Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Flóttamenn - Líbanska leiðin

Flóttamenn - Líbanska leiðin

Íbúar Líbanon eru tæplega 4,5 milljónir. Fjöldi sýrlenskra flóttamanna í Líbanon er ca 1,5 milljónir. Einn af hverjum fjórum íbúum landsins er því sýrlenskur flóttamaður. Þetta er mjög há tala fyrir land sem er tíu sinnum minna en Ísland.

Í júlístríðinu 2006 flúðu margir Líbanir til Sýrlands og bjuggu inni á ættingjum og vinum eða leigðu lausar íbúðir. Því var eðlilegt að Líbanir tækju á móti Sýrlendingum þegar stríðið hófst árið 2011. Engan óraði fyrir því að stríðið myndi endast svona lengi.

Líbanir hafa mikla reynslu af því að taka á móti flóttamönnum. Armenar streymdu hingað þegar þjóðarmorðin stóðu yfir í fyrri heimstyrjöldinni. Fyrir hluta þeirra voru reistar tímabundnar flóttamannabúðir í suður Líbanon. Árið 1948 flykktist hálf milljón Palestínumanna yfir landamærin og fluttu að hluta inn í búðirnar sem fyrir voru, en jafnframt þurfti að stækka búðirnar til að hýsa þennan mikla fjölda þar til lausn finndist í Palestínu-Ísrael deilunni. Palestínumenn eru ennþá hér eins og alþjóð veit, hafa fimmfaldast í fjölda og flóttamannabúðirnar sem reistar voru til bráðabirgða standa ennþá nú 70 árum síðar.

Nú neita Líbanir að reisa fleiri flóttamannabúðir af ótta við að þær standi í áratugi og vilja að Sýrlendingar leigi íbúðir eins og annað fólk, fái sér vinnu eða setji á laggirnar eigið fyrirtæki og kaupi sjálft í matinn. Langflestir sýrlensku flóttamannanna hafa aðlagast samfélaginu ágætlega, hafa opnað verslanir, keyra leigubíla eða fundið aðra atvinnu. Heilu hverfin hafa myndast við bæi á landsbyggðinni með verslunum og öllu tilheyrandi.

Rannsóknir í Afríku hafa sýnt að flóttamenn sem fá tækifæri til að aðlagast samfélaginu á þennan hátt, bæta hagvöxt, auka verslun og viðskipti og ekki síður ná að halda mannlegri reisn og sjálftraustinu. Í þeim tilfellum þar sem flóttamenn sem eru lokaðir inni í flóttamannabúðum, mega ekki leita sér að atvinnu utan búðanna og þurfa að stóla á hjálparstofnanir með matargjafir og aðra nauðsynjavöru, er mikil hætta á að þeir verði smám saman óvirkir og missa getuna til að bjarga sér. Þess vegna er stefna Líbanon ekkert svo slæm og þeir hafa nú lofað að koma öllum sýrlenskum börnum í skóla, sem var langt frá því áður.

En þetta flækir málið fyrir hjálparstofnanir sem nú þurfa að leita uppi þá fátæku og minna menntuðu sem geta litla björg sér veitt. Starfsmenn þeirra þurfa því að finna þá í fátækari hverfum landsins, hjálpa þeim að finna samastað, gefa þeim vasapening og fá í staðinn að skrá þá sem flóttamenn.

Í dalnum uppi á milli fjallanna, Bekaa Valley, hafast fátækir flóttamenn við í hrörlegum búðum. Veturnir eru erfiðir þarna uppi í fjöllunum, það snjóar, snjórinn bráðnar og verður að flóði sem flæðir inn í heimagerðu tjöldin þeirra. Yfirvöld banna hjálparstofnunum hins vegar að útvega þeim varanlegt byggingarefni s.s. steypu eða jafnvel bara gáma til að halda vatnselgnum fyrir utan. Þetta eykur líkur á sjúkdómum og ótímabærum dauðsföllum.

Hér vona allir að stríðinu fari að ljúka og að Sýrlendingar geti snúið aftur heim. Fólk talar um hvað Sýrland hafi verið einstaklega fallegt. En stríðið er ekki lengur stríð Sýrlendinga, ekki frekar en borgarastyrjöldin hér í Líbanon var stríð borgaranna þegar erlend ríki nýttu sér aðstæður til að græða feitt á vopnasölu, málaliðar hvaðanæva komu til að vera þátttakendur í spennandi stríði og uppdópaðar leyniskyttur tóku sér bólfestu í yfirgefnum húsum og skutu á alla, sama hvaða málstað þeir tilheyrðu. Myndin sem fylgir er einmitt af Holiday Inn byggingunni, þar sem ein slík leyniskytta tók sér bólfestu og skaut á alla sem hún kom auga á. Hótelið er nú áminning um að stríð eru ekki lausnin.

Við getum valið hvort stríðið í Sýrlandi hætti eða hvort við samþykkjum áfram að utanaðkomandi ríki viðhaldi stríðinu einungis í því skyni að efla hagvöxt heimafyrir með vopnasölu. Við sáum það í vopnahléinu að sé það vilji Bandaríkjanna og Rússlands að stöðva stríðið, er það hægt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu