Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hver er staða heiðarleikans í samfélaginu?

Hver er staða heiðarleikans í samfélaginu?

Í atvinnuauglýsingum er oft auglýst eftir heiðarleika – og þá í bland við aðra kosti. Hæfniskröfur geta verið snyrtimennska, heiðarleiki og stundvísi, eða að samviskusemi, heiðarleiki og góð nærvera séu áskilin. Óskað er eftir hreinu sakavottorði og heiðarleika, eða heiðarleika, dugnaði, góðri framkomu og þjónustulund.

Heiðarleiki er ekki tæknilegur kostur eins og stundvísi eða þjónustulund. Hann er eitthvað dýpra og þýðingarmeira. Hinn óstundvísi getur vissulega valdið skaða en hann getur þrátt fyrir bágt tímaskyn verið vel liðinn í samfélaginu. Hinum óheiðarlega er hins vegar sjaldan hampað. Enginn segir: Hann er óheiðarlegur, en ég mæli eindregið með honum.

Allir vita að þeir eiga að vera heiðarlegir og fólk segist vera það. En ef til vill vita fæstir í raun hvað felst í því að vera heiðarlegur. Hvers konar líferni fylgir því? Heiðarleiki er gott kjörorð og skapar góða ímynd, en það er ekki nóg. Það er vinsælasta þjóðgildið en hvað merkir það?

Heiðarleiki virðist við fyrstu sýn vera fremur auðveldur viðfangs – eitthvað sem hver sem er getur stundað án umhugsunar. En svo er ekki. Dyggðin er mannraun. Hið algera viðmið heiðarleikans er líf þar sem kúgun og sefjun koma ekki við sögu og þar sem menn láta ekki móta sig eins og leir, heldur búa yfir eigin hugsjón.

Staða heiðarleikans í samfélaginu er alltaf tvíbent. Allir virðast sammála um að hver og einn eigi að vera heiðarlegur, hver stofnun, hvert félag og fyrirtæki starfa undir merki hans. Aftur á móti gera fæstir sér grein fyrir hvað það er að vera heiðarlegur. Það þýðir í fyrsta lagi að vera sjálfum sér trúr og í öðru lagi að sporna gegn því að samfélagið glatist, sporna gegn afli tíðarandans sem leyfir miskunnarlaus samskipti. Heiðarleiki er því líka mótspyrna gegn eyðileggingu. Þriðji þátturinn felst í því að taka þátt með öðrum í mótun betra samfélags.

Heiðarleikinn myndast í öflugu sambandi milli manns og umhverfis, yfirvalda og borgara, fjölmiðla og lesenda. Ef einn valtar yfir annan með ofstopa hefst hnignun og spilling. Almenningur þarf alltaf að gera ráð fyrir að þeir sem annast hagsmuni hans geti fallið í freistni. Gagnrýni, eftirlit og gagnsæi verða ekki úrelt eða óæskileg.

Þjóð sem vill gera heiðarleika að þjóðgildi sínu þarf að leggja ýmislegt á sig. Ekki dugar að kjósa heiðarlega stjórnmálamenn, heiðarlega stjórnmálaflokka, skipta við heiðarlega banka og verslanir. Almenningur þarf sjálfur að vera heilsteyptur og áhugasamur um vænlegt samfélag. Hann má ekki umbera gort yfir snjöllum svikum undan skatti eða aðferðum sem felast í því að greiða ekki í sameiginlega sjóði.

Óheiðarleiki er andhverfa heiðarleikans. Hann felst ekki aðeins í því að blekkja aðra vísvitandi heldur einnig að bogna og láta undan þrýstingi. Að vera óheiðarlegur gagnvart sjálfum sér er líkt og að vinna að eigin tortímingu, því hver og einn verður það sem hann gerir af eigin mætti. Versta aukaverkun óheiðarleikans er að hann ryður heiðarleikanum úr vegi.

Staða heiðarleikans í samfélaginu er tvísýn. Ástæðan er sú að undirhyggja og óheiðarleiki fékk óbærilega mikið rými. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni