Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Stóri fíllinn í herberginu

Þegar Helga Vala Helgadóttir fór að tala um daginn í Silfrinu um álag á starfsfólk í grunnþjónustu og þá sýnilegu bresti innviða sem það sýnir þá þögðu aðrir gestir þáttarins ásamt þáttastjórnenda og urðu nokkuð vandræðalegir í fari að manni sýndist.

Hún hafði bent á fílinn í herberginu sem enginn vildi tala um.

Enda þegar hún hafði hætt að tala um þessa pólitík sem hún skildi ekki þá létu þáttastjórnandi og aðrir gestir eins og þetta hefði ekki átt sér stað heldur tóku upp hjalið um hver gæti orðið næsti formaður Framsóknar og rifust svo í Excel-dálkatali um skatt á ferðaþjónustuna.

Svo kláraðist þátturinn og lítið múkk heyrðist í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um að það væri stór fíll í hinu samfélagslega herbergi er kallast Ísland.

Samt hvarf þessi fíll brostinna innviða ekkert þó þeir sem fara með völdin nú séu að reyna að svelta hann skipulega til bana.

Það eru það mörg sýnileg teikn um að álag og bresti í innviðum samfélagsins að manni finnst að það eigi að vera aðalumfjöllunarefni spjallþátta, samfélagsmiðla og annarra sem láta sig málin varða.

Bara síðastliðna viku frá því að þetta Silfur fór í loftið þá höfum við fengið fregnir af því að það fást ekki hjúkrunarfræðingar í sumarafleysingar á Landsspítalann til viðbótar við mikinn skort á þeim. Þetta þýðir að starfandi hjúkrunarfræðingar þurfa að taka á sig 400 aukavaktir til að brúa bilið á þessum gósentíma ferðaþjónustunnar sem vill lítið borga til samfélagsins.

Maður giskar eiginlega á að frítakan verði af skornum skammti og í litlum skömmtum án nægilegrar hvíldar.

Við höfum einnig fengið fregnir af því að sjúkraflutningamenn út á landi hefðu ætlað að fara að segja upp störfum vegna ómanneskjulegs álags og svikinna loforða um úrbætur. Það náðist þó samkomulag sem manni grunar að sé einhver plástur frekar en varanlegar úrbætur.

Við höfum fengið fregnir af því að kennarar séu að bugast undan álagi og að brenna út án þess að reynt sé að bæta hag þeirra. Þetta hefur haft þær afleiðngar að þeir hrökklast frá þessum starfsvettvangi og skilja við nemendurna sem við fréttum einnig að byggju undir miklu álagi vegna styttingu náms í framhaldsskólum.

Við höfum fengið fregnir af því að það þarf að fækka lögreglumönnum vegna fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og auka þar með álag á aðra sem sitja eftir.

Við höfum fengið fregnir af því að Samgöngustofa sem og fleiri stofnanir vinni hægt vegna of mikils á fáliðað starfsfólk.

Fjölmargar fleiri fréttir hafa borist svo til viðbótar um ráðningabann hjá HÍ og fleira í slíkum dúr sem þýðir einfaldlega að það verður meira álag hjá þeim sem sitja eftir.

Allt þetta til viðbótar við atgervisflótta og glataðrar þekkingar sem þarf að læra upp á nýtt þegar og ef einhver fæst til að vinna vinnuna í staðinn.

Og þetta er að gerast á góðæristímum þar sem okkur er sagt að allt sé fljótandi í peningum, aldrei verið eins gott á landinu og allt sé bara komið í blússandi sælu.

Samt er verið að svelta allt og neitað að sækja peninga til að reka grunnþjónustur samfélagsins til hinna ríku.

Ég segi eins og Helga Vala.

Ég skil ekki svona pólitík.

Ég skil heldur ekki af hverju stjórnmálamenn eru svo ómanneskjulegir og illgjarnir að fara svo illa með fólk að það gefst upp og brennur út með auknum brestum í grunnstoðum samfélagsins.

Grunnstoðirnar eru nefnilega byggðar á fólki sem þjónar samfélaginu sem er byggt upp af fólki fyrir fólk en eru ekki byggðar eftir arðsemisútreikningum Excel-skjala tilfinningalausra pappírspésa hjá Samtökum Atvinnulífsins sem meta allt eftir því hvað einhverjir örfáir geta mokað í eigin vasa og skúffur sínar í Panama.

Ég skil heldur ekki þá kjósendur, fjölmiðlamenn og álitsgjafa sem benda ekki á fílinn í herberginu heldur eru meðvirk með að láta eins og hann sé ekki til.

Við verðum að fara að horfa á fílinn í herberginu og láta stjórnmálamennina vita að þessar millur sem þeir fá á mánuði fyrir að mæta(eða mæta ekki) í vinnuna séu greiddar í þeim tilgangi að þeir hafi það verkefni að byggja upp samfélagið en ekki brjóta það niður fyrir einhverja vini, ættingja og hagsmunaðila út í bæ sem hafa eingöngu áhuga á að græða sem mest.

Um þennan stóra fíl brostinna innviða og hvernig við getum bjargað honum til lífs ætti stjórnmálaumræðan á svokölluðu alþingi, spjallþáttum og í heitu pottunum að snúast.

Ekki hvort einhver verður formaður Framsóknarflokksins á næsta ári eða Simmi sé kominn með eigið einkafýlufélag.

Það er lúxusumræða hinna meðvirku.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu