Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Eiga allir sinn Laxness?

Þessa dagana ríður menntamálaráðherra um héruð með tvo fylgisveina. Annar kynnir ráðherrann á svið, hinn lýkur samkomunum með söng. Tilgangurinn er að láta sveitarstjórnir alls landsins skrifa undir eið um að framfylgja stefnu ráðherrans í menntamálum. Þeir sem skrifa undir fá hlutdeild í digrum silfursjóði sem ráðherrann hefur nurlað saman til þess arna.

Það er auðvitað eitthvað skáldlegt við svona föruneyti. Jafnvel eitthvað fallegt. Málstaður ráðherrans er enda göfugur: Það á að venja börn aftur við bækur.

Í því sambandi vil ég benda á framúrskarandi góðan þátt á Hringbraut. Þar fær Sigmundur Ernir til sín fólk sem segir stuttlega frá bókum sem mótuðu lífshlaup þess. Í þessum fyrsta þætti segir Sigmundur meðal annars að allir eigi sinn Laxness.

En er það virkilega svo að hið andlega líf þjóðarinnar sé markað djúpum bókmenntalegum sporum? Eiga allir sinn Laxness í raun og veru?

Ken Robinson segir í frægum fyrirlestri að skólakerfið hafi gríðarlega slagsíðu í átt til bóka. Það sé fyrst og fremst hannað til að framleiða háskólaprófessora. Fólk sem lifir megnið af ævi sinni fast á milli eyrnanna á sér og sér líkama sinn fyrst og fremst sem farartæki fyrir heilann. Fólk sem gæti þess vegna verið heilar í krukkum.

Ég efast ekki um að hin bókhneigða menntamanngerð eigi sinn Laxness. Eða sinn Hemmingway eða Dostójevskí. Ég hef samt nokkrar efasemdir um að hún sé dæmigerð. Ég hef líka efasemdir um að þjónkun við hana sé megintilgangur náms.

Hluti af spennunni í menntakerfinu núna stafar af því að gamaldags bókamiðun er ekki lengur sjálfbær í samfélagi nútímans. Það skiptir ekki öllu máli þótt skólinn streitist á móti og fái foreldra og sveitarstjórnarmenn til að skrifa upp á plögg. Fólk á ekki bara sína Laxnesa, það á líka sín Taylor Swift og Rónaldó.

Það hefur auðvitað alltaf verið svoleiðis. Ári eftir að Laxness fékk nóbelinn kom Elvis fram á sjónarsviðið. Salka-Valka hafði djúp áhrif á marga en það hafði líka Sófía Lauren. Einhverjir tengdu við ljósvíkinginn en miklu fleiri tilbáðu Maradona.

Á næstu áratugum munu fleiri ljúka langskólanámi en samanlagður fjöldi þeirra sem lokið hafa slíku námi hingað til. Að hluta til stafar þetta af því að fólk er fleira nú en áður. Að hluta til er ástæðan sú að menntun er almennari.

Frá 1946 til 1975 var fólk miskunnarlaust síað burt úr menntakerfinu ef það var ekki nógu bókhneigt. Unglingar þurftu að taka landspróf. Fyrsta árið reyndi tæpur helmingur nemenda að taka prófið. Tæp 7% árgangsins stóðust. Rúm 93% voru talin henta til annars en bóknáms. Hlutfall þeirra sem reyndu varð aldrei jafn hátt þrátt fyrir að kennarar og nemendur hafi smátt og smátt lært á prófin. Sífellt fleiri stóðust. Þó fór hlutfall þeirra sem ekki fóru gegnum landspróf til frekara náms aldrei undir tvo þriðju úr árgangi.

Núverandi menntamálaráðherra er fæddur á þessum tíma. Eins og raunar meirihluti þeirra sem stjórna menntamálum þjóðarinnar. Um þá gildir sama lögmál og rithöfundurinn Douglas Adams lýsir í þessum orðum um tækni:

„Ég hef samið reglur sem lýsa viðbrögðum okkar við tækni:

1. Allt sem er í heiminum þegar þú fæðist er eðlilegt og venjulegt og tilheyrir hinni náttúrulegu röð og reglu heimsins.

2. Allt sem kemur fyrst fram á sjónarsviðið á milli þess sem þú ert fimmtán og þrjátíu og fimm ára er nýtt og spennandi og byltingarkennt og þú getur líklega nýtt þér það til starfsframa.

3. Allt sem kemur fyrst fram á sjónarsviðið eftir að þú verður þrjátíu og fimm ára er andstætt hinni náttúrulegu röð og reglu heimsins.“

Minnkandi bóklestur á sér eðlilegar og náttúrulegar skýringar. Það felur ekki í sér að ekki sé eftirsjá af lestrinum eða ástæða til að reyna að halda bókum að börnum. Raunar alls ekki. Það er full ástæða til að leiða börn inn í heim bóka. Ef það er gert vel munu þau búa að því alla ævi.

Við þurfum samt að hafa í huga að viðmiðið er skakkt. Við gerum okkur ekki grein fyrir því að skóli í dag er annað fyrirbæri en hann var þegar 65-95% hvers árgangs var kastað út á vinnumarkaðinn. Og við gleymum því að skólakerfið sem við miðum við var sjúklega bókamiðað.

Um fyrstu kynslóð eftir að landsprófið var aflagt var þetta sagt:

„[U]ngdómurinn  [hlýðir] engu nú til dags nema þegar mamma og pabbi skipa elskunum sínum að hunskast í bíó til að horfa á hryllingsmynd á sunnudegi og kaupa sér lakkrís.“

Þeir unglingar sem hér er átt við eru menntamálaráðherrann okkar og jafnaldrar hans.

Og þetta er fráleitt elsta dæmið um að eldra fólk telji að búið sé að eyðileggja næstu kynslóð. Það er raunar regla en ekki undantekning að allar samfélagssviptingar eru taldar ónáttúrulegar af þeim sem eru eldri en 35 ára þegar þær koma fram. Árið 1939 var því lýst yfir í Vísi að áhersla á fjölbreyttara nám og aukna verkkunnáttu væri stórfellt eyðileggingarafl sem æli á óhamingju. Áhersla á íþróttaiðkun væri ekki minna óheilbrigð:

„Eitt er það, að æskulýðurinn nú á dögum er í mikilli hættu. «Alt er á fleygiferð — alt í loftköstum! Skólar á annari hverri þúfu. Sífelt gambrað um mentun, en fáir læra neitt til hlítar. Sannri mentun og menningu hrakar. Flest hið góða og gamla fyrirlitið og fótum troðið. Ungdómurinn les eldhús-reyfara, lauslætis-bull og glæpa-sögur, en lítur ekki við glæsilegum skáldritum eða sögu þjóðar sinnar. — Iðnfræðinni fleygir fram með ofsalegum hraða. Véla-öldin sviftir verka-manninn brauði og lífshamingju. Hún gerir hann meira og minna óþarfan. Og svo er honum fleygt út á haug! — Íþróttirnar fara út í öfgar. Allir vilja vera mestir.“

Undir lok var fullyrt að allt gerðist þetta samfara hnignun hvíta kynstofnsins. Eftir þessu fylgdi auglýsing um fyrirlestur þýsks sendikennara um hinar stórkostlegu hraðbrautir í Þýskalandi Hitler.

Hausverkur menntamálaráðherra yfir stöðu menntakerfisins stafar ekki að litlu leyti af því að aðrir limir líkamans vilja líka taka til sín blóð. Mönnum getur sundlað þegar þeir hafa áratugum saman staðið á haus til þess eins að gera allri næringunni sem auðveldast fyrir að streyma til heilans. 

Hugmyndafræðileg deila skólakerfisins um þessar mundir snýst enda í kjarna sínum um það hvort nám sé eitthvað fyrir útvalda (og þá á hvaða forsendum) eða hvort það sé réttur allra. Þegar landspróf var aflagt var mörkuð síðarnefnda stefnan. Það hefur gengið bölvanlega að fylgja henni eftir. Ekki síst vegna þess að menntakerfið er stútfullt af heilum í krukkum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni