Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Uppsagnarbréf

Tuttugasta og fyrsta öldin markar tímamót að því leyti að hefðbundið bóknám mun líklega hverfa í eiginlegri mynd. Það er enn óljóst hvað kemur í staðinn. Ég er sannfærður um að stærsta sóknarfæri okkar til nýrrar aldar í menntun sé í gegnum verk- og tækninám. Þar skipta framhaldsskólakennarar lykilhlutverki.

Síðustu misseri hef ég setið í skólanefnd Borgarholtsskóla. Ég hef nú ákveðið að segja mig úr nefndinni og gefa ekki kost á mér framar. Tilefnið er ráðning nýs skólameistara.

Borgarholtsskóli er að mestu leyti afar vel rekinn skóli. Við skólann starfar líka verulega gott fagfólk. Skólinn er nú, eins og aðrir framhaldsskólar, að ganga gegnum verulegar breytingar í kjölfar þess að menntayfirvöld hafa gerbreytt rekstrarskilyrðum framhaldsskóla. Mikilsverðara er þó að kennarar og starfsfólk skólans hafa á virkan hátt hafið þá skólaþróun sem ekki verður umflúin til að kröfum nútímans um 21. aldar menntun verði mætt.

Bryndís Sigurjónsdóttir skólameistari lét nýlega af störfum fyrir aldurs sakir. Skólanefnd fékk það hlutverk að taka þátt í mati á umsækjendum. Þegar að því kom bárust nefndinni frekar nákvæm fyrirmæli þar sem meðal annars var mælst til þess að nefndin léti það vera að skoða umsækjendur of vel. Samt sem áður átti nefndin að leggja mat á hæfi umsækjenda. Það fór svo að nefndin hafði ekkert í höndunum við matið annað en innsendar umsóknir.

Hver og einn nefndarmaður lagði sjálfstætt mat á umsóknirnar. Það vildi svo til að eftir þá vinnu komust allir að einni og sömu niðurstöðunni – og skólanefnd skilaði inn því áliti sínu að miðað við þau gögn sem fyrir lægju væri einn umsækjandi hæfastur til að gegna stöðunni. Meira væri ekki hægt að segja nema fara í nákvæmari athugun á umsækjendum, t.d. með viðtölum – en það vildi ráðuneytið ekki að við gerðum.

Mín persónulega niðurstaða var sú að mæla með umsækjandanum á þeim forsendum að í umsókn hans fælist augljós skilningur á sérkennum skólans, skýr framtíðarsýn, góð menntun og næg þekking á innviðum skólans til að fara með hann í gegnum þær breytingar sem nú standa yfir og eru verulegar. Einnig spilaði það inn í að mínu mati að margir sterkir umsækjendur voru á miðjum aldri og að þess væri líklega ekki sérlega langt að bíða að staðan yrði auglýst aftur og að þá væri mikilvægt að þær breytingar sem nú standa yfir hefðu farið fram og orðið til heilla.

Þegar matsferlið hófst fór mér að berast til eyrna úr hinum ýmsu áttum að álit skólanefndar myndi ekki skipta neinu máli. Það væri umtalað að staðan væri eyrnamerkt Ársæli Guðmundssyni sem væri innanbúðarmaður hjá Illuga Gunnarssyni og lykilmaður í hvítbókarvinnu hans. Ársæl vantaði nú skólameistarastöðu eftir að hafa skilað af sér Iðnskólanum í Hafnarfirði sem gefinn var Tækniskólanum. 

Ég þekki ekkert til Ársæls. Minnir reyndar að ég hafi heyrt hann einu sinni tala í útvarpið um skólamál og mælast vel. Getur samt verið að það hafi verið einhver annar.

Nú getur vel verið að Ársæll hafi verið alveg skínandi flottur í þeim viðtölum sem fram fóru. Og vissulega hélt Illugi sig til hliðar og fól Ólöfu Nordal að skipa nýjan skólameistara. Það reyndar dróst stórkostlega og átti að vera löngu búið þegar niðurstaðan loks kom: Ólöf valdi Ársæl. Alveg eins og sagt hafði verið að hún myndi gera. Enginn skólanefndarmaður taldi Ársæl framúrskarandi umsækjanda.

Nú er ég ekki trúmaður á samsæriskenningar. En ég sit í skólanefnd meðal annars út á dómgreind mína, sem ég tel að sé í meðallagi góð. Ég fullyrði þess vegna að það sé nánast útilokað að Ársæll hafi verið valinn af faglegum forsendum. Umsókn hans benti ekki til þess að hann hefði mikinn skilning á forgangsmálum skólans eða þekkingu á innviðum hans. Þvert á móti var umsóknin að mínu mati einkennilega neikvæð og til þess fallin að gera lítið úr skólanum og starfsemi hans. Öll áhersla var á hagræðingu, skilvirkni og að laða að skólanum betri nemendur.  

Nú er það svo að Borgarholtsskóli er grundvallarstærð í framhaldsskólakerfinu okkar. Við skólann hófu t.d. á sínum tíma störf kennarar sem komu úr Réttarholtsskóla og höfðu gert það að sérgrein sinni að styðja við nemendur sem höfðu hrasað á menntaveginum. Við skólann er rekið frábært starf, m.a. á félagsliða- og sjúkraliðabrú, þar sem fólki er beint inn á menntaveginn þrátt fyrir löng, og á tímum lamandi, námshlé. Það er ekki veikleiki Borgarholtsskóla að þangað sæki í var fólk  sem óar við námi. Þvert á móti er það styrkleiki hans og aðalsmerki. Við skólann starfa hlið við hlið nemendur sem eru afreksfólk í margvíslegum greinum og nemendur sem erfitt eiga uppdráttar. Það gerir skólanum gott. Það gerir Íslandi gott.

Ég hef enga trú á þeirri sýn á skólann sem nýr skólameistari lýsti í umsókn sinni. Ég hef heldur enga trú á þeim ráðherra sem var ginnkeyptur fyrir þeirri sýn. Ég skil raunar ekki að það geti verið fagleg niðurstaða að þessi sýn hafi verið sýn annarra umsækjenda fremri. Þvert á móti voru fleiri en einn umsækjandi að mínu mati augljóslega frambærilegri. Ég held að Ársæll Guðmundsson hafi verið ráðinn af pólitískum ástæðum. Ég treysti ekki því ferli sem fram fór. Ég held að Ólöf Nordal hafi látið nota sig til að skila þeirri niðurstöðu sem fjöldi fólks var búinn að spá. 

Ég held að málið allt angi af spillingu.

Og ég legg ekki nafn mitt við svoleiðis. Þess vegna hef ég ákveðið að segja mig frá skólanefndinni. Mér er það óljúft. Borgarholtsskóli er góður skóli með góðu starfsfólki og góðum nemendum. Ég hefði gjarnan viljað vera nýjum skólameistara innan handar eins og þeim síðasta. 

Stundum þarf maður samt að fylgja sannfæringu sinni.Þótt það sé sárt. Ég vona bara að eftirmaður minn í nefndinni verði ekki sami leppur og Ólöf Nordal reyndist vera.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni