Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Ár umsköpunar er hálfnað

Ár umsköpunar er hálfnað

Á árinu verða bæði forsetakosningar og alþingiskosningar. Það er því tækifæri til að hleypa að nýjum tíðaranda, kveðja þann gamla og heilsa þeim næsta.

Hvaða þjóðgildi geymir næsti tíðarandi?

Nýr tíðarandi hefur vissulega eflst á liðnum árum á Íslandi en sá gamli tekur hart á móti. Græðgi, hroki, spilling, agaleysi, yfirburðatrú, einstaklingshyggja, einsleitni og stjórnlaus framsækni vilja ekki víkja fyrir jöfnuði, samvinnu, heiðarleika, gagnsæi, náttúruvernd, sambyrgð, virðingu, víðsýni, fjölhyggju, samlíðun og nægjusemi.

Öllu er teflt fram til að kveða niður nýja tíma. Gamli tíðarandinn vill ekki víkja þótt hann sé feigur og farinn á taugum og standi taugaveiklaður á tánum.

Ný tíð svífur yfir vötnum.

Nýr tíðarandi óskar eindregið eftir gagnrýnni hugsun í stað þessa leiðinda karps. Næsti tíðarandi verður, ef við viljum, kenndur við fjölhyggju. Hann lyftir því sem hefur gildi, teflir ekki fram einni lausn, heldur mörgum samofnum. Hann er ekki átakasækinn heldur mildur og friðsamur og vinnur í þágu fólksins. Aðferðin felst í því að beita uppbyggilegri gagnrýni, greina, skýra og miðla á faglegan hátt og ræða málin til að varpa ljósi á sem flestar hliðar og hagsmuni.

Ný tíð kýs gildi fremur en hluti, hvetur fólk til að sameinist um valin þjóðgildi og setja sér markmið út frá þeim. Nýr tíðarandi þarf stjórnarskrá sem dýpkar ábyrgðina á landi og sögu, náttúru, tungu og menningu og rétti fólks til að búa við heilnæmt umhverfi.

Framtíðin er val, hún er mótuð af hugrekki þeirra sem stíga lífsgönguna á hverjum tíma. Hún fer ýmist fram eða aftur, í hringi eða spíral í meðvindi eða mótvindi tíðarandans. Gangan á milli þess sem er og þess sem verður tekur á, hún þarfnast þolinmæði og úthalds göngufólks sem hefur hugsjón og hugrekki.

Tíminn er afstæður en gamli tíðarandinn mun væntanlega hopa á fæti og næsti tíðarandi verður ríkjandi á þessu ári –  ef við viljum. Biðin varð lengri en búast mátti við eftir hrun, en engin ástæða er til að missa vonina. Árið 2016 er ár fjörbrota og umsköpunar.

Árið 2016 er óvenju mikilvægt. Annaðhvort hægist á umbreytingunni og sá gamli tórir áfram eins og skuggi - eða ekki - og nýr tíðarandi sprettur upp eins og jurt í sólinni.

Hvaða þjóðgildi hafa ríkt á Íslandi og hvaða gildi eru að brjótast fram? Gunnar Hersveinn heldur erindi um málið í Borgartúni 16, mánudaginn 23. maí kl. 20 í kosningamiðstöð Andra Snæs Magnasonar. 

Facebookviðburður: Þjóðgildin fyrr og nú 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu