Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Það sem læra má af samstöðufundi kennara

Það sem læra má af samstöðufundi kennara

Um síðustu helgi heimsótti ég Skagafjörð. Þar var haldin stór námsstefna kennara sem nota mikið tölvur og upplýsingatækni. Þar voru einnig erlendir gestir. Krafturinn og samstaðan leyndi sér ekki. Starfsánægjan ekki heldur. Allir hlökkuðu til að snúa aftur í skólana sína og reyna nýjar hugmyndir.

Í gær mætti ég í Háskólabíó ásamt meirihluta kennara á Höfuðborgarsvæðinu. Þar héldum við samstöðufund. Þar fann ég aftur þennan kraft og þessa samstöðu. Ég er samt ekki jafn viss að menn hafi hlakkað til að mæta í vinnuna. Ekki eins og staðan er.

Ég lærði lexíu af fundinum í gær. Lexíu um það hvernig maður vinnur í, með og fyrir stétt fagfólks. Ástæða þess að fundurinn í gær gekk eins og í sögu var einföld: Fundurinn var segl – ekki dráttarbátur.

Það eru engar ýkjur að staðan í grunnskólunum sé svört. Við erum á stórhættulegum stað. Margt hefur misfarist síðustu mánuði, misseri og ár sem leiðir til þess að staðan nú er eldfim. Þar spilast inn í hrunið, þar spilast inn í klofnun í kennarastétt og afleikir forystunnar. Langmest áhrif hefur þó haft að stjórnendur skólamála hafa ekki áttað sig á þessari staðreynd: Fagfólk er vindur, ekki grjót. 

Öll skip þurfa grjót, ballest. Annars geta þau farið á hliðina í ólgusjó. En í logni geta skipin setið kyrr – og þeim mun lengur sem meira er af grjóti.

Stjórnendur skólamála hafa umgengist kennara eins og dauða hluti síðustu misseri. Borgarstjórinn í Reykjavík, Jón Gnarr, sagði meira að segja að það að breyta grunnskólum væri eins og að flytja kirkjugarð, maður fengi enga hjálp innanfrá. Voða fyndið auðvitað – en kaldranalegt í ljósi þess að mat á þeim aðgerðum sem hann var þar að tala um leiddi í ljós að stærsti einstaki gallinn á aðgerðunum var nær fullkomið samráðsleysi við kennara. 

Mörg sveitarfélög vilja að kennarar séu til staðar og ástundi faglegt samstarf eftir kennslustundir. Margir kennarar vilja það líka. Ég er einn af þeim. Það er tíminn eftir kennslu sem nýtist mér mest í samstarfi við fagfólkið í kringum mig. En ég kenni líka í skóla sem í mörg ár ástundaði mjög markvisst þróunarstarf í þessa veru. Ég hef líka kennt í skólum þar sem hver var í sínu eftir kennslu. Það, og slakur tölvukostur, leiddi þá til þess að ég vann gjarnan eftir kennslu á bókasöfnum, kaffihúsum eða heima hjá mér.

Ég vinn enn mikið heima. Það skapraunar oft konunni minni að ég skuli vera kennari. Ég er alltaf að hugsa, stökkva í tölvuna eða sökkva mér í eitthvað sem tengist vinnunni. 

Margir kennarar búa við töluverða faglega einangrun. Ég vildi óska að þeir fengju allir að kynnast gjöfulu og frjóu samstarfi. Og ég held að flestir geti fengið að kynnast því og vilji kynnast því. En í stað þess að sýna faglegum metnaði kennara þá virðingu sem hann á skilinn hefur grjótfólkið skipulagt skólaþróunina með þeim hætti að kennarar, sem jafnvel búa við slæmar vinnuaðstæður og tækjakost, skulu gjöra svo vel að sitja við borð í skólunum þar til á mínútunni fjögur eða fimm – og stimpla sig inn og út. Þeim er hótað með því að annars fái þeir ekki borgað. Og þeir fá ekkert greitt fyrir yfirvinnu sem stimpilklukkan mælir. Hún er gefins.

Það að binda líkama kennara við skrifborð er hið sama og að hvolfa grjóti ofan í lestir skips. Það er ekki kjötið á kennurunum sem skapar skóla – það er hugurinn. Og hugurinn er vindurinn. Til að virkja hann þarf að sleppa honum frjálsum, og vinda svo upp seglin. 

Í dag er mikið af vansælum og óhamingjusömum kennurum í skólunum. Við erum líka brotakennd og pirruð stétt. Margir eru hættir að fara á kaffistofurnar því þeir nenna ekki stemmningunni og staðblænum. Neikvæðninni, tuðinu, sundrungunni.

Þess vegna kom á óvart að kennarar skyldu sameinast sem einn maður í tvígang á rúmri viku. Við höfum aldrei, í þau 20 ár sem ég hef starfað í stéttinni, verið jafn samheldin og ákveðin.

Í gær rann upp fyrir mér af hverju.

Það byrjaði sem gola. Árbæjarskóli var fyrstur. Svo fylgdu nokkrir í kjölfarið. Brátt var komið dálítið rok. Aðgerðir voru óumflýjanlegar. Það þurfti enginn að segja neitt. Það vissu það allir – spurningin var bara hvort við færum í þær saman eða í mörgum litlum hópum.

Þá var segl sett á loft, og það greip vindinn. 

Námsstefnan í Skagafirði var líka svona segl. Og blessunarlega hef ég í störfum mínum verið fundvís á þau. Því aðeins þegar ég fæ að hreyfast af eigin rammleik fæ ég þrifist í þessu starfi. Í því felst fagmennska mín. Í því felst verðmæti mitt fyrir skólann. 

Þegar fagmaður fær ekki tækifæri til að hreyfa við hlutunum skapast sjúklegt ástand. Skólakerfið okkar er því miður smitað af svona sjúkleika. Sumir vinna beinlínis að honum.

Það borgar sig nefnilega aldrei að láta steinana segja vindinum fyrir verkum. Þvert á móti er það vindurinn sem á að fá að sverfa steinana til.

Myndin með þessari færslu lýsir líðan okkar kennara vel í dag. Okkur er misboðið, við erum reið, við erum áhyggjufull. 

Það kann að vera að starfskraftar okkar séu víða í fjötrum, aðstæðurnar slæmar og kjörin ömurleg – en ef ekki verður hlustað á okkur, ef við missum röddina líka, þá er þetta búið.

Þetta má ekki vera búið

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu