Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Katarínus

Einu sinni þótti svo fráleitt að konur gætu leitt ríkisstjórnir á Íslandi að eðlilegt taldist að nefna þær kvennefnum eftir leiðtogum þeirra. Stefanía var ríkisstjórn undir forystu Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Nú eru tímar, til allrar lukku, breyttir og í dag hefjast tilraunir til að mynda ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ef hún verður til ætla ég aldrei að kalla hana annað en Katarínus.

Það verður samt ekki auðvelt að mynda ríkisstjórn. Vinstri menn tortryggja Viðreisn og allir tortryggja Pírata. Enginn snertir á Framsókn fyrr en búið er að sparka Sigmundi (og helst Gunnari Braga líka). Þá lifir bak við tjöldin ósk um að stjórnarmyndunarviðræðurnar fari í hnút svo hægt sé að mynda hina forboðnu draumastjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Vg. Sem í dag virkar þó meira eins og óskhyggja drykkfellds fjölskylduföður um að konan standi ekki við það að sparka honum út.

Við fyrstu sýn virðist flókið að mynda málefnasamhljóm milli Lækjarbrekkuhópsins og Viðreisnar. Við aðra sýn virkar sameiginlegi flöturinn augljós.

Katarínus ætti að vera stjórn um nýsköpun, menntun og réttlæti. Með fullri virðingu fyrir hinum flokkunum þá getur Viðreisnarfólk og Píratar lagt meira af mörkum til nýsköpunarstefnu en hinir flokkarnir. Viðreisn og Vg geta leitt baráttu gegn kynbundu misrétti. Allir þurfa þeir að koma saman í aðgerðum til að auka samfélagslegt réttlæti – og það fer vel á því að gamli menntamálaráðherrann verði forsætisráðherra stjórnarinnar sem skapar sátt um menntun og vísindi – eftir hina hörmulegu eyðimerkurgöngu Illuga Gunnarssonar.

Skapa þarf sátt í samfélaginu um mikilvægi menntunar, tækni og vísinda og við eigum að fara í samhent átak við að meta möguleika okkar á oddastöðu í stafrænum, samtengdum heimi 21. aldar.

Endurreisa þarf menntakerfið og losa hengingarólina af háskólastiginu. Ef það er rétt að hér sé fjárhagslegt tækifæri eftir margra ára niðurskurð – þá er augljóst að endurreisn heilbrigðis- og menntakerfis er hin augljósa leið áfram.

Ég auglýsi hér með eftir framsækinni, bjartsýnni og hugmyndaríkri ríkisstjórn. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni