Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ögn um Útvarp Sögu

Ég er frekar mótfallinn því að svelta fyrirtæki, hvað þá fjölmiðla, til bana. Til þess að það sé góð hugmynd svona almennt og yfirleitt er sammannleg skynsemi of hvarfgjörn og óáreiðanleg. Og fólk á allt of auðvelt með að móðgast og espast upp. Það eru til fyrirbæri sem beinlínis eru hönnuð til að losa okkur undan neikvæðum upplifunum og árekstrum. Feisbúkk byggir til dæmis á svoleiðis algrími. Mér sýnist áhrifin vera forheimskandi ef eitthvað er.

Ég skil samt reiðina sem gaus upp þegar útvarpsstýran á Útvarpi Sögu gaf í skyn að ungi maðurinn sem dreginn var út úr kirkjunni væri tengdur hryðjuverkasamtökum. Og ekki batnar það þegar sama kona reynir að ýja að því að reiðin gagnvart stöðinni tengist með einhverjum hætti Brexit og málfrelsi. Fólki var einfaldlega misboðið þegar bornar voru á mann þungar sakir án þess að sýnilegt væri að það styddist við nokkra einustu staðreynd.

Þjóðkirkjan á heiður skilinn fyrir aðkomu sína að flóttamannamálum á síðustu dögum. Hún sýndi að hún er enn kristin. Sjálfur trúi ég ekki á nein æðri máttarvöld – en ég ber samt djúpa virðingu fyrir heimspeki kristninnar. Mér finnst ég ekkert minnka sem vitsmunavera við það að reyna að sjá það fagra við trúarbrögð. Eitt af því sem fjöldi kristinna manna og kvenna má svo sannarlega eiga er að sjá mikilvægi hvers einasta manns og bjóða honum stuðning og hjálp þegar tíðarandinn eða aðrir straumar krefjast fálætis. 

Það er kristilegt að bjóða fram hjálp þeim sem kúgaðir eru og undirokaðir. Það er auðvitað sammannlegt líka – en það má segja það kristni til hróss að það er ekki tilviljun að hún hefur tekið þennan tiltekna eiginleika upp á arma sína og gert að grundvallarboðskap.

Þetta mál hefur líka afhjúpað að hér á landi er fullt af fólki sem þykist vera kristið en er eitthvað allt annað. Ef Jesú gengi aftur hefði hann ekki undan við að steypa um koll eldhúskróksborðum.

Auðvitað eru raunveruleg vandamál tengd straumi flóttamanna. Það óttast ýmsir að hér opnist flóðgáttir. Og það gæti vafalaust gerst. Það er samt himin og haf á milli þess að gangast við ákveðinni örvæntingu aðgerðarleysis og hinu að gera tilraun til að göfga siðferðislega ámælislega afstöðu með dylgjum um að ekki sé um að ræða fólk í raunverulegum vanda – heldur stórhættulega óvini.

Furðumargir óttast það í alvöru að hleypa inn í landið múslimum því þeir halda að í hópnum séu hryðjuverkamenn sem bíða færist og ætla sér að drepa fullt af fólki. Þetta fólk hefði gott af að velta hlutunum aðeins fyrir sér.

Hælisleitendur og aðrir sem vildu skapa ótta hafa haft ótal tækifæri til þess. Þú þarft ekki mörg ár og sprengjubelti til að fremja hryðjuverk. Þér gæti nægt fjölfarinn staður og eldhúshnífur. 

Hingað til lands hefur komið töluverður fjöldi flóttamanna. Og álíka fjöldi hefur verið sendur burt aftur. Hvernig skyldi standa á því að það hefur barasta aldrei gerst að neinn úr þeirra hópi hafi slasað eða drepið Íslendinga? Hvernig ætli standi á því að það uggvænlegasta sem sögur fara af eru augngotur og blístur dökkhærðra manna í átt til ljóshærðra stúlkna?

Kannski er það vegna þess að meðlimir hryðjuverkasamtaka vilji helst ekki fara í sjálfsmorðsárásir nema vera fyrst komnir með íbúðalán og yfirdrátt. En kannski er það vegna þess að ótti okkar við að þessir menn vilji okkur illt er í raun og veru órökrétt hræðsla við hið ókunna. Ósköp venjulegur og heimóttarlegur skræfuskapur.

Það að viðurkenna mannlega reisn flóttafólks, sýna því hluttekningu og reyna að hlúa að því eru ekki aðeins kristilegar athafnir – það er líka skynsamlegt. Það að koma fram við fólk af hörku, tortryggni og vonsku er ekki aðeins ókristilegt – það er líka óskynsamlegt. Fólk sem dylgjar um flóttamenn, hæðir þá og niðurlægir – beitir þá jafnvel óþörfu líkamlegu valdi, kemur þeim fyrir í einangrunarbúðum og elur á illsku í þeirra garð er hættulegt. Sumt af farandfólkinu er á flótta undan óskaplegum hörmungum. Sumt er andlega illa statt og hjálpar þurfi. Það er aldrei að vita hvaða áhrif það hefur að mæta hörku, tortryggni og þurfa að sæta stöðugri niðurlægingu að auki. Slíkt getur ýtt einhverjum yfir brúnina svo hann skaðar hugsanlega sjálfan sig eða aðra.

Í raun stafar samfélagi okkar meiri ógn af fólki eins og útvarpsstýrunni á Sögu en öllum þorra þess fólks sem rekið er úr landi. 

En þrátt fyrir það ættum við að fara okkur hægt í að beita ofbeldisfullum aðferðum til að verja okkur. Jafnvel predikarar illsku og heimsku verðskulda ákveðið umburðarlyndi. Við getum ekki látið ótta okkar við það sem gæti orðið verða til þess að við grípum til róttækra varna. Hnefarnir eru ekki besta meðalið við ótta.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu