Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Lýðræðislexían af Brexit

Það verður eiginlega ekki horft fram hjá því að ein meginorsök þess að Bretar ætla út úr Evrópusambandinu er að þjóðin hyggst þvo hendur sínar af þeim risavöxnu verkefnum sem sambandið stendur frammi fyrir. Fleira kemur þó til.

Lýðræði er nánast heilagt – að minnsta kosti í orði. Og helgimyndir hafa tilhneigingu til að grotna niður. Kosningarnar í Bretlandi sýna að lýðræðið í okkar heimshluta liggur undir skemmdum. Nokkuð sem löngu ætti að vera orðið ljóst.

Hvað sem öðru líður verður Brexit vatn á myllu þjóðernissinnarða öfgaafla. Síðustu misseri hafa öfgamenn komist til ótrúlegra valda hér og þar í okkar heimshluta. Hægri öfgastefna er orðin óþægilega lík sögulegum dæmum. Þetta er áhugavert í ljósi þess að í dag er það ekki víxlverkun öfga sem nærir þjóðernissinnana. Fyrir hundrað árum óðu uppi allrahanda vinstri róttæklingar og baráttan var bæði heiftúðug og blóðug. Vinstri stefna dagsins í dag er borgaralega settleg – og rétthugsandi.

Eitthvað nærast hægri öfgamennirnir þó á þessu síðarnefnda. Borgaralega rétthugsandi fólk hefur síðustu ár og áratugi verið duglegt að skilgreina bæði orð og hugsanir utan sviðs þess leyfilega. Í samfélögum okkar hefur verið á stundum kæfandi rétthugsun. Í þessu andrúmslofti nærast öfgarnar – í trú á að antipat og andúð á skoðunum þeirra sé ekki til marks um öfga heldur göfgi.

Þöggunin hefur orðið öfgafólkinu að þeirri fjaðurdýnu sem andstæðar öfgar voru áður.

Nú er auðvitað fráleitt að bera saman velsæmi og rétthugsun annarsvegar og þjóðernissinnaðan rasistarembing hinsvegar. Þetta er engan veginn jafngilt. Raunar grunar mig að rétthugsunin sé fyrst og fremst knúin áfram af miskilningi á því hvað best sé að gera til að koma í veg fyrir að meinsemd fái þrifist í samfélögum okkar. Öfgar eru samfélagsmygla og það er langbest að leyfa vindinum að komast að henni í stað þess að loka hana inni í skúmaskoti.

Brexit-kosningabaráttan sunnan Skotlands er enn eitt dæmið um það að hin samfélagslega umræða er stórlöskuð. Það er meinsemd í flestum vestrænum samfélögum að þau eru að verða meira og minna ófær um að taka mál til umræðu. Skoðanamyndun í slíku samfélagi er stórgölluð. Kosningar jafnvel hættulegar. Ef horft er til forsetakosninga á Íslandi og í BNA og kosninganna í Bretlandi þá sést að það er í raun og veru hætt að skipta máli hvað er sagt. Það skiptir aðeins máli hver segir það og hvernig það er sagt. Það er ekki (lengur) hægt að treysta á almennar reglur röklegrar hugsunar. Trump má verða tví- og þrísaga um alla hluti – það skiptir engu máli. Umræður mega fara að snúast um það hvaða frambjóðandi sé með stærsta typpið án þess að fólki ofbjóði. Á sama hátt gleður Davíð Oddsson viðhlæjendur sína óskaplega með því að segja að hlutabréfin í Guðna séu í frjálsu falli og enginn tekur það nærri sér að Davíð hefur sjálfur tapað verulega mikið stærra hluta síns fylgis en Guðni. 

Við Íslendingar stöndum á mörkum. Fram er kominn valkostur, Píratar, sem eru fyllilega einlægir í því að koma fram siðbót í stjórnmálalífinu. Þeir aðhyllast formfestu og aga í stjórnun, upplýsingagjöf og beint lýðræði.

Vandinn er að allt má þetta misnota – og það gerist í svona eitruðu andrúmslofti eins og umlykur okkar heimshluta þessi misserin. Sérstaklega er beint lýðræði hættulegt ef það er ofmetið. Það, að meirihlutinn hafi ákveðið eitthvað, gerir það ekki gott og gilt. Þvert á móti getur það verið fullkomlega óeðlilegt og ósanngjarnt. 

Lýðræði er ekki bara kosningar. Lýðræði er samfélagsgerð og hugarfar. Til þess að það virki þarf það að skipta þegnana máli. Rödd þín og atkvæði þarf að skipta máli – og það þarf að skipta þig máli að hinn lýðræðislegi ferill sé virtur.

Það má líka draga þann lærdóm af Brexit að hér hafi hin lýðræðislega taug rofnað. Raunar slitnað í tætlur. Atkvæði fólks lutu að stofnunum sem voru orðnar því svo fjarlægar að lítil raunveruleg tengsl voru til staðar. Í norðaustrinu kaus fólk nei vegna þess að valdið í London vildi „já“. Milljónir kusu nei vegna þess að það sá enga samleið með valdinu í Brussel. 

Langsóttar lýðræðistengingar eru hættulegar. Þess vegna er uggvænleg sú þróun, sem ekki síst hefur verið uppi á Íslandi síðustu ár og áratugi, að þjappa valdi sífellt saman í stærri og stærri einingar. Því þótt í því felist ákveðin vörn gegn frændhygli og öðrum vanda við lýðræði í smáum samfélögum, þá myndast líka fjarlægð sem getur gert það að verkum að lýðræðið hættir að vera lifandi raunveruleiki – hættir að skipta fólk máli persónulega.

Evrópusambandið er ekki í nægilegum tengslum við þegna landa sinna. Það er hagsmunabandalag af gamla skólanum. Stöðlun og miðstýring er allt of mikil. Það má vel flytja fólk og fé yfir landamæri án þess að má út sérkenni ríkjanna. Nú þarf Evrópusambandið að endurheimta traust þegna sinna – það var raunar löngu tímabært. Og það yrðu hin þroskuðu viðbrögð við því áfalli sem varð í gær. Það er of ódýrt að segja að 17 milljón Bretar séu ginnkeyptir rasistar. Það er einfaldlega ekki satt.

Vandinn er að til að hægt sé að draga uppbyggilegan lærdóm af atburðum gærdagsins þarf að stuðla að heilbrigðari skoðanaskiptum í samfélögunum. Það versta sem gæti gerst væri að skotgrafirnar væru dýpkaðar. Skynsemin varð ekki undir í Brexit-kosningunum vegna þess að já-sinnar hefðu ekki gengið nægilega hart gegn nei-sinnum. Hún varð undir vegna þess að það skipti ekki lengur máli hvað sagt var – heldur hvernig. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni