Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Þagnarskylda og þöggun

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum beinir því til þeirra sem starfa við Þjóðhátíð að veita blaðamönnum ekki upplýsingar um kynferðisbrot á hátíðinni. Margir telja það til marks um þöggun. Aðrir telja að hér sé verið að árétta augljósa þagnarskyldu – auk þess sem það sé erfitt að sjá hvernig umfjöllun um kynferðisbrot gagnist fórnarlömbunum. Það auki á álagið frekar en hitt að verða með þessum hætti fréttamatur.

Þagnarskylda er eitthvað sem taka á mjög alvarlega. Við sem samfélag höfum sett ákveðinn hóp fólks í þannig hlutverk að gagnvart þeim getum við verið berskjölduð og óvarin. Ein af skyldum þess fólks er að leyfa okkur sjálfum að vera, upp að því marki sem hægt er, með völdin yfir eigin lífi. Þagnarskylda er ekki eitthvað sem maður getur lagt á hliðina jafnvel þótt ásetningurinn sé góður. Hún er skilyrðislaust skylduboð með fáum undantekningum.

Undantekningar á þagnarskyldu eru t.d. þær að þegja ekki yfir því ef barn býr við vanrækslu eða ofbeldi. Barn sem trúir einhverjum fyrir slíku getur aldrei átt trúnað viðkomandi að öllu leyti. Fyrst og fremst auðvitað vegna þess að dómgreind barna er enn að þroskast. Fullorðin manneskja sem orðið hefur fyrir ofbeldi verður sjálf að hafa vald yfir þeirri atburðarás sem tekur við. Hún ákveður t.d. sjálf hvort hún kærir ofbeldið. Hún verður að fá að taka slíkar ákvarðanir á eigin forsendum. 

Mér sýnist þess vegna augljóst að krafa um að þagnaskylda sé virt í tilfelli þjóðhátíðargesta hafi töluvert vægi. Ég er ginnkeyptur fyrir þeirri afstöðu að gæslufólk, lögreglumenn og heilbrigðisstarfsfólk eigi yfirleitt alls ekki að segja opinberlega frá verkefnum sínum ef þau snerta viðkvæmar persónuupplýsingar.

Að því sögðu orkar málið allt heldur illa á mig.

Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum er nátengdur ráðandi öflum í stjórn bæjarins. Það truflar mig pínulítið. Hátíðin er mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélagið og það hefur hag af því að ásýnd hennar sé sem best. Það að segja ekki frá kynferðisbrotum getur á yfirborðinu virst sem tilraun til að fela skuggahliðarnar. Þegar betur er að gáð er það samt ömurleg aðferð.

Miklu nær væri að bæta ásýnd hennar með því að opna á þessu mál upp á gátt og vera með öflugar forvarnir, eftirlit og gæslu. Því greiðlegar sem aðstandendur hátíðarinnar gangast við því að kynferðisbrot eru raunverulegt og aðkallandi vandamál, því betri verður ásýndin og þeim mun líklegra að fólk hafi traust á því sem þar fer fram.

Þannig að ég held að ef hér er verið að reyna að fegra hlutina þá hafi það verið afar misráðið og raunar haft þveröfug áhrif.

En hvað með þagnarskylduna? 

Ég á mjög erfitt með að samþykkja afslátt af þagnaskyldu með nytsemisrökum. Því miður. Fyrir mér er hún grundvallaratriði og snertir trúverðugleika samfélagsins. Um leið verkar það illa á mig að lögreglustjórinn skuli reyna að rétta sína hlið á málinu af með því að vísa í nytsemisrök. 

Þau rök að lögreglan eigi að hlífa þolendum við umfjöllun vegna þess að umfjöllun sé þeim erfið eru á endanum vond rök. Þagnarskylda á að virða rétt þinn til að ákveða fyrir þig sjálfa eða sjálfan hvað gert er með upplýsingar um þig. Í málflutningi sínum segir lögreglustjórinn að hún vilji taka tiltekna afstöðu því það sé þolendum fyrir bestu. Sú afstaða stangast á við grundvallareðli þagnarskyldunnar. Það er ekki þitt að ákveða hvað öðrum er fyrir bestu.  

Enn verður samt ekki komist hjá því að þótt rökin séu ekki sterk þá er það eðlilegri afstaða að virða þagnaskyldu með slöppum rökum en að brjóta hana með sterkari rökum.

Þá kemur að því sem ég á mjög erfitt með að skilja. Ég hef um langa hríð verið undrandi á því hvernig lögreglan túlkar þagnarskyldu sína. Ég vil ganga svo langt og segja að sú túlkun á þagnarskyldu sem lögreglan virðist halda á lofti sé einhver grímulausasta árás á tilgang og trúverðugleika slíkrar skyldu. 

Lögreglan beitir að mínu mati upplýsingum í sífelldu áróðursskyni. Hún hikar ekki við að kjafta frá jafnvel viðkvæmum upplýsingum ef það hentar henni.

Á samfélagsmiðlum úðar lögreglan út upplýsingum. Stundum í forvarnarskyni. Stundum í skemmtanaskyni. Stundum af óskiljanlegum hvötum. Hún gerir sitt besta til að viðhalda ákveðnum viðhorfum, sem oft litast hreinlega af djúpstæðum fordómum. 

Dæmi um þetta er maður sem á dögunum skemmti sér í miðbæ Reykjavíkur en endaði sem skemmtiefni á fésbókarsíðu lögreglunnar. Þar var tekið fram að sköllóttur og húðflúraður maður hefði verið með selfístöng og læti og löggan hefði skammað hann. Þessi örsaga lögreglunnar uppskar næstum 900 læk frá fólki sem finnst gaman lesa um snoðaða menn með húðflúr sem gera sig að fífli.

Hvaða erindi á slík saga við fólk? Hvert er forvarnargildið? Hvaða almannahagsmunir felast í því að segja slíkar sögur? Hvers vegna er sagan skreytt með lýsingum á útliti mannsins? 

Þá hefur lögreglan um árabil haldið úti dagbók. Í henni eru gjarnan rakin helstu verkefni viðkomandi lögregluembættis á tilteknu tímabili. Þar má lesa um fólk sem telur sig sjá ísbirni, gamlingja sem renna í hálku, reiðhjól sem er stolið, líkamsárásir og innbrot svo eitthvað sé nefnt. Í slíkum dagbókum er líka reglulega sagt frá meintum kynferðisbrotum – líka í Vestmannaeyjum!

Auðvitað þurfa lögreglumenn oft að glíma við mjög erfið mál og ég þykist vita að í langflestum tilfellum virði lögreglumenn þagnarskyldu. Ég fæ samt ekki séð að lögreglan hafi hingað til talið þagnarskyldu ná yfir almenna lýsingu á þeim verkefnum sem upp koma. 

Sú þagnarskylda sem lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum talar nú um er annars eðlis en sú þagnarskylda sem hingað til hefur átt við starfsemi lögreglunnar. Fyrir tíu dögum birti þetta sama lögregluembætti dagbók þar sem sagði frá einni líkamsárás og einum slagsmálum að auki. Einn var stöðvaður grunaður um fíkniefnaakstur, annar fyrir að tala í símann undir stýri og sá þriðji lagði ólöglega. Kona datt í Spröngunni. Maður datt við Lundann. 

Það er ekki með neinu skynsamlegu móti hægt að segja að lögreglustjóri sem ekki vill gefa upplýsingar um tíðni kynferðisbrota sé aðeins að standa vörð um þagnarskyldu þegar sami lögreglustjóri hikar ekki við að segja mér og öllum sem vilja lesa frá því að maður hafi verið stoppaður af því að löggan hafi grunað hann um fíkniefnaneyslu. 

Í þessari umræðu um þagnarskyldu verður að skoðast hvað felst í þagnarskyldunni. Það væri ekkert rosalega erfitt að sannfæra mig um að þagnarskylda gagnvart þeim sem lögregla hefur afskipti af þurfi að vera ríkulegri. En með fullri virðingu fyrir lögreglunni þykir mér fráleitt að hún hafi sjálfdæmi um það hvaða upplýsingar hún gefur, hvenær og hvernig. Ég held að hún stundi það, hugsanlega ómeðvitað, að ala á fordómum gagnvart ákveðnum hópum fólks og jaðarsetja það. Hér má nefna „góðkunningja“ hennar og grunaða eiturlyfjaneitendur.

Ég held líka að aðstæður séu þannig að ákveðnir þjóðfélagshópar njóti betri þagnarverndar en aðrir. Ég sé til dæmis ekki fyrir mér að sjónvarpsmönnum sé boðið með á vakt með löggunni til að bösta hvítflippaglæpamenn en ég hef oft séð upptökur af því þegar ruðst er inn í dópgreni eða dauðadrukkið fólk er sópað upp af götunni. Það er ákveðin tegund af fólki sem löggan ber á borð fyrir okkur; þar skiptir ekki öllu máli hvort það sé nafnlaust og pixlað.

Ég hef hingað til ekki gert eina tilraun til að tækla þá hlið málsins sem snýr að því að sumar upplýsingar eiga erindi við almenning. Er það þó einn kjarni í málinu. 

Ég held samt að sú pæling sé í raun óþörf. Að þegja um tíðni kynferðisbrota á Þjóðhátíð er ákvörðun sem stangast á við verklag og hefðir. Slík þögn væri í hæsta máta óvenjuleg. Hana þarf því að rökstyðja sérstaklega. Sá rökstuðningur hefur að mínu mati mistekist.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu