Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Að gefa milljón

Að gefa milljón

 

Nú hafa samtökin Gefum Saman gefið eina milljón króna til hjálpar fólki sem býr við sárafátækt. Peningurinn fer meðal annars í að gefa moskítónet til varnar malaríu, í ormahreinsun og í að styðja við fjölskyldur með beinum peningagjöfum. Frekari upplýsingar um starf Gefum Saman er hér að neðan en allir sem vilja vera með eða spyrja nánar út í starfið geta sent póst á gefumsaman@gmail.com.

Gefum Saman
Nú hefur Gefum Saman gefið rúmlega milljón til góðgerðarmála sem áætlað er að hjálpi þúsundum barna, kvenna og manna sem lifir við sárafátækt. Gefum Saman er hópur fólks sem leggur ákveðna upphæð á mánuði inn á sameiginlegan bankareiking og þegar safnast hefur ákveðin upphæð þá veljum við góðgerðarsamtök til að gefa í. Á um 18 mánuðum hefur Gefum Saman gefið níu gjafir, fyrstu fimm gjafirnar voru að upphæð 100.000 krónur en frá og með sjöttu gjöf hafa þær verið 150.000 krónur. Því fleiri sem eru með í Gefum Saman því fleiri og stærri verða gjafirnar. 

Gefum Saman leggur metnað í að koma peningunum áleiðis þar sem mestar líkur eru á að þeir geri sem mest gagn. Til að ná því þá fylgir Gefum Saman meðmælum frá öðrum samtökum á borð við Give Well og The Life You Can Safe en bæði þessi samtök leggja mikið uppúr rannsóknarvinnu og eftirfylgni til þess að meta hvaða góðgerðarsamtök skila bestum árangri. Með því að beita og fylgja rökhugsun við ákvarðanatöku þegar það kemur að gefa peninga í góðgerðarmál er miklu líklegra að maður láti í raun gott af sér leiða heldur en þegar maður bregst við af tilfinningasemi eins og til dæmis þegar fólk ákveður að styrkja félög til þess að hjálpa einu barni sem það hefur séð mynd af. Ótal góðgerðarsamtök fara ekki vel með peningana sem þau þyggja og munur í skilvirkni á milli verstu og bestu góðgerðasamtaka getur verið yfir 100 faldur. 

Hvert á að gefa?
Til að fá sem mest fyrir peninginn þá gefum við alltaf pening til að hjálpa fólki sem býr við sárafátækt fyrir utan landsteinana því þar er neyðin bæði mun meiri og hægt er að fá meira fyrir peninginn. Gott dæmi sem lýsir þessu er kostnaðurinn við að hjálpa blindum. Blindrahundar eru stundum nýttir til þess að aðstoða blinda en blindrahundur getur kostað um fimm milljónir. Hinsvegar er um 80% af allri blindu læknanleg en blinda og verulegur sjónskaði fyrirfinnst að mestu leiti í þróunarríkjum þar sem fólk er fátækt. Í þessum tilvikum er hægt að lækna blindu fyrir um fimm þúsund krónur og því hægt að hjálpa um þúsund manns fyrir fimm milljónir króna. Þegar dæmið er sett upp með þessum hætti, hvort það eigi að hjálpa einni blindri manneskju fyrir fimm milljónir eða hjálpa þúsund manneskjum fyrir sömu upphæð, er augljóst hvor kosturinn er betri.

Að lækna og koma í veg fyrir blindu hjá fátæku fólki er verðugt málefni til þess að gefa pening í. En það eru önnur málefni sem eru ekki síður áhrifamikil. Baráttan gegn malaríu hefur náð verulegum árangri seinustu ár með hjálp moskító varnarnetum. Eitt slíkt net getur varið 1-2 manns í 3-4 ár og kostar ekki nema um 300 krónur. Samtökin Against Malaria Foundation (AMF) hafa nú í mörg ár verið valin eitt af skilvirkustu góðgerðarsamtökunum. Ormahreinsun er einnig ódýr leið til þess að hjálpa fólki sem lifir þar sem ekki er aðgangur að hreinu vatni. Schistosomiasis Control Initiative (SCI) eru öflug samtök sem vinna markvisst að því að lækna og koma í veg fyrir sjúkdóma sem orsakast af sníkjudýrum sem finnast í drykkjarvatni. Nýlegar og núverandi rannsóknir sýna að það sem hjálpar fátæku fólki hvað mest eru peningar. Þessum niðurstöðum hafa samtökin Give Directly fylgt eftir og gefið peninga til fátækra fjöslkyldna í Kenya og Úganda. Það hefur sýnt sig að þessi peningur skilar sér í betra lífi hjá því fólki sem hann fær en rúmlega 100.000 krónur ná að halda uppi 5 manna fjölskyldu í um eitt ár.

Þetta eru nokkur dæmi um hvar peningar til góðgerðarmála gera mikið gagn og hjálpa mörgum.

Hverjir geta gefið?
Að gefa pening í góðgerðarmál er ekki eitthvað sem er forréttindi þeirra sem eru ríkir heldur er það á færi okkar flestra sem hafa efni á að gera gott við sig endrum og eins. Ef að fólk hefur efni á að fara í bíó, fara út að borða, kaupa sér bjór á barnum þá hefur fólk efni á því að gefa pening til góðgerðarmála. Vissulega er fólk sem hefur meira en nóg á milli handanna og það ætti, siðferðislega, að gefa töluvert meira í góðgerðarstarfsemi heldur en annað fólk sem er á meðallaunum. Viðmið fyrir fólk á lágum til meðallaunum er að gefa um 1% af útborguðum tekjum í góðgerðarstarfsemi en fyrir þá launameiri, eins og t.d. þingmenn, ráðherra, lækna og forstjóra fyrirtækja er viðmiðið 10% eða jafnvel meira. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands gefur 300.000 krónur á mánuði í góðgerðarmál sem er yfir 20% af útborguðum launum hans en hann hefur þó ekki viljað gefa upp hvert hann gefur peningana. En svo er, að svo stöddu, ekki aðal atriðið hvað hver gefur mikið heldur að fá sem flesta til þess að gefa og þá gildir einu hvort það er með í gegnum Gefum Saman eða ekki. En það sem skiptir máli er að gefa þangað sem þörfin er hvað mest og peningarnir gera mest gagn.

 

Allar gjafir Gefum Saman til þessa eru:

  1. 100.000 krónur til Schistosomiasis Control Initiative
  2. 100.000 krónur til Against Malaria Foundation
  3. 100.000 krónur til SEVA
  4. 100.000 krónur til Global Alliance for Improved Nutrition
  5. 100.000 krónur til Give Directly
  6. 150.000 krónur til Schistosomiasis Control Initiative
  7. 150.000 krónur til Living Goods
  8. 150.000 krónur til Helen Keller International: Vitamin A Supplementation (HKI)
  9. 150.000 krónur til Give Directly: Refugees


Upplýsingar um öll þessi góðgerðarmál má finna hér:
givewell.org og thelifeyoucansave.org

Viltu vera með í að gefa með Gefum Saman? Sendu póst á
gefumsaman@gmail.com.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni