Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Vantrú, Bjarni og Guðni

Guðni Elísson birti einu sinni grein um félagsskapinn Vantrú. Greinin hét „Britney fokkíng Spears“. Hún hnitaðist að mestu um gagnrýni Ásgeirs Bergs Matthíassonar á notkun samhengislausrar upptalningar á meintu ljótu orðfæri Vantrúarmanna í umræðu og kennslu um félagsskapinn. 

Málið er þetta: Vantrúarmenn hafa sumir haldið því fram að Bjarni Randver Sigurvinsson hafi óeðlilegan mikinn áhuga á því hvort og hvenær meðlimir Vantrúar séu dónalegir í tilsvörum og umræðum. 

Grein Guðna er málsvörn akademíunnar. Hann heldur því fram að það að safna saman ummælum af ákveðnu tæi á lista sé viðurkennd og eðlileg greiningaraðferð. Niðurstaða hans er sú að Vantrúarmenn séu haldnir af „akademískri leti“. Gagnrýni þeirra sé marklítil vegna þess að þeir virðist ekki skilja eða nenna að setja sig inn í þau fræðilegu vinnubrögð sem þeir gagnrýna sem harðast.

Kjarni málsins er þessi: Er það til marks um góð akademísk vinnubrögð að safna saman ummælum án þess að gæta að ytra samhengi þeirra og draga af þeim ályktanir?

Kjarni málsins er þessi: Ef það til marks um góð akademísk vinnubrögð að safna saman ummælum án þess að gæta að ytra samhengi þeirra og draga af þeim ályktanir?

Að einhverju leyti er svarið eflaust já. Það er akademískt viðfangsefni að safna saman ummælum, jafnvel úr kommentakerfum vefmiðla um innflytjendur, múslima, stjórnmálamenn eða jafnvel Vantrúarfélaga. 

Hvort vinnubrögðin eru góð eða ekki hlýtur samt að fara eftir fleiru. Er söfnun ummælana sanngjörn? Gefur hún rétta mynd? Er verið að safna ummælum frá raunverulega samstæðum hópi eða er verið að mynda hóp utan um tiltekin ummæli? 

Það er ýmislegt í skrifum Guðna sem truflar mig dálítið. Ég hef hvorki séð þau ummæli Ásgeirs sem hann gagnrýnir (þau birtust á fésbókarsíðu einstaklings og eru ekki opinber) né listann sem Bjarni Randver safnaði saman af ummælum Vantrúarmanna (en listinn hefur vaxið mjög að burðum ef marka má Guðna). Ég hef aðeins orð Guðna fyrir því sem stendur þar.

En jafnvel þótt ég hafi aðeins grein Guðna þá er eitt og annað ekki eins og það ætti að vera, ef vandað væri til verka

 

En jafnvel þótt ég hafi aðeins grein Guðna þá er eitt og annað ekki eins og það ætti að vera, ef vandað væri til verka.

Í fyrsta lagi: Meginröksemd Guðna er sú að samhengi ummæla skipti ekki öllu máli. Bjarni sé að greina „núning og árekstra milli ólíkra hópa“ eins og þeir birtist í samskiptamynstrum sem einkenna trúarumræðuna. 

Eftir lestur greinarinnar vakna hér margar spurningar. Sú fyrsta er eiginlega eðlisfræðileg. Það er ekki víst að allir þekki muninn á hita og varma. Líklega er best að átta sig á hugtökunum með því að bera saman goshver og kertaloga. Kertalogi er 10 sinnum heitari en goshver – en goshverinn geymir mun meiri varma en kertaloginn. 

Í samhengi trúarumræðunnar hlýtur að vakna hliðstæða. Núningur og átök milli hópa eru varla mæld með punktamælingu. Þess vegna er varhugavert að mæla slíkan núning með því að safna saman ljótum ummælum. 

Það ljótasta sem vestrænn leiðtogi hefur látið frá sér fara um Pútín er að hann sé með stærilæti til að reyna að sanna karlmennsku sína. Það ljótasta sem fjölmiðlamaðurinn Pierce Morgan hefur látið frá sér fara um transfólk er: „Sjáið hve heimskulega þið látið. Ég er í ykkar liði, fábjánar!“

Það væri fráleitt að álykta út frá þessum ummælum að minni spenna sé á milli vestrænna leiðtoga og Pútíns en á milli Pierce Morgans og transfólks.

Það væri fráleitt að álykta út frá þessum ummælum að minni spenna sé á milli vestrænna leiðtoga og Pútíns en á milli Pierce Morgans og transfólks.

Hér mætti að vísu segja að verið sé að sýna fram á samskiptamynstur. Varpa einhverskonar ljósi á samskipti. Ég myndi samt sem áður halda því fram að slík lýsing væri mjög takmörkuð nema um leið væri gefin einhver tilfinning fyrir umfangi. Ég veit ekki hversu margir eru í Vantrú en þeir sem Guðni nafngreinir sem höfunda tiltekinna ummæla eru örfáir. Kannski má segja eitthvað um þá einstaklinga með því að lepja upp ummæli eftir þá, en maður hlýtur að þurfa að fara varlega í að álykta um mynstur eða samskiptahefðir heilla samtaka út frá ummælum nokkurra manna. Hvað þá að fullyrða um umræðu um víðtæka málaflokka.

En jafnvel þótt við gefum okkur að þessir menn séu á einhvern hátt dæmigerðir fyrir málflutning Vantrúar þá finnst mér enn vanta nokkuð upp á að málflutningur Guðna sé sannfærandi. Hann segir að listinn sé greiningartæki svo hægt sé að kortleggja átök í trúarumræðunni. Samt fæ ég ekki séð annað en að listinn samanstandi jöfnum höndum af ummælum úr hinni raunverulegu umræðu og spjalli innan úr lokuðum hópi Vantrúarmanna sem lekið var út. Ummæli af fyrri sort eru vissulega hluti af trúarumræðu. Ummælin úr lokaða hópnum eru það varla. 

Hver einasti hópur í samfélaginu býr við margvíslega orðræðu. Það er ekki hægt að setja í einn graut það sem sagt er á bak við tjöldin og það sem sagt er fyrir opnum tjöldum – og kalla dæmigert fyrir samskipti milli hópa. Ég er ekki viss um að Guðni kynni að meta það að afhjúpað væri allt sem hann hefur sagt um Vantrú í samtölum við kollega sína og lagt að jöfnu við það sem hann hefur birt í ritrýndum greinum með aragrúa fótnóta.  Enda væri það ekki sanngjarnt.

Loks er það stíllinn á ritgerðinni sem angrar mig. Ég held hún hafi ekki verið neitt sérstaklega vel ritrýnd.

Loks er það stíllinn á ritgerðinni sem angrar mig. Ég held hún hafi ekki verið neitt sérstaklega vel ritrýnd

Guðni kemst upp með hluti sem ég satt að segja hélt að jafnvel akademían á Íslandi væri nógu sterk til að reyna að reyna að stemma stigu við.

Það augljósasta er hve Guðni leyfir sér að gera þeim sem hann talar um upp skoðanir og viðhorf sem ekki er hægt að draga af tilvitnuðum ummælum. Það má vel vera að þetta sé einhverskonar bókmenntafræðileg greiningaraðferð sem felst í því að túlkandinn gerist málsvari þeirra sem hann fjallar um – en mér finnst þetta orka tvímælis, svo vægt sé til orða tekið.

Hann spyr til dæmis sjálfan sig að því hvers vegna Ásgeiri Berg sé svona illa við listana. Ég geri ráð fyrir að Ásgeir hafi sjálfur reynt að rökstyðja það einhversstaðar – en í stað þess að rekja röksemdir hans kýs Guðni að segja að líklega fari listarnir í skapið á honum vegna þess að þeir séu „merkingarbærir sem slíkir“ og miðli „tilfinningu af röð og reglu, skipulagi, úrvali, forgangsröðun.“

Það má vel vera að Guðni geti með einhverjum hætti rökstutt að listarnir séu á einhvern hátt spéspeglar eða merkingarbærir miðlar forgangsröðunar. Það er samt fráleitt að túlka ætlan eða vilja annarra með þessum hætti án þess að leyfa því sem þeir sjálfir hafa sagt að vera í forgrunni.

Þetta minnir dálítið á ritgerð sem akureyrskur sagnfræðingur og kennari skrifaði einu sinni um frægan útlending sem gefið hafði höfuðstað Norðurlands heldur slæma einkunn í ferðalýsingu sinni.

Þetta minnir dálítið á ritgerð sem akureyrskur sagnfræðingur og kennari skrifaði einu sinni um frægan útlending sem gefið hafði höfuðstað Norðurlands heldur slæma einkunn í ferðalýsingu sinni. Akureyringurinn saumaði saman langsóttan vefnað sem innihélt þá atburðarás að útlendingurinn hefði skömmu áður misst ástina sína á vofveiflegan hátt. Þegar hann reið inn Eyjafjörðinn og sá Akureyri í öllu sínu veldi hefði ólýsanleg fegurðin rifið upp söknuðinn og hjartasárin sem leiddi til útreiðarinnar sem bærinn fékk í ferðadagbókinni!

Guðni verður síðan ítrekað sekur um frekar ómerkilegar rökbrellur. Hann ýjar að því að skoðanir Ásgeirs séu undarlegar í ljósi þess hvaða nám hann stundar, gefur í skyn að Ásgeir hagræði sannleikanum og kýs að endurtúlka tiltekin ummæli með öðrum hætti en Ásgeir gerir. Ég upplifi þetta sem dæmi um óheiðarleika og skil ekki hvers vegna ritrýnendur hleyptu þessu í gegn.

Þá held ég að nokkuð sé til í þeirri gagnrýni Vantrúarmanna að nokkuð skorti upp á skilning á inntaki orða og setninga. Það er undarlegur kafli í ritgerðinni sem fjallar um notkun orðsins „hundur“.

Á einhverjum lista hans Bjarna segir hann að þeir hafi kallað fyrrum biskup Íslands „hund“.

Vantrúarmenn mótmæla því að hér hafi verið á nokkurn hátt að gera lítið úr biskupnum. Hér er upprunalega tilvitnunin:

„Gefum karlinum breik, hann er nú hátt í hundrað ára. þegar hann óx úr grasi voru hommahatur og rasismi standard siðferðisviðhorf og varla hægt að ætlast til þess að svo gamall hundur læri að sitja í takt við þróun siðferðisviðmiða.“

Guðni reynir að færa rök fyrir því að hér sé raunverulega verið að tala um biskupinn í niðrandi merkingu. Sem að vissu leyti er ekki fráleitt. Hinsvegar bregst honum bogalistin að mínu mati þegar hann reynir að styrkja þá skoðun sína að hundatal sé niðrandi með því að Vantrúarfélagar hafi í raun sjálfir viðurkennt það því þeir hafi sjálfir orðið sármóðgaðir þegar þeir voru sagðir hanga á sannfæringu „eins og hundar á roði“.

Ég veit ekki hversu mikið rými Guðni ætlast til að fá utan um bókmenntafræðilegar fabúleringar um greiningarramma  en hér er hann úti á þekju. Hafi meðlimum Vantrúar mislíkað að vera sagðir hanga á sannfæringu sinni eins og hundar á roði er það örugglega ekki vegna þess að þeim þyki fyrir neðan virðingu sína að vera líkt við hunda. Miklu nær er að álykta að það sé vegna þess að þeir séu sakaðir um að hunsa gild rök. Enda segir Guðni sjálfur á öðrum stað að þeim sé mjög annt um að vera „sannleikans megin“ í málum. Þessar hundakúnstir Guðna sýna mjög glögglega hve margt er laust í reipunum hjá honum og langsótt. 

Svo er það raunar umhugsunarefni hvernig hægt er að lesa umrædda tilvitnun um biskupinn og komast að því að þar blasi við einhver óbilgirni í garð biskupsins því notað sé líkingamál sem inniheldur hund – en láta hjá líða að biskupinn er svo gott sem kallaður hommahatandi rasisti fyrr í sömu efnisgrein.

Af þeim dæmum sem Guðni hefur eftir Ásgeiri get ég ekki betur séð en að Ásgeir hafi haft nokkuð til síns máls. Þannig ku Bjarni hafa vitnað til orða Matthíasar Ásgeirssonar með þeim hætti að hann hafi sagt: „Ég er orðinn þreyttur á þessum háskólakennurum sem [...] móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.“ Ásgeir segir að hér sé sleppt út kjarna athugasemdarinnar. Það sem vantar inn í tilvitnunina sé kjarni þess að Ásgeir segi við hæfi að kalla þá hálfvita. Í heild sinni eru ummælin þau að Ásgeir sé þreyttur á kennurum sem móðgast við að vera kallaðir hálfvitar en stundi það sjálfir að hóta mönnum heljarvist. 

Guðni segir að erfitt sé að túlka það þannig að niðurfellingin láti Matthías líta verr út en ella.

Guðni segir að erfitt sé að túlka það þannig að niðurfellingin láti Matthías líta verr út en ella. Það sé ljóst af samhenginu að kennararnir móðgist yfir einhverju. Hvað það sé skipti ekki öllu máli. Enda sé bara verið að greina ákveðin stef og mynstur í orðbragði. Inntakið skipti ekki öllu máli. 

Þetta er afar ódýr afgreiðsla. Það hvort Guðni telji auðvelt eða erfitt að túlka hluti á einn veg eða annað trompar ekki skilning annarra. Það er augljóst að úrfellingin lætur ummælin líta verr út. 

Niðurstaða Guðna er að málið einkennist af óþoli og djúpstæðum skorti á forvitni Vantrúarmanna. Þeir séu blindaðir á augljósustu skýringar og lifi í heimi getgátunnar. Hann fullyrðir að enginn þeirra hafi spurt gagnrýnna spurninga og að þeir séu akademískt latir.

Nú er tímabært að upplýsa að ég tel afar mikilvægt að akademían sé sjálfstæð og að innan hennar fái ögrandi hugmyndir að þrífast. Ég geng svo langt að taka undir þann hluta lektorsmálsins að það sé mikilvægt að innan deilda háskólans séu mismunandi skoðanir og áherslur. Jafnvel þótt það kosti að Sjálfstæðismenn eigi sína fulltrúa.

Kærumál Vantrúar gegn Bjarna voru að mínu áliti misráðin. Þeir máttu gagnrýna hann eins og þeir vildu en að mínu mati á akademían sjálf að búa yfir þeim forsendum sem dæma um gæði starfa innan hennar. Vantrúarmenn eru að mínu máti stundum óþarflega hörundssárir og stundum glittir í þráhyggju.

Ég verð samt að segja að þessi ritgerð Guðna kveikir með mér miklar efasemdir um gæði akademíunnar. Og þeim mun nærtækari áhyggjur sem Guðni er afdráttalausari í yfirlýsingum um að hans nálgun á málið sé til að slá varðstöðu um akademíuna eins og hún er.

Ég dæmi ekki um vinnubrögð Bjarna Randvers í málinu – en ég geri ráð fyrir að varðstaða Guðna nái til hans eigin starfa einnig. Mér sýnist á öllu að hér eigi málshátturinn við: Heima er hundurinn frakkastur.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu