalt. Vissulega tætti forsetinn í sig ímyndina sem reynt var að skapa kringum Þóru. Og eflaust dugði það einhverjum. Við megum samt ekki gleyma því að sömu vikur og mánuði hafði skapast fullkominn glundroði í stjórnmálalífi landsins. Alþingi var botnfrosið þótt yfir höfði þess væri snjóhengja risavaxinna loforða. 

Baráttan gat hvenær sem er færst til Bessastaða. 

Það skiptir ekki litlu máli í þessu samhengi. 

Á endanum er ég alls ekki viss um að framboð Þóru hafi fjarað út vegna frétta Eiríks Jónssonar af lúbörðum ömmum, ESB-órum Þóru eða skipulagsleysis í herráðinu. 

Ólafur var kosinn vegna þess að þess að nægilega stór hluti þjóðarinnar óttaðist Alþingi (og hafði kannski ærna ástæðu til).

Þessi ótti er ekki fyrirferðamikill í bókinni, þótt Karl smellhitti boltann aí sálgreiningu sinni þegar hann tekur í spaðann á forsetanum í kosningamiðstöð hinna köldu kleina.

Þetta útskýrir líka hvers vegna nákvæmlega sama herkænska Davíðs Oddssonar hefur ekki sömu áhrif. Þjóðin er ekki eins móttækileg, ekki eins óttaslegin og hrædd. 

Heilt yfir er Alltaf einn á vaktinni verðmætur minnisvarði um umbrotatíma í sögu þjóðar. Hrunið, mótmælin, átökin, þjóðfundurinn, stjórnarskráin, málþófið, hótanirnar og forsetaslagurinn – allt eru þetta umbrot þjóðar sem er að reyna að endurskapa sig. Hefur lent á botninum og er að reyna að rísa á lappirnar aftur. Við erum þjóðin sem er að rembast við að reyna að vera edrú. 

Við erum öll Bubbi Morthens sem situr og raular vísur innan um vondar kleinur í kosningamiðstöð ÓRG en tökum okkur pásu og segjumst í tveggja manna tali hafa heyrt að Þóra sé svaka fín.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni