Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Útgerðarmenn hræddir við Pírata

Mér er sagt af fólki sem ég treysti að nokkur skjálfti sé kominn í íslenska stórútgerðarmenn. „Þeir eru hræddir við Pírata.“ sagði einn. Sögunni fylgdi að þessi ótti væri farinn að birtast í breyttum viðskiptum með kvóta. 

Með réttu eða röngu eru auðlindamálin eitt af stórmálum næstu kosninga. Í hugum ofsalega margra eru útgerðarmenn táknmyndir misskiptingar, ofsagróða og samþjöppunar valds. Þeir líta á það sem réttlætis- og efnahagsmál að gera róttækar kerfisbreytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Ástæða þess að Píratar eru taldir ógna hagsmunum útgerðarmanna tengjast í raun einu einstöku orði.

Róttækar tillögur Stjórnlagaráðs

Þorvaldur Gylfason hefur um langa hríð verið í forystu þeirra sem telja úthlutun aflaheimilda hagfræðilegt glapræði. Hann sat í Stjórnlagaráði á sínum tíma og þar urðu hugmyndir hans ofan á. 

Í núgildandi stjórnarskrá er fátt að finna um auðlindir landsmanna. Þjóðareignarákvæðið um nytjastofna er að finna í lögum um fiskveiðar.  Þessu var breytt í frumvarpi Stjórnlagaráðs. Í því er þessi grein:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.

Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu og uppsprettur vatns- og virkjunarréttinda, jarðhita- og námaréttinda. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Það sem helst veldur kvíða í þessu ákvæði er þessi málsgrein:

„Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn“

Beint lýðræði styður hinar róttæku tillögur

Ástæða þess að Píratar þykja líklegir til að berjast fyrir þessu ákvæði er ekki síst það að Stjórnlagaráð var lýðræðisleg stofnun auk þess sem að tillögur þess fengu staðfestingu í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012.

Þá voru það einkum tvær spurningar sem snertu þessa hlið mála. Annarsvegar þessi: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“ (74% sögðu já) og hinsvegar þessi: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“ (64,2%).

Af þeim sex spurningum sem lagðar voru undir þjóðaratkvæði naut ákvæðið um þjóðareign langmest stuðnings. Töluvert meiri raunar en hitt stórmál næstu kosninga, sem er krafan um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna um mál.

Babb kom í bátinn á þingi

Það er augljóst að auðlindaákvæði Stjórnlagaráðs stangast að verulegu leyti á við núverandi fyrirkomulag fiskveiða – og að það gæti haft veruleg áhrif á nýtingu annarra náttúruauðlinda. Útgerðarmenn telja það stangast á við eindregna hagsmuni sína. 

Það var enda þetta mál sem á endanum eyðilagði þingið á lokamánuðum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn lögðust í botnlaust málþóf til að hindra að breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í þessa veru. Engin hætta hefur steðjað að útgerðarmönnum í stjórnartíð Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna. En nú blasir við óvissa um framhaldið og þar teljast Píratar stærsta ógnin.

Efasemdir fræðimanna

Sterkara sameignarákvæði á auðlindum hefur mætt nokkurri fyrirstöðu úr fræðaheiminum. Sérstaklega frá nokkrum lögfræðingum og hagfræðingum. Stærsta mótbára lögfræðinga er að „sameign þjóðar“ sé lagalega óskýrt hugtak. Slíkar sameignir uppfylli ekki helstu skilyrði sem gerð eru til eigna. Þær sé til dæmis ekki hægt að selja eða veðsetja. Sigurður Líndal hefur lengi talað fyrir slíku viðhorfi ásamt fleirum. Hagfræðilegu mótbárurnar, sem t.d. hafa komið úr ranni Ragnars Árnasonar, eru þær að þjóðin eigi meira undir öflugum sjávarútvegi en nokkurri annarri nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar – og að besta leiðin til að styrkja sjávarútveginn sé ef auðlindin er sem líkust einkaeign útgerðarmanna.

Samtök útgerðarmanna hafa á yfirborðinu álitið þessar mótbárur til marks um að tillögurnar séu umdeilanlegar og því þurfi að eiga sér stað miklu meiri umræða um þessi mál áður en nokkuð er ákveðið. 

Málamiðlunin

Árni Páll hefur orðið holdtekja málamiðlunar í þessum efnum. Málamiðlunin felur í sér að vissulega sé tekið upp ákvæði um þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá en að hinum umdeilda þætti um „fullt gjald“ sé sleppt, sem og því að úthlutun sé til skamms tíma í einu.  Strangt til tekið mætti segja að slíkt sé ekki nema að takmörkuðu leyti svik við þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 – enda var þar ekki spurt nákvæmlega út í hvernig þjóðareignarákvæði setja ætti í stjórnarskrá, allur þunginn var á því hvort slíkt ákvæði ætti að fara inn. Þó verður að hafa hugfast að meirihluti þeirra sem kusu sagðist vilja hafa tillögur Stjórnlagaráðs til hliðsjónar – og þær tillögur voru mjög róttækar.

Á Alþingi hefur síðustu misseri verið unnið að málamiðlun. Náist samstaða um hana verður það að teljast sigur fyrir Árna Pál. Ferill hans vegur þessa dagana salt á milli þess að hann teljist raunsær stjórnmálamaður sem lagði drög að sátt um mjög umdeild mál eða svikari sem gróf undan þjóðarvilja til að þjónusta ríka peningahagsmuni. Sigurður Ingi, forsætisráðherra, myndi gjarnan vilja hindra að þessi mál yrðu að kosningamáli og hefur því ámálgað það að málamiðlunin verði afgreidd fyrir kosningar. Um það verður varla samstaða í þinginu og raunar er líklegt að því fastar sem hann ýtir því máli áfram, því skarpari verður munurinn á málamiðluninni og tillögum Stjórnlagaráðs – og að einhverjir flokkar taki einarða afstöðu  með síðarnefndu tillögunum og geri að enn meira áberandi kosningamáli.

Munurinn er enda verulegur. Svona er málamiðlunin eftir meðferð Stjórnarskrárnefndar þingsins: 

„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt og til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þau eða veðsetja. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forsjá og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.

Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda sem eru í eigu íslenska ríkisins eða þjóðareign. Veiting nýtingarheimilda skal grundvallast á lögum og gætt skal jafnræðis og gagnsæis. Slíkar heimildir leiða aldrei til varanlegs eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindum.“

Hér er sumsé sagt að það skuli jafnaði taka eðlilegt gjald fyrir nýtingu auðlindanna. Verði þetta samþykkt þarf í raun engu að breyta í sjávarútvegsmálum frekar en menn kjósa.

Stutt þing um stjórnarskrármálin

Margir Píratar vilja að næsta þing sé stutt og snúist eingöngu um stjórnarskrármálin. Það er býsna eðlilegt. Ef kosningamálin eru fá og fyrirfram skilgreind má ætla að Pírötum gangi mun betur í baráttunni en annars. Það er ekki víst að þeir riðu feitum hesti frá því að frambjóðendur þeirra færu að lýsa skoðunum sínum á allskonar málum í kosningabaráttunni. Auk þess falla stjórnarskrármálin vel að áherslum Pírata um aukið lýðræði. Þá væri vel réttlætanlegt að stöðva málþóf til að koma slíku máli í gegn og boða til þjóðaratkvæðagreiðslu og kosninga. Þess vegna eru útgerðarmenn hræddir. Þeir sjá að það er raunverulega möguleiki á að tillögur Stjórnlagaráðs séu að fara alla leið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og að þar sé eins víst að þær yrðu samþykktar. Það eru gríðarlegir hagsmunir í húfi.

Stjórnarmynstur sem gætu bjargað í horn

Það virðast raunar aðeins vera tvennskonar stjórnarmynstur sem gætu komið í veg fyrir að málið færi alla leið, að því gefnu að það verði kosningamál. Það má helst sjá fyrir sér að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og annað hvort Framsóknar eða Samfylkingar kysi að fylgja eftir málamiðluninni alla leið. 

Óeðlileg áhersla á sjávarútveg?

Fyrir mörgum er það löngu orðið réttlætismál að útgerðin borgi meira til samfélagsins. Hagsmunir og gróði útgerðarinnar hafa enda með frekar beinskeyttum hætti komið niður á byggð hér og þar um landið og  myndað mjög valdamikla turna sem virðast svífast einskis til að gæta hagsmuna sinna. Það er heilmikil skoðana- og athafnakúgun á bak við tjöldin og margir kunna stóru útgerðarmönnunum litlar þakkir fyrir. Þeir njóta allavega lítillar samúðar. Það hjálpaði heldur ekki til að minnkaðar voru álögur á útgerðarmenn á sama tíma og heilbrigðis- og menntakerfi landsins riða til falls.

Því verður samt ekki neitað að vandinn hér einskorðast ekki við útgerðina. Það er til dæmis óskiljanlegt hve stjórnvöld eru hikandi við að leggja gjöld á ferðabransann. Það virðist ekki einu sinni vera hægt að koma upp klósettum í sæmilegu samkomulagi. Ráðherra þessa málflokks hefur ítrekað verið gagnrýndur fyrir linkind og athafnaleysi – en í raun er ríkisstjórnin öll sek um hið sama. Það ætti auðvitað að vera löngu búið að herða skrúfurnar á ferðaþjónustunni og leggja á réttmæt gjöld. 

Samanburður tveggja báta sem sigla frá sömu bryggju, annar til að veiða fisk og hinn til að ferja túrista, er að mörgu leyti útgerðarmanninum í vil. Ekkert kemur í veg fyrir að eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins stingi öllum ágóðanum í vasann. Stærri hluti af aflaverðmætinu rennur í vasa þeirra sem vinna fyrir útgerðarmanninn en nokkru sinni þeirra sem reka t.d. hvalaskoðun. Og það skiptir máli. 

Það þarf að hugsa þessi mál í stærra samhengi og hafa fleiri auðlindir undir í þeirri skoðun.

Stutt í kosningar

Það er mjög stutt í kosningar. Að öllum líkindum er enginn tími til að fara í neina nákvæma skoðun eða stefnumörkun. Það verða samt óhemju spennandi kosningar í haust. Sjaldan eða aldrei hefur eins mikið verið undir í einum kosningum. Sjaldan eða aldrei hafa jafn róttækir kostir verið í boði.

Hvað sem öðru líður eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir fólgnir í því að fólk kjósi ekki Pírata. Það má reikna með því að mikið verði gert til þess að gera þá fráhrindandi. Nú mun því reyna á kænsku þeirra sem aldrei fyrr.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni